145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

íslenskukennsla fyrir innflytjendur.

[10:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Átakið um læsi hefur kannski ekki verið alveg nógu skýrt fyrir okkur þingmönnum, en maður hefur haft áhyggjur af því að þar sé ekki horft sérstaklega til þeirra sem tala annað tungumál og að ekki sé verið að sinna móðurmálskennslu þeirra sem er grunnurinn að öllu læsi.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að flóttamenn eru mjög lítill hluti af þessu heildarmengi. Þó að við tökum á móti nokkrum tugum kvótaflóttamanna eða kannski hundruðum flóttamanna í allt búa tugþúsundir útlendinga á Íslandi sem tala annað tungumál sem fyrsta mál. Ég hvet ráðherra til að taka höndum saman með mér og fleirum á þinginu um að styrkja þennan málaflokk í kerfinu hjá okkur, ekki síst þegar kemur að fjármagni. (Forseti hringir.) Það þarf ekki mikið til.