145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Forseta mun ekki takast að flytja mig á mölina. En hv. þingmaður flutti ágæta ræðu og eru ýmis atriði sem hægt er að koma inn á. Ég ætla að spyrja í mínu fyrra andsvari um breytingartillögu minni hlutans um almannatryggingar. Ég er orðin svolítið ráðvillt varðandi málflutninginn um þær tillögur. Í fyrirspurnatíma fyrr í morgun töluðu talsmenn stjórnarandstöðunni með þeim hætti að ekki ætti að tala um prósentur. Þeir sýndu svörum hæstv. félagsmálaráðherra hálfgerða fyrirlitningu vegna þess að ekki ætti að tala um prósentur. Ég get ekki lesið breytingartillögu eða hugmyndirnar að baki breytingartillögu minni hlutans öðruvísi en að menn séu að tala um prósentur. Hér er ekki verið að tala um krónutöluhækkanir. Ef ég misskil þetta eitthvað væri ágætt að fá það fram hjá hv. þingmanni, vegna þess að því er alla vega haldið fram í ræðustól Alþingis að það sé hallærislegt og rangt að tala um prósentur í þessu sambandi, menn eigi þá væntanlega að tala um krónutölur. En hver er þá tillagan?