145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hentar höfðingja að tala til smámanna með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði en þetta er hans vani og maður kippir sér ekki upp við það.

Ég kannast bara alls ekkert við það, virðulegur forseti, að hafa verið að uppnefna menn og verið að tala í bakið á nafngreindum sómamönnum eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég var einungis að vitna í þau orð sem voru viðhöfð á þeim tíma, það sem þessi einstaklingar sögðu. Það má vel vera að spilast hafi betur úr en á horfði í Icesave-deilunni, já, sem betur fer gerði það það. Það er ekki hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þakka, sem var tilbúinn á þeim tíma ásamt fylgisveinum sínum úr Samfylkingunni og Vinstri grænum fyrir utan þá hv. þingmenn sem ég taldi hér upp áðan sem spyrntu við fótum, að skrifa upp á það sem ég fór áðan yfir og þetta hefði getað verið staðan. Það að síðan hafi spilast fyrir einhverjar sakir betur úr hlutunum en lagt var upp með hefur hreinlega ekkert með það að gera hvernig Grýla gamla dó á endanum fyrir Evrópudómstólnum. Það er auðvitað margt annað sem hægt er að rifja upp, virðulegur forseti, en ég ætla ekki að fara í það við þessa umræðu um fjárlögin. En mér fannst nauðsynlegt að við rifjuðum þetta upp vegna þess að tímamótin eru þau að ef þetta hefði allt gengið eftir, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði til á sínum tíma, þá værum við að eiga við fjárlög í dag með allt öðrum hætti en raun ber vitni og þegar verið er að saka (Forseti hringir.) menn um slælega og lélega fjármálastjórn við núverandi aðstæður þá finnst mér kastað úr glerhúsi í þeim efnum.