145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og skilmerkilega ræðu þar sem hún fór yfir helstu atriði fjárlaganna. Það kom kannski ekki á óvart að hún einbeitti sér svolítið að landsbyggðinni. Nú er ég Reykjavíkurbarn að miklu leyti og hef ekki ferðast vítt og breitt um landið eins og hv. þingmaður. Ég fór til Vestfjarða í haust og mér varð einfaldlega brugðið því að vegirnir höfðu ekki verið gerðir upp í fimmtíu ár, að því er virtist. Þetta eru án efa verstu vegir sem ég hef nokkurn tíma keyrt og hef ég nú keyrt upp í Kákasusfjöll þar sem ekkert hefur verið gert í sextíu ár. Það var skömminni skárra en vegurinn á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún telji þurfa til þess að koma vegakerfinu, sérstaklega á Vestfjörðum, í ásættanlegt horf og sjá til þess að einbreiðar brýr verði ekki áfram þar eins og eru á köflum. Hvað telur hv. þingmaður að þurfi til þess?

Einnig væri ég til í að fá að heyra viðhorf hv. þingmanns til breytingartillögu meiri hlutans varðandi umboðsmann Alþingis, að 13 milljónir af tekjum stofnunarinnar falli niður vegna þess að stjórnarliðar vilja meina að þetta sé leigukostnaður en taka samt ekki til greina þann aukna rekstrarkostnað sem fylgir því að vera í eigin húsi. Hvað finnst hv. þingmanni um að verið sé að vega að fjárhagslegu sjálfstæði umboðsmanns Alþingis?