145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum að venju fyrsta þingmál þessa þings, sem eru fjárlög fyrir komandi ár, árið 2016. Ég hef hugsað mér að fara yfir fjárlög, forsendur, efnahagsástand, nefndarálit og tillögur minni hlutans og ef ég kemst yfir það á þessum 40 mínútum sem mér er skammtað í fyrstu umferð ætla ég að ræða líka breytingartillögur frá ríkisstjórn og meiri hlutanum.

Fyrst vil ég segja að mjög margt í þjóðarbúskap okkar í dag gengur vel, sem betur fer. Ef hugsað er til þess hefur maður oft staðið í þessum ræðustól og rætt um fjárlög komandi árs við verri aðstæður en eru nú í þjóðfélaginu. Aðstæður eru að mörgu leyti mjög góðar. Staðan er mjög góð, sem kemur vel fram. Þó svo að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að það sé allt núverandi ríkisstjórn að þakka vil ég segja, virðulegi forseti, svo að allir njóti sannmælis, að þetta hefur verið sameiginlegt verkefni þriggja síðustu ríkisstjórna, þeirrar ríkisstjórnar sem tók við eftir kosningar 2007, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og minnihlutastjórnar sem tók við í framhaldi af því með stuðningi Framsóknarflokksins, sem lofaði að verja ríkisstjórnina falli með nokkrum skilyrðum eins og um hraða vinnu við stjórnarskrá. Við látum það liggja á milli hluta en það sem ég ætlaði að segja er að oft hafa miklu verri fjárlög verið lögð fram og staðan í þjóðfélaginu hefur verið miklu verri en nú er.

Ég ætla hér í upphafi að fara í stuttu máli yfir nokkrar stærðir í þessu sambandi sem skýra stöðuna. Eins og ég segi hika ég ekki við að halda því fram að hún sé afrakstur undanfarinna ára. Hún er afrakstur þeirrar endurreisnar sem þurfti eftir hrunið 2008. Það var oft ekki gott að standa í þessum stól eða sitja í þessum sætum og greiða atkvæði með ýmsu sem nauðsynlega þurfti og varð að gera fyrst eftir hrun. Ég minni bara á að fjárlagahalli var áætlaður 220 milljarðar kr. á þáverandi verðlagi — var það ekki fyrir 2009? Ég hef ekki reiknað hvað það er í dag.

Nú er staðan allt önnur. Margt leggst á árar með okkur, sem ég ætla að fara stutt yfir núna. Ársverðbólga er 2% og við höfum verið samfleytt undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, sem eru 2,5%, í 22 mánuði nú röð. Ég sagði að ársverðbólga væri 2%. Ef við tökum verðbólgu án húsnæðisliðanna, sem mér skilst að sé gert í mjög mörgum þjóðlöndum, þá er hún einungis 0,3%. Það má eiginlega segja að framan af árinu 2014 sé hægt að þakka stuttu kjarasamningunum, sem þá voru gerðir þar sem samið var um 2,8% launahækkun, þessa lágu verðbólgu. Það verður að hafa í huga að þeir samningar sem þá voru gerðir voru í raun og veru mjög ábyrgir, en það gátu auðvitað ekki allir sætt sig við 2,8% launahækkun og allra síst þeir lægst launuðu. Því fór sem fór. Við vitum hvernig þessir samningar röknuðu upp. Sumir verkalýðsforingjar voru ekki á þessari línu og vildu fá meira og gerðu sitt til að sprengja þá upp, sem leiddi svo af sér þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið núna og eru miklu hærri og eru í raun tölur sem ekkert efnahagskerfi ætti að þola. Þessir samningar voru vafalaust mjög nauðsynlegir vegna þess að þarna var verið að stíga ákveðið skref fyrir ansi marga þjóðfélagshópa og leiðrétta launin miðað við gengishrun krónunnar sem við skulum hafa í huga að mun ekkert styrkjast neitt stórkostlega á komandi árum. Við höfum undanfarin ár verið að búa þjóðfélag okkar undir það að vinna eftir þeirri gengisvísitölu og þeirri gengisskráningu sem komin er og hefur verið eftir hrun.

Eins og ég sagði: Framan af árinu 2014 er hægt að þakka stuttu kjarasamningunum, þessum 2,8% samningum, þessa lágu verðbólgu. Núverandi ríkisstjórnin og við Íslendingar allir erum sem sagt með lága verðbólgu, þ.e. 2% núna eða 0,3% án húsnæðisliða, m.a. vegna þessa. Það sem hefur þó lagt langmest til þessarar lágu verðbólgu eru hagstæð ytri skilyrði þar sem verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum er sama sem engin. Svo skulum við ekki gleyma því að 60% lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu hefur sitt að segja. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði vegna þess að ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hvað talan er há. Það er 60% lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu. Þetta sjáum við um allt þjóðfélagið. Ég bara nefni sem dæmi að bíleigendur, sem taka eldsneyti á bílana sína, spara miðað við meðalakstur upp undir 10 þús. kr. á mánuði í eldsneytiskostnað ef verðlag á eldsneyti í dag er borið saman við verðið þegar það var hæst.

Í stuttu máli má segja að hagstæð ytri skilyrði, þ.e. verðlag á innflutningi og lækkun olíuverðsins, eigi stærstan þátt í lægri verðbólgu hér á landi. Það er ekki eins og hér hefur komið fram þegar hæstv. forsætisráðherra vill eigna sér allan þennan árangur. Hann sagði það einhvern tíma í ræðu. Mér fannst hæstv. forsætisráðherra þá mjög hógvær því að hann eignaði sér ekki í leiðinni góðan árangur íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla eða kvenna, þær standa sig líka vel. Það eru sem sagt ytri skilyrði sem gefa okkur þetta svigrúm í dag og stöðuna.

Ég ætla aðeins fara yfir hver staðan væri vegna þess að þrátt fyrir þessi hagstæðu ytri skilyrði skilum við eingöngu í kringum 10,7 milljörðum í afgang af ríkissjóði, 700 milljörðum í tekjur, 689 milljörðum í gjöld og um 10–11 milljarðar í afgang. Það eru um það bil 1,3%. Þá ætla ég að leiða fram þessa spurningu: Hvernig væri ástandið í þjóðfélaginu ef olíuverð væri eins og það var fyrir nokkrum missirum síðan, ef við nytum ekki þessarar 60% lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu? Við gætum hugsað okkur útgerðina, almenning og rekstur fyrirtækja almennt. Útgjöldin væru að sjálfsögðu miklu verri. Nú geri ég mér ekki grein fyrir hvað ríkissjóður er kaupandi að miklu eldsneyti miðað við fjárlög en við getum rétt ímyndað okkur ef þar væri 60% hærri tala.

Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 6%. Það eru staðreyndir sem við skulum gleðjast yfir. Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum þessa árs reyndist vera 4,5% og er byggður á nokkuð breiðum grunni, ólíkt því sem við höfum oft áður séð. Það er sem sagt ekkert eitt atriði sem er að draga algjörlega vagninn. Sem betur fer eru opinberar spár heilt yfir á þá vegu að hagvöxtur verði áfram með ágætum og meiri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það eru jákvæð teikn á lofti hvað það varðar.

Á þessu ári hefur gengi krónunnar styrkst um hvorki meira né minna en 9% gagnvart evru. Gengisvísitalan sem slík í heild hefur lækkað um 7% það sem af er árinu. Þetta á að vera jákvætt fyrir okkur hér á landi og skila sér í lækkun vöruverðs vegna þess að við erum innflutningsháð þjóð, flytjum svo mikið inn. Það ætti að koma okkur til góða í lækkuðu vöruverði en stundum er rætt um að það hafi ekki skilað sér. Við getum hins vegar séð á ýmsu í þjóðfélaginu nú í aðdraganda jóla, mikils innkaupamánaðar, gósentíðar kaupmanna, að kaupmenn gefa töluverðan afslátt enda er svigrúmið mikið. Ofan á það bætist væntanleg lækkun á tollum á ýmsum vörum eins og fatnaði, skóm og öðru slíku.

Hin hliðin á peningnum er sú að við fáum minna fyrir útflutningsvörur okkar. Nú hef ég ekki síðustu tölur um vöruskiptajöfnuð en við getum leitt líkur að því að ef krónan heldur áfram að styrkjast og við fáum minna og minna fyrir útflutningsvörur okkar þá munum við fara úr viðskiptaafgangi í viðskiptahalla á ný, eins og var svo oft hér áður fyrr. Þá mundi ég segja að rauðu ljósin væru farin að blikka ásamt útflutningi á íslenskum krónum sem lítið er rætt um í þjóðfélaginu í dag. Erlendir aðilar sem eru jafnvel með -0,3% og -0,5% vexti flykkjast nú til Íslands og leggja pening inn á reikninga með 5%–6% vöxtum. Virðulegi forseti, ef það er rétt sem ég hef heyrt að á þessu ári sé aukning í krónubréfum eða jöklabréfum eða hvað við viljum kalla þau um 60 milljarðar kr. og þetta sé komið vel yfir 100 milljarða í dag þá eru það líka blikkandi rauð ljós sem vert er að hafa í huga.

Eitt af því sem er mjög jákvætt í þessu samhengi fyrir okkur nú og sést í fjárlögum og í þjóðfélaginu öllu er að í ár stefnir í að 1,2 milljónir ferðamanna til Íslands. Má ég aðeins minna á það að fyrir fimm árum síðan, árið 2010, voru þeir innan við 500 þúsund. Ferðamönnum hefur sem sagt fjölgað um 700 þúsund á fimm árum. Þeir koma náttúrulega út af gengisfalli krónunnar en þeir koma líka út af ýmsum aðstæðum sem sköpuðust í þjóðfélaginu. Eyjafjallajökulsgosið setti okkur heldur betur á kortið og má eiginlega segja að Ísland hafi verið „hipp og kúl“ eftir það, ef við förum yfir í þá samlíkingu. Átak síðustu ríkisstjórnar hafði líka áhrif, hvað varðar að fjölga ferðamönnum til landsins, Inspired by Iceland. Það tókst ákaflega vel og við njótum sannarlega enn ávaxta af því átaki sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Gengisfall krónunnar er vafalítið stærri áhrifaþáttur en við gerum okkur grein fyrir og gerði Ísland að mjög ódýrum viðkomustað. Þess vegna er ferðaþjónustan orðin okkar stærsta útflutningsgrein og hefur stutt við gengi krónunnar og styrkingu hennar ásamt því að draga úr atvinnuleysi sem er aftur orðið mjög lágt sem er auðvitað mjög jákvætt.

Þessi mikli fjöldi ferðamanna er allt í lagi enn þá. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þeir séu allt of margir. Ég mundi gjarnan vilja geta dreift þeim meira yfir árið og yfir landið sérstaklega en ég held að það sé að koma smátt og smátt. Ég held að ferðamannatímabilið sé að lengjast í báða enda. Ég sé það líka víða úti á landi að ferðamenn sem sáust ekki á sumum stöðum fyrir þremur, fjórum árum sjást nú í dag, einkum á þessum árstíma. Menn koma jafnvel bara til að vera í vondu veðri og verða veðurtepptir eða njóta norðurljósanna eða annars. Þetta hefur gríðarlega jákvæð áhrif í þjóðarbúið. Það er þess vegna sem ég er mjög ósáttur við að við sem sitjum á Alþingi, úr öllum flokkum, skulum ekki geta komið okkur niður á einhverja niðurstöðu um að taka sanngjarnt, hóflegt gjald af ferðamönnum til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða og til að koma til móts við sveitarfélögin með þeim mikla kostnaði sem þau hafa af komu ferðamanna en hafa engar tekjur af.

Ég sagði strax þegar hæstv. ferðamálaráðherra kom með náttúrupassahugmyndina, sem var andvana fædd, m.a. vegna óánægju stjórnarþingmanna sjálfra, að ég skildi ekki af hverju við gætum ekki sest niður og komist að niðurstöðu um að hækka gistináttagjaldið, sem var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar og er einungis 100 kr. á hverja gistinótt en gefur okkur þó tæpa 300 millj. kr. Nei, þess í stað heykist stjórnarmeirihlutinn á að koma með tillögur í þessa veru og setur nú 850 milljónir beint úr ríkissjóði í uppbyggingu ferðamannastaða, sem er út af fyrir sig ágætt. Við skulum ekki gleyma því að ríkissjóður hefur geysilegar tekjur af ferðamönnum í formi virðisaukaskatts og annars, en samt sem áður hefði þetta verið kjörin leið. Ég hef sagt það hér og skal segja það einu sinni enn að gistináttaskattur er sennilega í flestum borgum sem við komum til og við borgum steinþegjandi og hljóðalaust. Það er þekkt meðal ferðamanna og þess vegna eigum við að taka það upp. Það ætti að gefa okkur pening til þess að standa undir uppbyggingu og endurbótum á ferðamannastöðum, eins og ég sagði, og gera okkur kleift að taka við þeim mikla fjölda sem mun koma á næstum árum. Ég sagði áðan að 1,2 milljónir kæmu á þessu ári. Ætli þeir verði ekki 1,4 milljónir á næsta ári? Mér kæmi það ekki á óvart. Það hefur ekki verið gert.

Síðan ætla ég að koma aðeins inn að áframhaldandi þáttum sem eru í raun og veru jákvæðir en geta verið neikvæðir líka í öðrum skilningi. Það sem við sjáum gerast er að íbúðaverð, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hefur hækkað um 45% frá ársbyrjun 2011, hvorki meira né minna en 45%. Þessi hækkun hefur að miklu eða öllu leyti verið drifin áfram af hækkun verðs á fjölbýli. Hins vegar hefur íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins, þ.e. á landsbyggðinni, hækkað á sama tíma um 25%. Það skýrir það sem við landsbyggðarþingmenn höfum oft verið að tala um, þ.e. gjána á milli höfuðborgar og landsbyggðar, hvað þetta varðar. Það voru sannarlega miklar verðlækkanir í kjölfar efnahagshrunsins, en íbúðaverð hækkaði sem sagt aftur. Það eru hins vegar áskoranir fram undan. Þessar hækkanir hafa verið drifnar áfram af litlu framboði. Margir slást um fáar íbúðir og þess vegna hækkar verð, en stórir árgangar hafa meðal annars komið inn á fasteignamarkaðinn í leit að sinni fyrstu íbúð.

Það er sannarlega margt sem þarf að varast í þessari umræðu og aðgerðum svo að ekki sé blásið aftur í einhverja fasteignabólu. Þess vegna er þetta í raun og veru viðkvæmt mál. Það er því mjög viðkvæmt mál og allt að því dapurlegt að núverandi ríkisstjórn, sem er búin að sitja í tvö og hálft ár, skuli ekki enn vera komin með húsnæðisfrumvörp, þó að vísu séu komin tvö eða þrjú frumvörp af sjö sem ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram í húsnæðismálum. Það er vá fyrir dyrum hvað þetta varðar vegna þess að við verðum að sjá til þess að framboð sé nægjanlegt miðað við eftirspurn svo að ekki verði til fasteignabóla sem haldi áfram að stækka, þó að auðvitað sé allt að færast í fyrra horf og þar með verður mismunur milli eigna og skulda annar en hann var.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns erum við fyrir fjárlög 2016 að detta í 700 milljarða kr. markið. Það er um þriðjungur af landsframleiðslu. Tekjur ríkissjóðs eru þær en gjöldin 689 og 11 milljarðar í afgang eða eitthvað í kringum 1%. Þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði frumvarpið fram var gert ráð fyrir 15 milljarða afgangi. Tíu daga seinkun var á vinnu fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið til 2. umr., eins og við höfum séð, þrátt fyrir lengsta þing sem getur orðið miðað við þingsköp. Við byrjuðum 8. september, annan þriðjudag í septembermánuði. Það var gert til þess að stuðla að því að fjárlaganefnd hefði meiri tíma til að koma með frumvarpið í tæka tíð og við mundum ekki lenda enn einu sinni í tímaþröng rétt fyrir jól að klára fjárlög. Það hefur ekki tekist. Mér segir svo hugur að það hafi verið vegna þess að innan ríkisstjórnarflokkanna hafi verið gerð tilraun af meiri hluta fjárlaganefndar til að skera meira niður og koma afgangnum upp í 15 milljarða töluna, eins og fjármálaráðherra hafði hugsað sér. Meiri hlutinn hefur greinilega heykst á því og ekki talið sig geta það.

Það er líka eitt atriði sem er vert að hafa í huga þegar farið er yfir þessar efnahagslegu forsendur og þau jákvæðu skilyrði sem eru nú, að afgangurinn sé ekki meiri en 11 milljarðar. Eins og ég sagði í upphafi máls míns: Hvernig væri staðan ef ástandið í heimsmálum væri ekki eins og það er í dag og við nytum ekki 60% heimsmarkaðsverðslækkunar á olíu og öðrum aðföngum á hrávöru?

Þá vil ég koma að því sem ég hef oft gert að umtalsefni á liðnum dögum á þessu haustþingi. Það er hvernig við skilum þessum jákvæða bata í ríkisfjármálum til baka til þeirra sem þurfti að skera niður við á hrunárunum og árunum sem þar komu á eftir. Ég skal bara segja það strax þannig að menn þurfi ekkert að spyrja mig út í það í andsvörum. Það var aldrei með gleði sem það var gert. Maður var með óbragð í munni. Ýmislegt þurfti að ráðast á og fara inn í. Ég minni enn og aftur á að þá vorum við á fyrsta ári að kljást við 220 milljarða halla á þáverandi verðlagi og að sjálfsögðu varð ríkisstjórnin, sama hvort hún var hægri, vinstri eða miðstjórn, að bregðast við því. Annars hefði þjóðarvá verið fram undan og gjaldþrot blasað við og ekkert annað. En núna er staðan önnur og á þessu ári, 2015, erum við að tala um fjáraukalög með 22 milljarða kr. afgangi (Gripið fram í: Þökk sé þeim sem tóku …) sem ég spái að verði ekki 22 milljarðar heldur að minnsta kosti 32 milljarðar þegar gert verður upp. Þá kemur hinn stóri og mikli ágreiningur upp um hvernig við skilum þessum ávinningi til baka til þjóðfélagsþegna. Ég segi fyrir mitt leyti sem stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar að það var alltaf klárt í mínum huga og ég sagði það oft að um leið og áraði betur yrði þessu skilað til baka.

Þjóðin kaus sér nýja ríkisstjórn 2013 út á söguleg heimsmeistarakosningaloforð sem voru miklu stærri og meiri en kanslari Þýskalands gaf þegar hann bauð upp á það rétt fyrir kosningar að skipta hverju einasta austurþýska marki sem var handónýtt yfir í eitt vesturþýskt mark á pari, sem menn kölluðu þá kosningaloforð aldarinnar. Ég held að kosningaloforð þessara stjórnmálaflokka og sérstaklega annars þeirra, Framsóknarflokksins, hafi slegið út þetta heimsmet frá kanslaranum í Þýskalandi, þ.e. varðandi skuldaleiðréttinguna sem átti að verða 300 milljarðar en varð svo miklu minna og svo breytingar á verðtryggingu o.fl. Það hefur allt saman verið svikið eða ekki nema að litlum hluta efnt.

Þá kem ég að því sem er mitt hjartans mál og réttlætismál og ég mun halda áfram að tala fyrir því hér eins lengi og þarf til þess að við náum árangri. Það er hvernig við komum fram við aldraða og öryrkja bæði á þessu ári og því næsta. Förum fyrst yfir í þetta ár. Í fjáraukatillögunum er ekki gert ráð fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar kjarabætur eins og ég leyfi mér að fullyrða að allir aðrir í þjóðfélaginu, sem hafa átt lausa kjarasamninga, hafa fengið. Kjararáð taldi í lokin, eins og sagt var þegar búið var að gera alla kjarasamninga í landinu, forsendur til að fella sinn úrskurð lögum samkvæmt fyrir forseta lýðveldisins, fyrir ráðherra, fyrir þingmenn, fyrir dómara, fyrir forstöðumenn ríkisstofnana o.fl. Allt voru það afturvirkar launahækkanir, allt saman. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu líka afturvirkt og meira að segja í forsætisnefnd Alþingis, sem er stjórnarstofnun fyrir Alþingi. Forsætisnefnd á að fjalla um laun umboðsmanns Alþingis og forsætisnefnd hefur klárað það mál og gert það eins og kjararáð hefur sagt til um fyrir þá þjóðfélagshópa sem ég nefndi hér áðan og samþykkt sömu hækkun til umboðsmanns Alþingis, að sjálfsögðu, og það afturvirkt. Forsætisnefnd tók þessa ákvörðun. En við, 63 þingmenn sem sitjum hér, erum kjararáð aldraðra og öryrkja vegna þess að þeir fá alltaf sínar hækkanir með ákvörðunum á Alþingi, annaðhvort í gegnum fjárlög eða með lagasetningu eins og almannatryggingalöggjöfin segir til um. Núna bregður svo við að núverandi ríkisstjórn ætlar að svíkjast um. Mér er algjörlega hulin ráðgáta af hverju hæstv. ríkisstjórn kemur sér í það fúafen. Af hverju í ósköpunum taka menn þann slag og þá niðurlægingu sem þeir verða fyrir með því að svíkja aldraða og öryrkja með afturvirkar hækkanir eins og við erum öll að fá?

Í tillögu minni hlutans er gert ráð fyrir því og var líka gert ráð fyrir því í fjáraukatillögunum sem voru felldar af stjórnarmeirihlutanum í nafnakalli ekki alls fyrir löngu. Við erum líka að tala um næsta ár. Ég ætla að halda áfram að tala um þetta ár vegna þess að ég vil enn þá vona að stjórnarmeirihlutinn muni sjá að sér fyrir 3. umr. fjáraukalaga fyrir 2015 og gefi eftir og hækki kjör aldraðra og öryrkja afturvirkt þó svo að það kosti nettó 4,5–5 milljarða kr., að mínu mati. Það er borð fyrir báru. Við eigum afgang, við eigum 22 milljarða afgang núna eins og talan er. Eins og ég hef sagt áður spái ég því að afgangur verði að minnsta kosti 10 milljörðum hærri.

Hvers vegna í ósköpunum eiga aldraðir og öryrkjar ekki að fá þessa hækkun? Ég tók eftir því í morgun í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum að hún kom með mikinn skrifaðan texta, las hann upp hér fyrir okkur og flutti miklar ræðu um prósentuhækkanir, allt að 17,1% sem hún var búin að reikna út. Það er bara þannig að 17,1% hækkun á 172 þús. kr. er í raun og veru ekki neitt neitt. En 17,1% hækkun á 1 milljón er hellingur. Þó svo að aldraðir og öryrkjar séu margir, ef við teljum þá saman, og þetta séu háar tölur þá er þetta sanngirnisatriði, nákvæmlega eins og ríkisstjórnin jók um 3,5 milljarða fjáraukalög fyrir árið 2015 en þá var verið að hækka um 3,5 milljarða kr. lið í fjárlögum sem heitir Ófyrirséð sem voru 6 milljarðar áður. Þetta átti samtals að vera 9,5 milljarðar. Hvað á að gera við þessa peninga? Þeir verða teknir úr ófyrirséða liðnum og færðir út til ríkisstofnana, þar með talið Alþingis, til þess að fjármagna þessar afturvirku greiðslur. Ég held í raun og veru að það þurfi ekki að færa meiri rök fyrir þessu önnur en sanngirni og réttlæti.

Stjórnarþingmenn gefa sig ekki og vilja þetta ekki. Ég ber þá von í brjósti að eitthvað hafi gerst á fundi fjárlaganefndar í dag, sem tók klukkutíma og 45 mínútur, með öldruðum og öryrkjum, þegar farið var yfir gögnin, og menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að við eigum að gera þetta og stjórnarmeirihlutinn sjái að sér og það verði samþykkt við fjáraukalög við 3. umr. að hækka afturvirkt aldraða og öryrkja eins og alla aðra. Peningurinn er til.

Þá kem ég að því sem varðar fjárlög 2016. Þar er gert ráð fyrir þessari 9,7% hækkun til aldraðra og öryrkja frá 1. janúar. En allir aðrir sem hafa gert kjarasamning munu fá hækkun 1. maí næstkomandi. Hér er sagt að laun aldraðra og öryrkja, ef þeir eiga að njóta sannmælis og fylgja öðrum, eigi þá að hækka um 5,9%. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu 2016. Ríkisstjórnin ætlar með öðrum orðum að hunsa hækkanir til þeirra. Það má kannski nota gamalt slagorð sem hér var oft gripið til: Ríkisstjórnin telur sig vafalaust hafa fundið breiðu bökin í landinu til að níðast á og skera niður hjá. Það eru aldraðir og öryrkjar.

Ef við tökum bara dæmi af öryrkja og menn fara inn á reiknivél Tryggingastofnunar, sem er mjög faglegt, þá geta þeir séð þar að öryrkjar og aldraðir, sem eru eingöngu á strípuðum töxtum, fá 172 þúsund útborgað fyrir einstakling í eigin húsnæði. Þess vegna er mikil reiði í þjóðfélaginu.

Í tillögum stjórnarminnihlutans, minni hlutans á Alþingi, sem ég vil helst ekki kalla stjórnarandstöðu heldur minni hluta, er tekið á þeim þáttum sem ég hef gert að umtalsefni. Eins og ég fjallaði um í upphafi máls míns, um góðar efnahagslegar forsendur og stöðu mála hér, þá höfum við peninga til að gera þetta. Það er annað en var á síðasta kjörtímabili. Það var alltaf loforð þá að öldruðum og öryrkjum og öðrum sem þurfti að skera niður hjá yrði bætt það þegar betur áraði. Eins og ég segi er því miður komin ný stjórn sem ætlar sig ekki að gera það.

Í tillögum minni hlutans er gert ráð fyrir afturvirkum greiðslum við fjáraukann og fyrir fjárlög 2016 er gert ráð fyrir umræddri 5,9% hækkun 1. maí, ef ég man rétt, ásamt öðrum mjög góðum tillögum. Þetta finnst mér stærsta og merkasta atriðið.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég fjalla um þá umræðu sem er í þjóðfélaginu í dag, jafnt á samfélagsmiðlum sem annars staðar þar sem aldraðir og öryrkjar deila stöðu sinni með okkur. Það er svakalega sláandi og hefur oft verið en aldrei sem nú. Þess vegna hvet ég menn til að lesa opið bréf til Bjarna Benediktssonar, hæstv. fjármálaráðherra, sem Elva Dögg Gunnarsdóttir skrifar í Kvennablaðið í dag. Greinin hefst þannig, með leyfi forseta: „Elsku Bjarni“ — svo er því lýst að um 36 ára konu sé að ræða sem búi á Íslandi og hún telji það til mikilla lífsgæða að búa á Íslandi við hreina og óspillta náttúru, gott loft, hreint vatn og að við búum við lága glæpatíðni o.s.frv. Hér er gott að vera með börn. „En eitt er það sem [mér] finnst ekki gott og það er almannatryggingakerfið.“ Síðan heldur hún áfram að lýsa stöðu sinni. Ég hvet hvern einasta stjórnarliða til að lesa þetta bréf og athuga hvort þeir komist ekki að þeirri niðurstöðu í framhaldi af því að það sé sanngjarnt að deila einhverju af afgangi fjárlaga 2015 og góðri stöðu þjóðfélagsins fyrir 2016 til þessa fólks.

Elva Dögg Gunnarsdóttir lýkur bréfi sínu í þessa veru, með leyfi forseta:

„Ég er ekki að biðja um vorkunn, vorkunn borgar enga reikninga. Ég er að biðja um tækifæri til að fá að lifa mannsæmandi lífi, fullu af gleði og reisn.“

Áður er hún búin að lýsa stöðu sinni af örorkubótum og hvernig hún reyndi að drýgja tekjur sínar með 50% vinnu og hvernig það er skattlagt eins og hvað annað. Hún nær engan veginn endum saman. Hún lýsir því að hún hafi borgað ákveðið af íbúðinni sinni en neyðst til að flytja út og leigja íbúðina á almennum markaði og flytja inn til föður síns í litla íbúð, sem gekk úr rúmi fyrir hana og son hennar. Þetta er sláandi lýsing. Ef stjórnarliðar gæfu sér tíma til að lesa þetta litla bréf ásamt öðrum tölvupóstum sem koma til okkar þingmanna þá ættum við öll að sjá sóma okkar í að leiðrétta þetta misrétti og þá svívirðu sem ég vil kalla sem núverandi ríkisstjórnarflokkar láta viðgangast með því að viðurkenna ekki launahækkanir til þessa þjóðfélagshópa afturvirkt eins og allir aðrir hafa fengið.

Ég hef því miður ekki tíma til að lesa upp allt bréfið. Það væri full ástæða til að deila þessu meðal þingmanna og þeirra sem eru að hlusta og til að festa það í þingtíðindi. Lýsingin er svakaleg, virðulegi forseti.

Af hverju hef ég gert þetta að svona miklu máli í málflutningi mínum hér á Alþingi upp á síðkastið? Það er vegna þess að mér finnst þetta fyrst og fremst sanngjarnt og það sem meira er, mér finnst ég hafa lesið um og heyrt í kosningabaráttunni 2013 núverandi forustu ríkisstjórnarflokkanna, þá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson og hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson, lofa öldruðum og öryrkjum miklu meiru en þeir eru að gera í dag. Þeir sögðust ekkert ætla að svíkja þetta.

Ég vil koma því að, ef einhver stjórnarliði ætlar að halda því fram að almannatryggingalögin segi að það þurfi að gera þetta árlega eins og stendur í lögunum, að það segir hvergi að það skuli vera 1. janúar og aldrei á öðrum tíma. Það var nefnilega eitt af þeim verkum sem síðasta ríkisstjórn gerði um mitt ár 2011. Þá var samið á almennum markaði um töluverðar hækkanir og einhverja hækkun lægstu launa, í prósentum auðvitað, sem er lítil í krónutölum. Hvað gerðist þá? Ríkisstjórn sem var að skera niður og ná endum saman og reyna að koma fjárlagahalla í jafnvægi hækkaði öll þessi laun afturvirkt með reglugerð sem Guðbjartur heitinn Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, skrifaði undir. Það var okkar sýn. Þetta voru okkar verk.

Það eru engin ný vísindi að ná hallalausum fjárlögum og hafa afgang ef allt er skorið niður. Það er ekkert nýtt. Við hefðum alveg getað sleppt þessu þá og skilað betri afkomu ríkissjóðs, en við stóðum við það sem við sögðum í hruninu, að við mundum skila til baka um leið og árangurinn yrði betri og það var gert. (Gripið fram í.)

Að lokum ítreka ég það sem ég sagði áðan um loforð núverandi stjórnarherra til kjósenda. Ég er með bréf sem er skrifað í Reykjavík 22. apríl 2013. Hvenær var nú aftur kosið? Það var í lok apríl. Þetta er nokkrum dögum fyrir kosningar. Það hefst svona, með leyfi forseta:

„Ágæti kjósandi.

Eftir nokkra daga göngum við til kosninga þar sem við munum sameiginlega taka ákvörðun um hverju við viljum áorka sem samfélag næstu fjögur ár. Verkefnin snerta líf allra landsmanna og ráða því ekki einungis hvernig við höfum það heldur líka hvernig við búum að komandi kynslóðum.“

Svo er meðal annars sagt: „Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði.“ Svo er fjallað um hitt og þetta, að stöðugleiki, velferð og öryggi skipti alla aldurshópa máli. „Til að tryggja öryggi og velferð þarf samfélag okkar að búa við efnahagslegan vöxt og stöðugleika.“ Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Hver skrifaði þetta bréf þar sem öllu þessu var lofað öllum eldri borgurum, ef það hefur ekki komið fram hjá mér í upphafi? Þessir ágætu kjósendur voru eldri borgarar samkvæmt manntali, allir sem þá voru eldri borgara. Þetta bréf er skrifað af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, með mikilli vinsemd til eldri borgara. Í þessu bréfi er því lofað að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Virðulegi forseti. Þegar ein mínúta er eftir bið ég hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem kunna að koma í andsvar við mig, að koma með eitthvað annað en talnaflóð sem hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir var með áðan, þ.e. 17,1% hækkun. Menn lifa ekki á 17,1% hækkun, 17,1% á eitthvað lélegt er ekki neitt neitt. Menn lifa ekkert á því. Komið frekar og tökum umræðu um það hvernig aldraðir og öryrkjar eiga að draga fram lífið á smánarbótum sem ég segi alveg hiklaust í lok ræðu minnar að séu einn mesti smánarblettur á þessu landi. Það var því mjög jákvætt og eðlilegt að verkalýðshreyfingin og stéttarfélögin í landinu mundu leggja höfuðáherslu á að lækka lægstu laun, þó svo að það verði ekki fyrr en um mitt ár 2018 sem þau laun ná 300 þús. kr. Ég er þeirrar skoðunar sem jafnaðarmaður að það viðmið eigi líka að vera grunntala fyrir aldraða og öryrkja.