145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Grunnurinn í þeirri hugmyndafræði sem við vinnum að er nærsamfélagið. Núverandi flæði fjármagns hjá hinu opinbera eru skattar sem fara til ríkisins og er síðan útdeilt til sveitarfélaga. Það ætti að vera dálítið í hina áttina þannig að sveitarfélögin gætu aflað sinna eigin tekna til að fjármagna eigin verkefni. Sem dæmi fá sveitarfélög útsvar af tekjuskatti einstaklinga en ekki útsvar af tekjuskatti fyrirtækja. Þau fá ekki hlutdeild af virðisaukaskattinum. Sú breyting gæti fjármagnað ansi mörg verkefni sveitarfélaganna. Í augnablikinu fá sveitarfélög aðeins af launatekjum og fasteignagjöldum fyrirtækja sem eru á svæði þeirra.

Við erum ekki að segja: Hendum kerfinu bara burt og fáum eitthvað alveg nýtt. Við viljum breytingar í skrefum. Við stígum eitt skref í einu til þess að skoða hvort það sé í áttina að þeim markmiðum sem við sækjumst eftir. Miðað við núverandi ástand skoðum við hvort það virkar. Ef það er í lagi þá þarf ekki að breyta neinu. Ef einhverjir vankantar eru þá fáum við hugmyndir að lausnum, veljum á milli þeirra, tökum skref í þá átt og skoðum hvort þær breytingar séu í áttina að markmiðum eða ekki. Annars stígum við einfaldlega til baka og tökum þá annað skref. Við viljum fara ítarlega yfir þau vandamál og lausnir sem við erum að glíma (Forseti hringir.) við. Það er engin stór bylting í hugmyndafræði (Forseti hringir.) skatttekna og svo framvegis sem við erum að boða. Við erum að boða hvernig við (Forseti hringir.) getum breytt samfélaginu án þess að þurfa að stóla í rauninni á vald.