145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Ég þakka spurninguna. Ég gerði mér það að smáleik, ég fékk ekki nægan tíma til þess, en það er gaman að bera saman heildartölurnar hjá hverri stofnun fyrir sig, bera saman tvær stofnanir og hugsa um af hverju. Fangelsismálastofnun sem hefur sagt að hún þurfi að loka fangelsi, hún geti ekki sinnt hlutverki sínu, er með 1,6 milljarða meðan Nýsköpunarmiðstöð Íslands fær greitt úr ríkissjóði hálfan milljarð. Ef við berum saman Fangelsismálastofnun og Nýsköpunarmiðstöð, ég er ekki að segja hvaða verkefni eru þar að baki, ég þarf að vita ástæðurnar til að geta sagt eitthvað um þessar tölur. En að meta þær saman svona hlið við hlið segir dálítið um áherslur. Mér finnst áhugavert til dæmis að nýsköpun sé þrefalt minni en fangelsismál. Ég er ekki að segja að fangelsismál séu óþörf og þau eigi að lækka, ég er að segja að hækka eigi nýsköpun. Samgöngustofa fær næstum því 2 milljarða, Menntamálastofnun um 800 milljónir, sýndist mér. Þetta er mjög áhugaverður leikur að leika.

Á bak við þessar tölur eru alltaf ástæður sem við verðum að vita. Það eru alltaf markmið sem við verðum að hafa á hreinu. Það eru þau sem við verðum að rökræða. Við getum spurt: Er þetta markmið raunhæft eða mælanlegt? Það er þessi peningur sem fylgir þar á bak við; af hverju, á þetta enn þá við eða ekki? Í staðinn fyrir að hlaupa á 50 milljónum fram og til baka eftir óljósum aðstæðum sem (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpið núna frá meiri hluta virðist dreifast handahófskennt. Þetta er svona eins og peningadreifari. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að leggja of mikinn dóm á það svo sem. Það er meira að skoða.