145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta voru ekki rangfærslur vegna þess að hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er með bréf þar sem þetta kemur skýrt fram. (Gripið fram í: Það er rangt.) Við vorum á síðasta kjörtímabili með lið sem heitir S-merkt lyf, sem lyflækningarnar heyra undir. Ég ætla að taka það sem dæmi á þessum stutta tíma. Þegar ég kom inn í fjármálaráðuneytið var sá flokkur í fjárlögunum í 700 millj. kr. til 1,5 milljarða mínus. Ég reyndi að átta mig á því hvort við gætum tekið eitthvað á því. Það var hægt þá með því að setja kvóta á lyfjagjöf, en það var ekki gert heldur fórum við fram yfir og gerðum okkur grein fyrir því að þetta gæti verið sveiflukenndur liður. Þessi ríkisstjórn ákvað hins vegar að senda út þær skipanir að fjárlagaliðurinn skyldi halda. Þar liggur munurinn. Sumir fjárlagaliðir eru einfaldlega þannig að það er ekki hægt að áætla 100% hver niðurstaðan verður. Margir liðir í heilbrigðisgeiranum eru einmitt þannig.