145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það var almenn þverpólitísk sátt úti um land með sóknaráætlanir. Það var reynslan af því og að því leyti tel ég að full ástæða sé til þess að skoða þann vettvang betur. Það var ánægjulegt að fylgjast með því á þeim stöðum sem ég hafði tök á. Ég vil vitna sérstaklega í Suðurland þar sem ég kynnti mér þetta ágætlega. Hornanna á milli í þessum stóru kjördæmum komu menn sér saman um hvar væri þörfin. Menn voru tilbúnir að fórna frá sjálfum sér til þess að forgangsraða í það og þetta varð betri nýting á fjámununum. Ég held að það mætti almennt vera ríkara í því sem við erum að skoða í slíkum framlögum, vegna þess að það verður líka hvati fyrir sveitarfélögin að sameinast um að leggja sjálf fjármagn á móti til þess að verkefnið klárist. Þannig geti framlög frá Alþingi verið ákveðinn hvati í þeim efnum.

Vitnað var í safnliði en vinnubrögðin í kringum safnliðina þegar ég kom til þings árið 2007 voru mjög gamaldags, ef við getum orðað það þannig, og við urðum að breyta því. Það var auðvitað ekkert vit í því að við sætum þá í þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með einhverjar 6 milljónir, ef ég man rétt, tókum 50–70 gesti á fund nefndarinnar og menn voru að tala um 500 þúsund og 300 þúsund og 800 þúsund. Það þurfti að breyta því. Ég held reyndar að þingið þurfi að hafa um einhver svona mál að segja vegna þess að hvað sem um það verður sagt þá eigum við að reikna með því að þingmenn séu í það góðum tengslum við kjördæmi sín vítt og breitt að það sé langt umfram það sem ráðuneytin, hvert á sínu sviði, (Forseti hringir.) geta verið. Ég held að það eigi að vera sú grasrótartenging til hér í gegnum þingið að það eigi að geta höndlað með þessi mál en ekki með þeim hætti sem það var, það var mjög gamaldags fyrirkomulag og við hefðum þurft að bæta það.