145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að koma hér í andsvar við mig og spyrja mig út í samgöngumál. Ég er nokkuð viss um að þetta er mín fyrsta ræða um fjárlög, frá því að ég settist á þing árið 1999, þar sem ég geri samgöngumál ekki að umræðuefni.

Það gerði ég viljandi að þessu sinni. Ég vildi annars vegar eyða tímanum í rökstuðning fyrir bættri stöðu ríkissjóðs og þjóðfélagsins almennt. Ég fór yfir það hvers vegna það er og ræddi svo um það sem mér finnst vera mesta misréttið og svínaríið, bæði í fjáraukanum fyrir þetta ár og fjárlögum næsta árs, þ.e. hvernig komið er fram við aldraða og öryrkja. En að samgöngumálum.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, framganga þessarar ríkisstjórnar hvað varðar samgöngumál hefur verið snautleg. Við höfum séð að samgönguáætlun hefur komið fram, lögð fram af hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur meðan hún var innanríkisráðherra. Ég sagði þá að það væri samgönguáætlun um lítið sem ekki neitt. Það var í raun og veru Íslandsmet í að gera ekki neitt í samgöngumálum. Og talandi um erfiðleikaárin okkar á síðasta kjörtímabili, í tíð síðustu ríkisstjórnar, þá voru slegin nokkur Íslandsmet nokkur ár í röð með metframkvæmdum í samgöngumálum. Aldrei hefur eins mikið verið gert og á þeim erfiðleikaárum. Það var að sjálfsögðu líka stutt með því að opinberar framkvæmdir þyrftu að vera í gangi o.s.frv.

En þessi samgönguáætlun, sem er ekki komin fram, og mér skilst að bíði eftir niðurstöðu fjárlaga — þessir litlu plástrar, sem verið er að setja hér fram í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, eru 300–400 millj. kr. í þennan og hinn málaflokkinn, sem er nánast það eina nýja sem kemur inn. Það dugar ekki einu sinni til að borga þær framkvæmdir sem eru í gangi sem eru allt saman framkvæmdir sem teknar voru ákvarðanir um í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hafa engin ný verk farið í gang. Það dugar ekki til. Með þessari breytingu er verið að setja svona smádúsur upp í þá þingmenn sem sitja í meiri hluta fjárlaganefndar til að reyna að friðþægja liðið.

En lítil upphæð ofan á ekki neitt er ekki neitt.