145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, seinni hluti ræðu minnar hér áðan, um fjárlög íslenska ríkisins fyrir 2016, snerist einmitt um þá þjóðfélagshópa þar sem vantar krónur í umslagið um hver mánaðamót, margar krónur; um fólk sem getur ekki dregið fram lífið á eðlilegan hátt eins og við viljum að sé í okkar ágæta þjóðfélagi.

Hvar er gólfið? spyr hv þm. Björn Leví Gunnarsson. Já, ég hef ekkert betra gólf til að miða við núna en samninga aðila vinnumarkaðarins, allra atvinnurekanda í landinu, sama hvort er í útgerð, ferðaþjónustu, iðnaði eða hverju. Þeir sömdu um 300 þús. kr. lágmarkslaun, hækkun þeirra í áföngum til ársins 2018. Ég held að það séu þau lágmarkslaun sem samfélagið hefur komist að niðurstöðu um og okkar verkefni, sem kjararáð aldraðra og öryrkja, eins og lögin segja til um í dag, er að taka þá umræðu hérna. Mér finnst að við eigum að halda okkur við það.

Það er það sem kemur fram í ákalli Elvu Daggar Gunnarsdóttur, í opnu bréfi til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra; þar er lýsing á stöðu öryrkja og hún er sorgleg.