145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég ætla að biðja hann að skýra út fyrir mér verklag sem haft var við við síðustu fjárlög vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, fjárlög fyrir 2013. Þá lá fyrir að á árinu 2012 hafði verðlag hækkað um 5,2% en bætur almannatrygginga, samkvæmt ákvörðun, höfðu þá í ársbyrjun hækkað um 3%, það hafði sem sagt orðið kjaraskerðing upp á tæplega 2%. Engu að síður tekur meiri hluti fjárlaganefndar ákvörðun um að leggja það til að bætur almannatrygginga skuli eingöngu hækka um 3,9% árið 2013. Ákvörðun var sem sagt tekin um það (Forseti hringir.) af meiri hluta fjárlaganefndar að bæta ekki öryrkjum og eldri borgurum upp kjaraskerðingu sem varð vegna hærri verðbólgu en gert var ráð fyrir. Núna er verið að ganga miklu lengra og hækka bætur. (Forseti hringir.) Hækkunin mætti vera miklu hærri, um það skulum við vera sammála, en þó er verið að hækka þær að raungildi núna, ólíkt því sem áður var.