145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum á sömu slóðum varðandi eftirlit og það er mikilvægt. Því frjálsari sem markaðurinn er og við viljum sjá hann þar sem því er við komið þá er eftirlit nauðsynlegra, ekki síst á neytendahliðina til að hér sé skilvirkur markaður með þeim reglum og stöðugleika sem við eigum svo að tryggja, löggjafinn. En til að ná jákvæðara viðhorfi gagnvart þessu mikilvæga hlutverki eftirlits held ég að við ættum að skoða einhvers konar mælikvarða, Svíþjóð gæti verið mjög gott viðmið þar. Á það hefur verið bent til að mynda, af því ég nefndi áðan Fjármálaeftirlitið, að stærð í fjölda starfsmanna er mjög misjöfn eftir þjóðum og erfitt að átta sig á því hvað er æskileg stærð.