145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

matvælaframleiðsla framtíðarinnar.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa áhugaverðu fyrirspurn. Ég held að ég verði að svara með því að segja að það eru ekki uppi nein áform eða vinna um að skoða þessa framtíðarsýn þingmannsins. Ég verð að segja alveg eins og er að persónulega hugnast mér ekkert sérstaklega vel að við séum farin að rækta matinn okkar á tilraunastofu. Ég vonast til að það verði einhver tími í það.

Það eru hins vegar alls konar leiðir til að draga úr mengun í landbúnaði eða áhrifum á loftslagið. Menn eru um allan heim að gaumgæfa slíkar leiðir. Í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru nokkur slík atriði innan lands sem eru mjög áhugaverð.

Varðandi þá framtíðarsýn sem ég man eftir að hafa séð í bíómynd eftir Woody Allen þar sem menn tóku eina töflu sem matarforða þess dags þá getur vel verið að langt sé í það. Ég vona satt best að segja að það sé langt í það að öll okkar næring verði framleidd á tilraunastofum.

Ég hef skynjað þann áhuga meðal almennings á Íslandi og reyndar mjög víða um hinn vestræna heim og víðar að það sem menn vilja fyrst og fremst tryggja er að matvæli séu heilnæm, séu trygg. Ég verð að viðurkenna að sú framtíðarsýn að matur verði framleiddur og jafnvel settur í pilluform eða duft á tilraunastofum vekur ekki þá öryggistilfinningu sem ég held að almenningur hafi almennt í þeim efnum, að einstök stórfyrirtæki fari að stjórna allri matarframleiðslu heimsins. Ég trúi því að menn líti frekar á veiðar á villtum fiski til dæmis sem örugga leið til að fá prótein og vilji horfa á þá fjölskyldustemningu sem (Forseti hringir.) er á Íslandi við að rækta og búa til heilnæm matvæli.