145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

hækkun launa og bóta.

[10:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir útskýringarnar á því hver rökin voru fyrir því að standa að skerðingu bóta til öryrkja og ellilífeyrisþega. En ég ítreka það sem ég sagði; við munum halda áfram að bæta kjör þessara hópa eins og við höfum verið að gera.

Ég vil fá að nýta tækifærið og minna á aðrar aðgerðir sem finna má í fjárlagafrumvarpinu sem snúa einmitt að þeim sem minna hafa. Við erum með tillögur sem snúa að verulega breyttum húsnæðisstuðningi, en fram kemur í rannsókn Hagstofunnar að leigjendur eru mun líklegri til þess að vera fyrir neðan lágtekjumörk en húseigendur. Það hefur að vísu batnað í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. það hlutfall hefur lækkað. Öryrki sem býr einn mun í nýju húsnæðisbótakerfi fá um 9 þús. kr. meira en í núverandi kerfi, skattfrjálst. Síðan er áætlað að fjárveiting til opinbers húsnæðisstuðnings til leigjenda muni aukast um 2 milljarða á ári í tveimur skrefum, verði frumvarpið að lögum. Við gerum ráð fyrir 1,1 milljarði kr. árið 2016 í hækkun húsnæðisbóta.

Svo vil ég líka fá að nota tækifærið og minna á nýja félagslega leiguíbúðakerfið sem lesa má um í fjárlagafrumvarpinu. Með því er ætlunin (Forseti hringir.) að eignaminni leigjendur, þeir sem minnst hafa milli handanna, (Forseti hringir.) greiði ekki meira en 20–25% af tekjum sínum í húsnæðiskostnað, eða, miðað við tölur sem við höfum verið að ræða hér, um 50–60 þús. kr. á mánuði í húsaleigu. (Forseti hringir.) Gert er ráð fyrir 1,5 milljörðum í stofnframlög til þess.