145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins að því sem ég gleymdi að ræða í umræðu um samgöngumál áðan sem aðdraganda að útskýringum á samgönguáætlun eða ekki samgönguáætlun o.s.frv.; ég vil taka fram að ég er mjög ánægður með einn þátt í einni af mörgum breytingartillögum meiri hlutans, þ.e. þar sem aukið er í ljósleiðaravæðingu landsins. Ég mun koma að því í seinni ræðu minni, hvenær sem hún nú verður haldin. Það er jákvætt vegna þess að það er nýtt. Fyrst voru 300 millj. kr. settar í verkefnið, sem hefði þýtt að verkefnin hefðu spannað 20 ár, en hér er framlagið hækkað upp í 500 millj. kr.

Varðandi fækkun nemendaígilda og árás hæstv. menntamálaráðherra á framhaldsskólamenntun, þ.e. að heimila ekki 25 ára og eldri að sitja í framhaldsskólum eins og gert hefur verið undanfarið, þá er það mjög sláandi. Það þýðir að fækkað hefur um 447 í bóknámi og um 295 í list- og verknámi, alls 742 nemendur. Það kemur sér auðvitað langverst úti á landi, enda heyrum við það í skólunum þegar við heimsækjum (Forseti hringir.) þá og tölum við skólaforráðamenn að allir kvarta yfir því. (Forseti hringir.) Það sem ég er ósáttastur við er að þetta var gert án þess að ræða þessa miklu stefnumótun á Alþingi.