145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

afturvirk hækkun bóta.

[10:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði af því að svo virðist sem hv. þingmaður hafi ekki skilið það sem ég sagði um það hvað felst í þeirri hækkun sem kemur fram í tillögum okkar í meiri hlutanum. Hækkunin tekur mið af endurmetinni þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í nóvember um þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði. Það er hækkun á meðaltöxtum, bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Ég veit að hv. þingmaður ætti að geta skilið þetta. Í því felst að meðallaunahækkun ársins 2015 umfram 3% hækkun bóta almannatrygginga í byrjun þessa árs er innifalin í hækkuninni í fjárlögum ársins 2016.

Forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar kemur líka skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu. Þegar við lögðum það fram lögðum við áherslu á að hækka bætur. Bætur munu hækka um 14,2 milljarða 1. janúar 2016. Inni í þeirri tölu eru 3,9 milljarðar sem eru afturvirk hækkun vegna launaþróunar á árinu. Það bætist ofan á þá 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2014 en ekki aðrir. Við munum síðan áfram, eins og gagnvart (Forseti hringir.) öllum þjóðfélagshópum í samfélaginu, standa að því að bæta kjör þessara hópa. Það höfum við gert, það höfum við sýnt.