145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

íslenskukennsla fyrir innflytjendur.

[10:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við erum hérna í miðri umræðu um fjárlög. Við slík tækifæri kafar maður í fjárlögin eins og gengur og ég hef verið að skoða sérstaklega málefni innflytjenda eða þeirra íbúa landsins sem eru af erlendu bergi brotnir. Það verður að segjast eins og er þegar maður skoðar fjárlögin að sá málaflokkur er mjög ósýnilegur. Fáir liðir koma beint að málaflokknum, þetta er meira falið inni í safnliðum og á bak við stofnanir.

Mig langar til að beina orðum mínum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í þessu samhengi. Það má eiginlega segja að eini skýri liðurinn undir menntamálum gagnvart þeim nú 8% íbúa landsins sem eiga erlenda foreldra eða eru af erlendum uppruna sé liðurinn um framhaldsfræðslu og íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þegar maður skoðar þróunina á þeim lið er hún ansi ískyggileg vegna þess að árin 2008 og 2009 fóru um það bil 250 milljónir í þennan málaflokk, en upphæðin lækkaði strax 2010 niður í 130 milljónir og er núna 145 milljónir.

Það er eiginlega einsdæmi á Norðurlöndum að kostnaður við tungumálakennslu innflytjenda sé ekki að fullu greiddur af ríkinu. Hér er hann bara að hluta til greiddur og það hlutfall hefur farið lækkandi. Það er orðið hamlandi fyrir innflytjendur að sækja íslenskunám. Því langar mig að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvernig honum líði gagnvart þessu og hvort hann sé ekki sammála mér um að það skipti máli að menntakerfið sé, eins og önnur kerfi, fyrir alla íbúa landsins, þar á meðal þessi 8% sem eru aðflutt á einn hátt eða annan.