145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

afturvirk hækkun bóta.

[10:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þá höfum við heyrt prósentuupptalningu ráðherrans. Allir vita að hún skiptir litlu máli í veruleikanum, þar er það krónutalan sem skiptir máli. Prósentur af litlu eru lítið. Ég spyr ráðherrann aftur: Hefur hún barist fyrir því innan ríkisstjórnarinnar, og þá ekki náð því fram, að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir frá sama tíma og aðrir? Eða er enginn í ríkisstjórninni að berjast fyrir þessa hópa? Ég spyr ráðherrann hvernig eigi að túlka það að átta af tíu ráðherrum mættu ekki í atkvæðagreiðsluna og að ráðherra almannatrygginga hafi ekki komið til að segja nei við aldraða og öryrkja heldur látið hengja almenna stjórnarþingmenn sína út á samfélagsmiðlum með nöfn og myndir um þá sem voru vondir og sögðu nei. Er (Gripið fram í.) það vegna þess að ráðherrann vildi ekki koma og segja nei? Er ráðherrann að berjast fyrir því, og ég vona að svo sé, að þessu verði breytt á milli 2. og 3. umr.? Er einhver von til þess, virðulegur ráðherra, að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sjái að sér í þessu og komi til móts við þá sanngjörnu kröfu að eins sé farið með þessa hópa og aðra?