145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

greiðsluþátttökuheimildir lyfjagreiðslunefndar.

[11:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál var til umræðu að beiðni hv. fyrirspyrjanda í velferðarnefnd í gærmorgun þar sem formaður lyfjagreiðslunefndar, formaður lyfjanefndar og lyfjamálastjóri ríkisins mættu. Þar var regluverkið skýrt út fyrir nefndinni. Eftir mínum upplýsingum hafa allir þessir þrír forstöðumenn upplýst nefndina um að ekki væru kvótar í notkun lyfja heldur væri unnið á grundvelli áætlana sem unnar væru af okkar færasta fólki innan Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, Sjúkratrygginga Íslands og lyfjagreiðslunefndar og miðuðu áætlanir þessar við það að vinna úr þeim fjárheimildum sem Alþingi setti um þessi efni.

Eins og fram hefur komið er fjárstjórnarvald Alþingis mjög tryggt samkvæmt stjórnarskránni. Ráðherrum eða framkvæmdarvaldinu er óheimilt að greiða nokkurt gjald úr ríkissjóði öðruvísi en að til þess liggi heimildir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég hyggst vinna samkvæmt þeim ákvæðum og virða þau svo framarlega sem unnt er. Ég tel enga ástæðu til að brjóta upp það lögbundna ferli sem í lagasafni okkar er og því regluverki sem um þessi mál gilda. Þau voru raunar síðast endurskoðuð árið 2012 og eftir þeim lögum hefur verið unnið með ágætum árangri. Meginreglan er sú að okkar veikasta fólk er sett fremst við meðferð þeirra sjúkdóma sem lyfjunum er ætlað að vinna á. (Forseti hringir.) Ég veit ekki annað en það samstarf milli lyfjagreiðslunefndar, (Forseti hringir.) lyfjanefndar sjúkrahúsanna hafi gengið ágætlega og snurðulaust fram til þessa.