145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki boðlegt að koma svona fram við eldri borgara og öryrkja í þessu landi. 23 milljarða hækkun segir ekki alla söguna. Það kemur fram í samantekt frá öryrkja sem hefur skrifað um þessi mál að málflutningur núverandi ríkisstjórnar sé til skammar. Það er sérstaklega tekið fram að árið 2011, hjá ríkisstjórninni sem var þá við völd, krónutöluhækkuðu bætur, sambærilega og í kjarasamningum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. (Gripið fram í.) Hækkunin sem varð 2013, 3,9%, var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Bætur hafa einungis verið hækkaðar 1. janúar 2014 um 3,6% og í janúar 2015 um 3%. Þetta gerir 6,6% hækkun í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ef við tökum líka hækkunina 2013 eru það 10,5%. Þetta eru hlutirnir og menn eru að fabúlera, svo við notum það orð. Sú hækkun sem varð núna í janúar, 3%, var fyrir árið 2014. Auðvitað eiga öryrkjar og aldraðir rétt á því að fá sambærilegar hækkanir og aðrir þjóðfélagshópar í þessu landi. Menn geta ekki endalaust slegist með prósentum og milljörðum út og suður. Fólk sem lifir á 190 þús. kr. á mánuði varðar ekkert um slíka talnaleikfimi. Það varðar ekkert um það. Menn kaupa ekki mat fyrir þá upphæð og leigja ekki húsnæði fyrir hana né fæða og klæða börnin sín. (Forseti hringir.) Þannig er nú það, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.