145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja þessa ræðu á því að fjalla um umræðuna og stemninguna í þinghúsinu í gær gagnvart umræðum um fjárlög. Hingað til hefur það verið þannig að við höfum öll vitað að fjárlögin eru stóra myndin af því sem verið er að gera hverju sinni. Þetta er í raun og veru hið stóra stefnumarkandi plagg hverrar ríkisstjórnar. Þar er tekið meira og minna á öllum málum. Þá fylgja menn orðum eftir með aðgerðum og fjármagni. Það hefur verið mikil vinna á bak við það, svo mikil að núverandi stjórnarmeirihluti þurfti tvær viðbótarvikur til að fjalla um þessi mál í nefndinni. Ég ætla ekki að setja út á það. Ef menn þurftu þann tíma er það bara gott og vel, ef menn telja sig skila góðri vinnu. En þegar málið kemur síðan hingað í þingsal og eingöngu talsmenn stjórnarflokkanna sem fulltrúa eiga hér á þingi eru búnir að tala í málinu í fyrradag er okkur hinum ræflunum sem erum líka kosin á þing af fólkinu hér úti mætt með hnefann á lofti og sagt: Ef þið ætlið að fara að tala ætlum við ekki að segja ykkur hversu langir þingfundir verða. Starfandi formaður þingflokks Sjálfstæðismanna kom upp í ræðustól í gærkvöldi og krafðist þess að við segðum honum hversu lengi við ætluðum að tala í þessu máli. Við vorum rétt að byrja umræðuna.

Sá valdhroki sem einkennir ríkisstjórnina kristallaðist í umræðunum í gær. Það á að þagga niður í gagnrýnisröddum sama hvað það kostar. Það á að setja okkur sem reynum að starfa hér eftir bestu getu og samvisku, erum jafnvel gagnrýnin, niður með því að halda því fram að þegar við erum að fara að flytja okkar fyrstu ræðu séum við í málþófi. Við erum að ræða fjárlög. Forseti þingsins tók þátt í því af fullum krafti í gær að reyna að þagga niður í þingmönnum í umræðum um fjárlögin. Hvers vegna eru menn að reyna að þagga niður í okkur í umræðum um fjárlögin? Getur það verið vegna þess að við erum að spyrja óþægilegra spurninga? Getur verið að við séum að koma inn á óþægileg málefni?

Annað dæmi um þá þöggun sem menn reyna að beita er að tromma núna upp og halda ræður um Icesave. Segja við okkur: Hvað er þetta fólk að gagnrýna okkur, eigum við eitthvað að ræða Icesave? Þetta er ekki boðlegt. En svona talar fólk og hagar sér sem er hrætt við umræðuna, hefur ömurlegan málstað að verja, það lætur svona. Það getur ekki komið hingað upp og talað málefnalega um nokkurn skapaðan hlut eða staðið með ákvörðunum sínum. Hrætt fólk. Óttaslegið fólk. Fólk sem veit að það er að gera eitthvað sem mun koma mörgum illa og er gagnrýnt harðlega úti í samfélaginu. Þetta er fólk sem er farið að finna að gjörðir þeirra eru farnar að ná til fólks og fólk farið að gagnrýna það opinberlega. Tökum sem dæmi grein Kára Stefánssonar í dag. Hvernig svara menn henni? Þarna kemur virtur maður í samfélaginu og flytur boðskap innan úr heilbrigðiskerfinu, segir okkur sem hér erum hvernig staðan er. Hvað gerir stjórnarmeirihlutinn? Hlustar hann? Nei. Hann stígur fram á Facebook og talar um að viðkomandi sé popúlisti. Setur á hann stimpil popúlistans. Ef þú ert ekki sammála okkur ertu á móti okkur. Þá ætlum við að setja á þig stimpil popúlistans, þann stimpil að þú tilheyrir bara „góða fólkinu“, eða færð á þig Icesave-stimpilinn eða eitthvað sem fólk hefur neikvæða mynd af. Við ætlum að taka þig niður. Það eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, þingmanna stjórnarmeirihlutans. Það var sú stemning sem kristallaðist í gær. Í gær var sagt við mig hér frammi: Hefur þetta ekki alltaf verið svona? Það hefur bara einu sinni í sögunni farið fram málþóf um fjárlög. Hvenær var það? Haustið 2012 þegar núverandi stjórnarmeirihluti, þeir stjórnarflokkar, með núverandi forseta þingsins í broddi fylkingar, ákvað að taka fjárlögin í gíslingu. Í fyrsta skipti í sögunni var það gert. Þá er ekki furða að þeir haldi að allir aðrir hljóti að gera það líka.

Þetta er ekki boðlegt. Framkoma forseta við okkur almenna þingmenn í gær var til skammar. Í staðinn fyrir að standa með okkur tók hann þátt í þessu af fullum krafti, var framvörður gegn því að við fengjum að tala með góðu móti. Slík framkoma segir manni að þetta fólk hefur vondan málstað að verja. Þolir ekki lýðræðislega umræðu því hún er ofboðslega óþægileg. Svo er hún svolítið leiðinleg og við getum ekki farið okkar fram í skjóli nætur nema þegar við erum að fara með útlendinga úr landi, lítil langveik börn, þá gerum við það. Það var gert í nótt. Meðan við létum yfir okkur ganga að við værum að trufla framgang mála ríkisstjórnarinnar voru þessi sömu stjórnvöld að smala útlendingum upp í rútu og fara með þá af landi brott. Í þeim hópi voru lítil börn sem eru langveik. Við erum komin út á svo ömurlegar brautir að ég veit ekki hvar ég á að byrja til að taka utan um þetta.

Ég ætla aðeins að tala um útlendingamálin. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hélt mjög fína ræðu í gær og talaði um útlendingamálin. Ég gat fellt mig við flest sem hún sagði og verið sammála því. Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur talað hér um flóttamannamál og hælisleitendur og ég hef getað verið sammála mjög mörgu sem hún hefur sagt. En svo gera menn bara eitthvað allt annað. Við erum komin í þá stöðu núna að stjórnvöld hafa ákveðið að fela sig í skjóli einhverra boxa sem hafa verið búin til, það sé bara svona fólk og svona fólk sem við ætlum að taka á móti en aðrir mega éta það sem úti frýs.

Við höfum innleitt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erum með í útlendingalöggjöfinni sjálfri heimildir til að horfa til mannúðarsjónarmiða. Hvenær er rétti tíminn til að horfa til mannúðarsjónarmiða? Er það ekki einmitt þegar hingað hafa komið fjölskyldur sem hafa náð að tengjast hér félagslega, fjölskyldur með lítil börn sem þurfa á stuðningi að halda? Þetta fólk var búið að koma sér fyrir, komið með vinnu. En við, þessi hrokafulla þjóð, settum okkur enn og aftur á háan hest með þessa hrokafullu ríkisstjórn í broddi fylkingar og vísuðum því burt því það passaði ekki inn í boxin okkar, það passaði ekki inn í kríteríurnar okkar.

Virðulegi forseti. Það þarf eitthvað verulegt að fara að breytast, það þarf endurskoðun á öllum okkar viðhorfum og nálgunum. Við höfum fullar heimildir í útlendingalögunum til að leyfa fólki að vera hér sem er svona statt. Við eigum að gera það. En það þurfa augljóslega að koma kosningar til þess að gera á því breytingar og ég ætla að vona að fólk muni eftir því, kjósendur, þegar næst verður gengið til kosninga, hvernig þessi ríkisstjórn kemur fram við fólk, kemur fram við börn, veik börn.

Það sem menn hafa verið að reyna að þagga niður með því að væna okkur um málþóf eða henda í andlitið á okkur umræðum um Icesave og ég veit ekki hvað, er umræðan um málaflokka sem snúa að eldri borgurum og öryrkjum. Fyrir nokkrum dögum buðum við ríkisstjórninni upp á að koma með okkur í þann leiðangur að mæta þessum hópum með því að veita þeim kjarabætur afturvirkt, þ.e. aftur til 1. maí eins og öðru fólki í þessu landi. Það hafa allir fengið þessar kjarabætur. Meira að segja var gengið lengra gagnvart okkur í þinginu og farið með okkur kjarabætur aftur til 1. mars, það var svo mikil þörf á því að við fengjum þetta allt saman bætt. Fannst ríkisstjórninni rétt að það sama gilti um eldri borgara og öryrkja? Nei. Það fannst henni ekki. Maður veltir fyrir sér hvers vegna. Fjármálaráðherra var sá eini úr stjórnarliðinu sem þó kom hingað upp og rökstuddi hvers vegna hann greiddi atkvæði gegn þessu. Hvert var svarið? Jú, hann taldi vera nóg komið, það væri verið að gera nóg fyrir fólk sem hefur unnið og stritað og byggt upp þetta land alla sína ævi og er núna komið á efri ár. Hann taldi nóg að það fengi 170 þús. kr. nettó til að lifa af á mánuði eða 192 þús. kr. nettó. Ef það á einhvern lífeyrissjóð getur það mögulega skriðið upp í 217–240 þús. kr.

Þúsundir íslenskra eldri borgara þurfa að lifa á þessum upphæðum. Er einhver hér inni til í að segja mér að hann geti það? Það gæti það enginn. Það er komið illa fram við þetta fólk og þarna þarf að taka á. Það er reynt að þagga niður í okkur sem gagnrýnum þetta og hingað koma þingmenn stjórnarflokkanna og segja: Af hverju gerðuð þið þetta ekki á síðasta kjörtímabili? Við gerðum nákvæmlega það um mitt ár 2011. Þá var komið inn með tæplega 20 þús. kr. hækkun á lægstu bótum. Hvers vegna? Vegna þess að það voru almennar launahækkanir í landinu. Þetta getur hver sanngjarn maður séð ef hann skoðar tölurnar og hvað fólk hefur verið að fá. Fordæmið er til staðar. Þetta er það sem við eigum að gera því við erum manneskjur. Við vitum að enginn getur lifað á 190 þús. kr. nettó á mánuði. Það hafa allir sagt það í síðustu kjaradeilu og viðurkennt að 300 þús. kr. séu algert lágmark. En nei, þá ætlum við að skilja eldri borgara og öryrkja eftir í 200 þúsund kallinum.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við var ég vongóð um að hún mundi taka sig til því öll þjóðin var með blóði, svita og tárum búin að leggja á sig gríðarmikla vinnu til að reyna að koma ríkisfjármálum á réttan kjöl, koma okkur yfir núllið. Allir lögðust á árarnar. Það vissu allir hvert markmiðið var og hver tilgangurinn var. En það fyrsta sem ríkisstjórnin ákvað að gera var að drífa sig í að lækka veiðigjöldin, lýsa því yfir að auðlegðarskattur yrði ekki framlengdur, hvað þá raforkuskattur. Hvar á þessum lista voru kjör þeirra sem höfðu líka þurft að taka á með okkur, eldri borgarar, öryrkjar? Hvar á þessum lista var heilbrigðiskerfið, hvar var menntakerfið, svo dæmi séu tekin? Þetta var ekki það sem menn töldu að þyrfti að ráðast í strax á vordögum. Menn telja ekki enn að það þurfa að gera. Þegar menn afnámu ákveðnar skerðingar í lífeyriskerfinu sem við studdum, hvað voru þeir þá að gera? Þeir ákváðu að minnka skerðingar út af atvinnutekjum, sem var vel, og líka vegna lífeyristekna þeirra sem fá úr lífeyrissjóð 300 þús. kr. eða hærra. Þeir sem voru með lægstu tekjurnar voru algerlega skildir eftir. Þegar við spurðum að því í velferðarnefnd hvers vegna þessir hópar væru skildir eftir, þ.e. þeir sem lifa á 170–190 þús. kr. eða rúmlega 200 þús. kr., var svarið: Vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn varði þau, við þurfum ekkert að gera fyrir þau. Við þurfum bara að gera eitthvað fyrir þá sem eru með tekjur upp á 300 þús. kr. úr lífeyrissjóði eða meira. Skilja hina eftir. Það var stefnumörkun. En komu menn einhvern tíma fram og sögðu það? Nei. En við erum með stefnumörkunina á blaði frá þessum tíma og þar kemur þetta skýrt fram. Það er ekki hægt að halda neinu öðru fram í umræðunni.

Ég vona að stjórnarþingmenn séu tilbúnir að hlusta á okkur, ekki bara afgreiða okkur sem eitthvert pirrandi lið sem er stöðugt gaggandi og gagnrýnandi þeirra prógramm. Það er ágætt að við eigum samtal og reynum að ná niðurstöðu í ákveðnum málum því við erum líka kjörin á þing sem fulltrúar ákveðinna hópa. Það er ekki hægt að segja við okkur: Þið eruð í málþófi af því að þið eruð að tala. Icesave, hvað með það? Ekki segja neitt, þið getið ekki gagnrýnt okkur út af Icesave, munið þið? Það er ekki hægt að koma svona fram við okkur. Við eigum að tala öðruvísi saman og reyna að ná saman. Ég ætlaði ekkert að halda svona ræðu þar sem ég væri í þessum gír. En dagurinn í gær bauð ekki upp á neitt annað. Við látum ekki þagga niður í okkur með svona trakteringum.

Heilbrigðismálin. Hér er komið og sagt: Það er verið að setja nóg inn í spítalann. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði í gær: Það er vissulega rétt að forstjóri spítalans og yfirmenn hans segja að það vanti 3 milljarða til spítalans en ef við létum hann fá 3 milljarða kæmi bara krafa um aðra þrjá og aðra þrjá og hvar mundi það þá enda? Hvers konar hundalógík er þetta hjá fólki sem ræður í þessu landi? Að ákveða að hlusta ekki á yfirstjórn spítalans heldur afgreiða hana með þessari hundalógík. Ef hún fengi það sem hún segir að þurfi til að viðhalda núverandi þjónustu sé æðisleg hætta á að menn fari að biðja um aðra 3 milljarða og það verði aldrei nóg. Þess vegna sé best að láta hana fá sem minnst. Þetta voru röksemdirnar sem okkur var boðið upp á í gær.

Það vita allir að aukna fjármuni þarf í heilbrigðiskerfið. Ég held líka að stjórnarþingmenn viti það. Menn verða að skýra betur hvers vegna þeir taka ákvarðanir um að auka ekki fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Í fjárlagafrumvarpinu sem skilað var hingað inn í haust er 90 millj. kr. nettó lækkun á fjárframlögum. Lækkun. Svo koma menn með eitthvert smotterí til að vega upp á móti því, örlitlar viðbætur. En það var ekki þannig í upphaflega frumvarpinu. Menn skammast til þess núna í breytingartillögum, en það er alls ekki nóg. Þetta er síðan afgreitt með þeim hætti sem hv. þm. Karl Garðarsson gerir og virðist lenska hjá honum, að setja stimpilinn á Kára Stefánsson sem gagnrýnir stjórnvöld: Hann er bara einhver popúlisti, ekki hlusta á hann, og ef menn segja að það þurfi 3 milljarða er sagt við fólk: Iss, þeir þurfa ekki neina 3 milljarða, þá koma þeir bara aftur og aftur og biðja um meira þannig að við hlustum ekkert á það. Það á ekki að hlusta á neinn.

Varðandi heilbrigðismálin verð ég líka að nefna að hér átti sér stað ótrúlega mikilvæg umræða í morgun af hálfu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún dró athyglina að því að við erum með kvótakerfi í heilbrigðisþjónustunni. Það er kvóti á hversu margir geta komist í ákveðnar aðgerðir,(Gripið fram í: Er það rétt?) það er kvóti á hversu margir geta fengið ákveðin lyf, kvóti á hversu mikill fjöldi getur fengið þjónustu í heilbrigðisþjónustunni. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það er rétt. (Gripið fram í: Það er rangt.) Virðulegi forseti, hv. þingmaður er búin að biðja um andsvar, hún getur þá talað þegar að því kemur, ég ætla ekki í samtal við hana hér. En það er þannig. Það viðurkenndi heilbrigðisráðherra í morgun þegar hann sagði að það sem hann ákvæði væri fjármagn og fjöldi. Þegar menn vita að aðgerð kostar X og ákveðnu fjármagni er skammtað eru menn að setja kvóta. Síðan eru skilaboð frá ráðherranum sjálfum: Þið megið ekki fara yfir þessa fjárupphæð. Ef menn fá pening fyrir 60 aðgerðum en 150 þurfa að fara í aðgerð er fjárveitingavaldið og ráðherrann að segja: Þið fáið að gera 60 aðgerðir, hér er peningur fyrir þeim. Það er einfaldlega þannig. Að halda því fram að það sé ekki kvótasetning er rangt.

Þegar kemur að lyfjunum er hið sama upp á teningnum og það afhjúpaðist vel í haust þegar beinlínis var tekin ákvörðun um að þeir sem fengju lyf til að lækna lifrarbólgu C yrðu bara X margir. Það kom mjög skýrt fram. Ráðherrann þrætti meira að segja ekki fyrir það heldur kom í ræðustól og sagði: Við erum búnir að leysa málið með erlendum lyfjarisa þannig að allir geti fengið það sem á þarf að halda. Fram að því gátu það ekki allir. (Gripið fram í.) Það er bullandi kvótakerfi í heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðiskerfinu og ekki hægt að halda öðru fram. (Gripið fram í.)

Ég fagna því að þeir sjúklingar sem þurftu lausn sinna mála vegna lifrarbólgu C fái hana. Það sem mér finnst hins vegar vont í því máli er að það afhjúpar hversu lítil stefnumörkun til framtíðar á sér stað hjá heilbrigðisyfirvöldum. Við erum háð því að einhver erlendur aðili, lyfjafyrirtæki, komi með okkur í verkefnið. Annars hefðum við ekki gert þetta, eða hvað? Þetta á við í fleiri tilvikum, t.d. lyf við hrörnun í augnbotnum og öðru slíku. Það ætla engin erlend risafyrirtæki að gera okkur að tilraunastofu þar. Hvað gerist þá á meðan? Ekki neitt. Þá erum við bara áfram með kvóta á þeim lyfjum. Við þurfum að setja okkar eigin metnaðarfullu markmið, teikna upp hvernig við ætlum að byggja upp heilbrigðisþjónustu inn í framtíðina. Við erum til í þá vinnu, við erum til í að fara þverpólitískt yfir það hvernig við gætum náð saman um þetta. En það er alltaf slegið á þá útréttu hönd. Við höfum boðið þetta aftur og aftur. Leggjum sameiginlega upp áætlun um með hvaða hætti við vinnum á þessum biðlistum, hvernig við vinnum á kvótunum og reynum að afmá þá þannig að allir fái þá þjónustu sem þeir þurfa.

Virðulegi forseti. Nýr spítali er að mínu mati og okkar í Samfylkingunni orðinn gríðarlega mikilvægur. Það átti að byrja að byggja hann fyrir tíu árum. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra heilbrigðismála, Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrir einurð hans í þessu máli. Hann hefur gengið fram með mjög skýra sýn á að þessi spítali verði að rísa og menn hafi ekki tíma eða getu til að ráðast í fjórðu umferð af staðarvali. Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvar spítalinn á að vera, mér er eiginlega alveg sama. Ég vil bara að hann sé byggður. Við vitum að staðarval getur tekið óhemju langan tíma. Við vitum líka að það verður aldrei 100% sátt um nokkra einustu staðsetningu. Það verða aldrei allir sáttir ef menn ákveða að fara í uppbyggingu á Vífilsstöðum, aldrei almenn sátt um að koma honum fyrir á mjög þröngu svæði þar sem Ríkisútvarpið og Borgarspítalinn eru núna. Það verða alltaf einhverjir sem munu finna fyrir þessu þunga byggingarmagni, sama hvar spítalinn verður. Ég held að við séum komin með þetta mál á endastöð og nú þurfi bara að hefjast handa við að framkvæma. Ég vona að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi í lappirnar með ráðherra sínum og styðji hann gegn þeim hringlandahætti sem birtist hjá forsætisráðherra. Ég held því miður að það sé að tefja málið.

Þegar við tölum um nýjan spítala er það ekki af því að okkur vanti einhverjar „fansí“ byggingar á þetta svæði sem er mýri og þar verði að fara að gera eitthvað. Við erum ekki að spá í það. Það þarf nýjan spítala vegna þess að núverandi húsnæði er dreift út um allan bæ, það er úr sér gengið, þar er komin upp mygla og myglusveppur og leki sem ekki er hægt að gera við. Húsnæðið er orðið óboðlegt nútímaheilbrigðisþjónustu. Það þarf að byggja spítala vegna þess að við erum komin með nýja tækni í heilbrigðisþjónustu og húsnæðið passar ekki utan um hana. Þarf ekki að byggja yfir nýjan jáeindaskanna? Það kostar allt. Við erum ekki með húsnæði sem getur tekið við þessari nýju tækni. Ef við ætlum að vera með heilbrigðisþjónustu í fremstu röð er algert forgangsmál, að ráðast í þessa byggingu. Ég styð ráðherrann í því og vona að meiri hlutinn gerir það og láti ekki hringlandahátt forsætisráðherra hafa áhrif á það.

Síðan langar mig að nefna annað. Í gær fór af stað hjá einum ræðumanni umræða um þann hræðilega eftirlitsiðnað sem menn telja að tröllríði öllu í samfélaginu. Það fari svo miklir fjármunir í stofnanir sem hafi eftirlit og það sé agalegt mál. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég heyri þessa umræðu fer um mig hrollur. Svona var talað árið 2002 og næstu ár á eftir, jafnvel inn á árið 2008 í aðdraganda hrunsins. Hvað er það sem okkur er sagt í rannsóknarskýrslunni? Það er að veikar eftirlitsstofnanir áttu sinn þátt í að allt fór á hliðina. Við vorum ekki með eftirlitskerfi sem gat sinnt öllum þeim stóru verkefnum sem fylgdu því að vera með fjármálakerfi sem hafði náð stærð sem svaraði tífaldri landsframleiðslu. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim söng þar sem því er haldið fram að eftirlitsiðnaðurinn sé agalegur. Í öllum siðuðum ríkjum í kringum okkur, ríkjum sem eru á listum yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims, tökum Svíþjóð sem dæmi, tökum Noreg sem dæmi, er gríðarlega öflugt eftirlit á öllum sviðum. Hvað á samkeppniseftirlit að gera, sá hræðilegi angi eftirlitsiðnaðarins? Það á að tryggja að farið sé að samkeppnislögum og hugsað um hag neytenda. Samkeppniseftirlitið á að fylgjast með að hér sé ekki hringamyndun, ekki einokun, að menn misnoti ekki markaðsráðandi stöðu sína. Það er náttúrlega agalegt ef það fyrirbæri yrði allt of sterkt.

Þetta eru sjónarmið sem ég óttast. Það er ofsalega þægilegt að slengja þessu fram, að þessi leiðinda eftirlitsiðnaður og þær stofnanir allar séu bara til trafala. En við höfum brennt okkur á því. Ég held að fyrirtæki og viðskiptalíf blómstri þar sem leikreglur eru skýrar og stöðugar, þar sem er einhver umferðarlögregla sem tryggir að þau sjónarmið séu til staðar. Ég held að menn þurfi að fara varlega í þessa umræðu. Eftirlitsstofnanir okkar eru enn þá ekki nægilega sterkar. Til dæmis er verið í breytingartillögum meiri hlutans að taka skref í að veikja umboðsmann Alþingis. Getur einhver hér haldið því fram að það embætti sé allt of stórt? Alls ekki. Umboðsmaður Alþingis nær ekki að sinna nægjanlega þeim verkefnum sem hann er með nú þegar, hvað þá að fara í frumkvæðisathuganir sem hann þyrfti að fara í og er hlutverk hans og við setjum honum fyrir. Hvers vegna koma menn með tillögur um að lækka framlög til hans og fela sig á bak við að það sé af því að hann hafi skipt um húsnæði? Við eigum að umbuna þeim stofnunum sem taka til í sínum rekstri og minnka rekstrarkostnað. Ef þær ná að losa fjármuni úr rekstri, losa fastakostnað og setja meira í verkefni eigum við að fagna því og umbuna stofnunum. Hvaða skilaboð er hér verið að senda til annarra stofnana? Umboðsmaður Alþingis ákvað að flytja og minnka fastakostnað, fara í ódýrara húsnæði, þá tökum við mismuninn af honum og gefum honum ekki færi á að nýta hann í mikilvæg verkefni innan embættisins. Það þykir mér miður. Það er verið að senda mönnum þau skilaboð að vera ekkert að hafa fyrir því að fara úr rándýru húsnæði, verið bara þar sem þið eruð því ykkur verður engan veginn umbunað með að leyfa ykkur að nota féð í mikilvæg verkefni á ykkar snærum. Auðvitað á þetta ekkert alltaf við, en þetta á við hjá þeim aðilum þar sem ljóst er að aukna fjármuni þarf til verkefna sem þeim er ætlað að vinna lögum samkvæmt.

Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir fór yfir mikilvægan þátt mála í ræðu sinni og málflutningi. Hún hefur bent á að í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar séu nokkrir vísar að því að menn séu að fara aftur í gamla farið þegar kemur að fjárlagagerð og taka ákvarðanir um að styrkja lítil verkefni hér og þar um landið. Á síðasta kjörtímabili, meira að segja kjörtímabilinu þar á undan, var orðin mjög mikil umræða um að menn teldu þetta óeðlilegt. Alþingi ætti ekki að standa í því að veita smástyrki í hin og þessi verkefni um landið heldur væri eðlilegt að hafa sjóði, samkeppnissjóði þar sem áætlanir væru gerðar, stærri áætlanir og fram færi ákveðið jafningjamat á því hvaða verkefni ættu að fá fjármuni. Þannig væri tryggð hugsanleg fjármögnun verkefna til lengri tíma. Ég sat lengi í menntamálanefnd á sínum tíma og þar var verið að úthluta fjármunum til alls konar verkefna. Þetta voru kannski verkefni sem þurftu 20–30 milljónir og nefndin gat ekki sagt nei við neinn þannig að svoleiðis verkefni fengu kannski 1,5 milljónir til að hægt væri að byrja. En það er bjarnargreiði. Þá verður fólk að nýta fjármunina en fær engan veginn nóg til að klára verkefnið. Enginn í nefndinni mat það með einum eða öðrum hætti hvort verkefnið mundi skila einhverju þannig að réttlætanlegt væri að ríkið setti fjármuni í það. Það var ekkert mat. Ég hélt að þverpólitísk samstaða hefði orðið um það í þinginu að setja slíkt verklag til hliðar. Við nýttum tækifærið ef svo má að orði komast eftir hrun og tókum til í þessu öllu saman. Ég stóð í þeirri meiningu að þverpólitísk sátt hefði verið um það. Svo dúkka hér upp verkefni sem fara fram hjá öllum þeim kanölum sem er búið að setja upp. Þingið er aftur farið að úthluta smástyrkjum hingað og þangað. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli í alvöru að gera þetta.

Einhverjir hafa sagt að þetta sé gert til að styðja við byggðir landsins. Bíddu nú við, við erum með vaxtarsamninga út um allt land, við erum með sóknaráætlun og menningarsamninga. Við erum með alls konar system sem hægt er að setja aukna fjármuni í ef menn vilja styðja við landsbyggðina. Það er hægt að setja aukna fjármuni í sóknaráætlun og það góða við hana og sóknaráætlanakerfið er að þá færum við fjármunina heim í hérað og ákvarðanatökuna um hvað peningarnir eiga að fara í. Núna ætla menn aftur að fara í gamla farið og ég er óskaplega hissa á því. Ég trúi því að mönnum gangi gott eitt til, en ég held samt að við séum að fara, kannski óafvitandi, inn á ranga braut að nýju. Mér finnst til dæmis skrýtið að allt í einu sé verið að ákveða það í þinginu að eitthvert framlag fari til þess að gera áreiðanleikakönnun á lífdísilframleiðslu í einu sveitarfélagi á landinu. Hvað með alla hina sem eru í þessu? Ef menn teldu að þetta væri mikilvægt verkefni innan héraðsins væri auðvelt að sækja fjármunina í sóknaráætlanirnar eða vaxtarsamningana. Til þess eru þeir. Ég hefði frekar viljað sjá að í staðinn fyrir 10 milljónir í þetta settu menn 100 milljónir í vaxtarsamninga eða sóknaráætlanir og gerðu meira úr þeim. Þá er ekkert ólíklegt að svona verkefni fái stuðning. Ég held nefnilega að þeim sé enginn greiði gerður með þessu fyrirkomulagi.

Síðan er annað. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár í sérstakan atvinnu- og nýsköpunarsjóð fyrir Norðurland vestra. Þarna erum við að búa til enn eitt prógrammið við hliðina á öllum hinum sem ég hef talið upp. Mér þætti vænt um ef einhver af þingmönnum stjórnarflokkanna sem eiga sæti í nefndinni segði mér að hvaða leyti sé betra að búa til sérstakan nýjan sjóð í staðinn fyrir að nota alla þá sjóði sem til eru og auka fjármuni í þá. Ég held að sérstakur nýr sjóður sé ekki endilega til þess fallinn að skila sem mestum árangri fyrir landsvæðið. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera töluvert átak á landsbyggðinni. Ég er ekki viss um að smáframlög í hin og þessi verkefni beint frá Alþingi sé leiðin. Ég vil frekar að við séum með alvöruáætlanir, alvörusóknaráætlanir og alvörufjármuni í þær sem og menningarsamningana og vaxtarsamningana og öll þau prógrömm. Það mun skila meiru.

Svo held ég líka og við erum mörg þeirrar skoðunar hér inni að einn mesti stuðningurinn til byggðanna sé alvöruframlög til nýframkvæmda í samgöngum og viðhalds á vegum um landið. Mér fannst áhugaverð frumniðurstaða sem ég sá í rannsókn frá Háskólanum á Akureyri held ég, það var Andrea Hjálmsdóttir og fleiri sem unnu hana, um áhrif Héðinsfjarðarganga á jafnrétti kynjanna og stöðu kynjanna innan samfélaganna. Fyrstu niðurstöður sýna að áhrifin voru verulega jákvæð gagnvart konum. Konur eru að flytja af þessum landsvæðum, það er konurnar sem fara til Reykjavíkur og á höfuðborgarsvæðið. Svo koma karlarnir á eftir. Þetta er þekkt. Við höfum talað um þetta margoft hér. Ef betri samgöngur eru líklegri til að hafa jákvæð áhrif á búsetu kvenna úti á landi, er það ekki eitthvað sem við eigum að skoða vel? Ég held að við megum oftar gera alvörugreiningar á þeim verkfærum sem við erum að búa til. Oft fáum við ágætar hugmyndir eins og hér, búa til einhvern nýjan sjóð fyrir eitt landsvæði og leggja til heilar 10 milljónir. Jú, það mun gera eitthvað pínulítið en ég er ekki viss um að það leiði til stórátaks til lengri tíma. Við þurfum að mínu mati aðeins að fara að velta þessu fyrir okkur.

Það er líka eitt sem er svolítil lenska í þessu kerfi, kannski út af eðli stjórnmálanna og kosninga á fjögurra ára fresti. Við erum svo hrædd við að hætta við verkefni sem við vitum að skila ekki voðalega miklu. Við leyfum einhverjum verkefnum að halda áfram. Mér finnst við oftar mega búa okkur til skapalón þar sem við metum þau verkfæri sem við höfum búið til frá A til Ö og áhrif þeirra á samfélögin sem þau eiga að gagnast. Sum munu örugglega standast prófið en önnur ekki. Þá eigum við að vera óhrædd við að leggja þau verkfæri til hliðar og smíða ný sem gagnast betur.

Ég hef áhyggjur af þessu og ég vona að vilji manna standi ekki til að fara í gamla farið, en þetta er úti um allt í breytingartillögunum, svona smáverkefni sem ættu betur heima undir öðrum hatti. Maður óttast að nú sé þingið að detta aftur í sama gamla farið þar sem ákvarðanir eru teknar án þess að áhrif séu metin, það er bara sagt: Jú, þetta er sniðugt, það var maður sem talaði við mig og sagði mér að þetta væri mjög sniðugt. Þá eru ákvarðanir teknar út frá því en ekki út frá jafningjamati þar sem áhrifin eru metin og verkefni sett inn í skapalón og áhrif þessara fjármuna á samfélögin raunverulega metin.

Virðulegi forseti. Ég er að verða búin með ræðutímann. Það er margt sem maður hefði viljað ræða hér. Ég fór til dæmis ekkert inn á það að minni hluti fjárlaganefndar hefur sameiginlega lagt fram tillögur sem koma inn á mjög mörg af þeim atriðum sem ég hef nefnt eins og t.d. aukningu til umboðsmanns Alþingis og fjármuni í græna hagkerfið og sömuleiðis til háskóla og framhaldsskóla. Ég hef ekkert náð að koma inn á það. Háskólarnir og sérstaklega framhaldsskólarnir eru mikilvægar stofnanir í samfélaginu sem þurfa að fá athygli okkar fljótt og vel. Ég hef áhyggjur af því hvernig það eiga sér stað stórkostlegar breytingar á menntakerfinu án þess að þær komi inn á borð Alþingis. Hæstv. menntamálaráðherra virðist nýta sér allar glufur til að komast hjá því að ræða menntamál á þinginu eða ræða stefnumörkun í þeim. Það má sjá hverjar afleiðingarnar af því eru í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur í sambandi við þá ákvörðun að fækka þeim stöðugildum sem greitt er fyrir í framhaldsskólunum. Það hefur þær afleiðingar að þeir sem eru neðstir í forgangsröðun í að komast inn í skólana eru í raun og veru bara klipptir út. Þetta er gert í gegnum fjárlögin. Með öðrum orðum: Með því að taka fjármuni fyrir þennan hóp út úr skólunum, fyrir þá sem eru neðstir í forgangsröðuninni og eru 25 ára og eldri, er verið að taka ákvörðun um að framhaldsskólinn þjóni ekki 25 ára og eldri. Við sjáum afleiðingarnar af því koma skýrt fram í svörum ráðherrans við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni. Það er af mörgu að taka og ég vona að hv. þingmenn stjórnarflokkanna séu til í að ræða við okkur um breytingartillögurnar sem við höfum lagt fram svo menn geti reynt að klára fjárlögin með sameiginlegum sóma.