145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég var sérstaklega ánægður með það í andsvari hv. þingmanns að hún skyldi viðurkenna að í ákveðnum veigamiklum atriðum hefði í rauninni verið um fabúleringar að ræða.

Varðandi ljósleiðaratenginguna og háhraðatenginguna sem núverandi ríkisstjórn vinnur að er það auðvitað sérstakt fagnaðarefni að stjórnarandstaðan og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir séu farin að reka á eftir því að ríkisstjórnarstefnan gangi hraðar vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur þá stefnu að ljósleiðaravæða landið. Það var sett af stað af núverandi ríkisstjórn og var stefna núverandi ríkisstjórnar fyrir síðustu kosningar. Hv. þingmaður verður líka að kynna sér það sem komið hefur fram í máli þeirra þingmanna sem skiluðu umræddri skýrslu og hafa svo verið að vinna núna í framhaldinu að verkefninu. Það er hugsanlega mögulegt að leysa þetta á hagkvæmari hátt en gert hefur verið. Það hefur komið fram í umræðum. Það hefur komið fram hjá þeim sem skipaði þann hóp. Og það verður núverandi ríkisstjórn sem mun vinna að því verkefni, að ljósleiðaravæða landið. Ég er sérstaklega ánægður með að stjórnarandstaðan og hv. þingmaður séu farin að reka á eftir stjórninni í þessu efni.

En hægt hefði verið að rekja mörg önnur atriði (Forseti hringir.) sem komu fram í ræðu hv. þingmanns sem standast ekki skoðun og voru í rauninni ekki á rökum reist eða rétt. En ég hef því miður ekki tíma til þess í þessu stutta andsvari.