145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom hérna til að hlusta á ræðu hv. þingmanns um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra hvað hv. þingmaður eyðir miklum tíma í að tala um slugs fyrri ríkisstjórnar og fer að rifja núna upp Icesave-mál. Ég velti því fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekki að fá einhverja meðferð, einhverja sálfræðiaðstoð til að jafna sig á því að hafa ekki setið hér eitt kjörtímabil. Eru þeir algjörlega fastir í fortíðinni og geta ekki horft til framtíðar? Það er nákvæmlega þannig sem mér finnst þetta fjárlagafrumvarp vera, það er engin framtíðarsýn í því. Kannski þyrftum við líka að fá endurmenntun í Icesave-málinu því að ég hef að minnsta kosti lesið rannsóknarskýrslu Alþingis og ég skil málið ekki eins og hv. þingmaður.

Ég hef áhyggjur af þessu. Það hlýtur að vera skaðlegt þegar meiri hlutinn og stjórnvöld eru algjörlega föst í fortíðinni, virðast afneita því að hér hafi orðið hrun. Það er kannski ástæðan fyrir því hversu lítið kemur frá þessari blessuðu hæstv. ríkisstjórn. Þeir átta sig ekki á því að þeir eru aftur komnir við völd og ábyrgðin er þeirra, eru fastir í fortíðinni. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég held þeir ættu að fara að hugsa aðeins um framtíðina og einbeita sér að því, ég held það væri betra fyrir þjóðina.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í fjárlagafrumvarpið. Það er ekki mikill afgangur, það er um 10–11 milljarða afgangur af 700 milljarða rekstri. Telur hv. þingmaður að það sé fullnægjandi rekstrarafgangur, við erum að tala um innan við 2 %? Í ljósi þess að nú árar vel, hefði ekki verið ábyrgara að hafa meiri afgang af fjárlögum?