145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú kann að vera að ástæða þess að ég eigi erfitt með að skilja þessa aðferðafræði Pírata, eða hönnunarlausnir eða hvað það er, sé aldur minn og bara sú staðreynd að ég er með skagfirskt blóð í æðum, en ég skildi hvorki upp né niður í svarinu, því miður. Hv. þingmaður hlýtur að hafa farið í gegnum aðferðafræði og hönnunarlausnir varðandi tekjuöflunarkerfi ríkisins. Það er ekki nóg að koma upp og velta fyrir sér útgjöldunum ef menn hafa ekki farið í gegnum hvernig tekjuöflunarkerfi ríkisins er best og skynsamlegast. Það hlýtur að liggja á borðum Pírata eftir allan þennan tíma hvernig best er til dæmis að skattleggja eða hvort eigi yfir höfuð að skattleggja almennar launatekjur og þá með hvaða hætti. Á að gera það í margþrepa skatti eða einum flötum skatti þar sem allir greiða jafnt? Á að vera skattleysisþrep? Eiga skattleysismörkin að vera hærri að lægri en nú er?

Eins er með virðisaukaskattinn, það getur ekki verið þegar stærsti tekjustofn ríkisins er annars vegar, sem á að fjármagn það sem við erum síðan að deila um hér í útgjöldum ríkisins. Ég bara trúi því ekki að Píratar hafi ekki farið í gegnum aðferðafræðina og hönnunarlausnirnar á því hvernig virðisaukaskattskerfið eigi að vera eða hvort það eigi að víkja fyrir einhverjum öðrum hentugri lausnum sem henta þá almenningi. Það er það sem við erum að gera.