145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir þessar tölur. Ef fólk er með mjög lágar tekjur eru allar hlutfallstölur svo lágar. Þegar maður skoðar þróunina aftur í tímann, í sögulegu samhengi, hafa tekjur þeirra sem búa einir, eru ekki í sambúð, mjög lengi verið undir lágmarkslaunum. Það þýðir þá að hóparnir sem hv. þingmaður nefndi voru enn þá neðar. Árið 2007 eða 2008, þegar Jóhanna Sigurðardóttir kom í ríkisstjórn, breyttist þetta hlutfall að einhverju leyti og við fórum að síga upp fyrir lágmarkslaun eða nálgast þau. Við erum aftur að fara að sjá fram á þessa gliðnun milli hópa og það er það sem við erum ósátt við af því að við teljum að þannig eigi það ekki að vera.

Kannski snýst þetta um ólík viðhorf: Eru bæturnar eitthvað sem menn eiga náðarsamlegast að þakka fyrir að fá eða eru þær bara laun fyrir að maður hafi skilað sínu verki vel til samfélagsins eða þá laun af því að maður getur ekki unnið sér inn tekjur sjálfur? Það er kannski spurning um ólíka nálgum. Við erum þeirrar skoðunar að þetta séu laun eldri borgara vegna þess að þeir hafi skilað sínu, eru búnir að byggja upp þetta samfélag sem við tökum nú við og það skiptir máli að við förum vel með það. Öryrkjar eru þeir sem ekki geta aflað sér tekna sjálfir. Þess vegna verðum við að vera með grunnlaun þessara hópa að minnsta kosti sambærileg lágmarkslaunum í landinu. Ég vona að okkur lánist að ná okkur upp úr skotgröfunum og fara að tala saman um þessi mál og gera eitthvert plan um hvernig við hækkum þessi laun og bætur inn í framtíðina.