145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hv. varaformaður fjárlaganefndar lýsti eftir því í ræðu í gær að æskilegt væri að menn reyndu að ræða stóru myndina í þessu fjárlagafrumvarpi og það hyggst ég gera. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í einstaka fjárveitingaliði hér þó að vissulega væri þörf á því. Kannski gerir maður það í seinni ræðu. Það breytir ekki hinu, að ég hef verulegar áhyggjur af einstökum liðum, til að mynda í mínu kjördæmi þar sem ég þekki vel til og þar sem ég fæ því miður ekki séð að meiri hluti fjárlaganefndar hyggist á nokkurn hátt bregðast við óskum til að mynda Breiðdælinga um úrlausn í brýnum hagsmunamálum þess litla sveitarfélags sem berst fyrir að rétta af stöðu sína eftir mjög erfið ár. (Gripið fram í: Hvaða sveitarfélag?) Breiðdalshreppur sem þarf nauðsynlega á uppgjöri að halda vegna hafnarframkvæmda og þarf stuðning við Breiðdalssetur, svo dæmi séu tekin, en ég fæ ekki séð að meiri hluti (Gripið fram í.) fjárlaganefndar leggi þar nokkuð til. Hið sama mætti segja um Djúpavog sem er að reyna að ná vopnum sínum eftir það áfall sem staðurinn varð fyrir þegar Vísir fór þaðan með alla sína starfsemi. Ekkert bólar á mótvægisaðgerðum í þágu þeirra byggðarlaga sem verða núna fyrir verulegum búsifjum vegna viðskiptabanns Rússa og þannig mætti áfram telja.

Fyrst aðeins að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem er nokkuð mikil bók vegna þess að þar eru listaðar upp og útskýrðar allar breytingartillögurnar. Sjálfur greinargerðartextinn er ekkert ýkja langur, en athyglisverður. Ég ætla að staldra þar við á nokkrum stöðum.

Á fyrstu síðu segir meiri hlutinn í 4. mgr., með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem samgöngumannvirkjum, og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á aukin útgjöld í öldrunarþjónustu. Einnig er lögð minni áhersla hérlendis á framlög til háskóla en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þetta kallar á forgangsröðun.“

Þetta er alveg prýðilegur texti. En hvað kemur svo? Hvar sér þessa síðan stað í áherslum meiri hlutans? Því miður hvergi. Það er áframhaldandi sveltistefna varðandi fjárfestingar í innviðum. Það er ekkert lagt sérstaklega til þess að mæta breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það er ekkert lagt inn á framtíðarlífeyrisskuldbindingar og háskólarnir fá nánast enga leiðréttingu sinna mála, sáralitla. Að lágmarki, segja þeir menn í háskólasamfélaginu sem ég hef talað við, þyrfti að tvöfalda þær fjárhæðir sem háskólarnir fá núna, flestir nokkra tugi milljóna.

Nefndarálitið er áhugavert á fleiri stöðum. Á bls. 2 er til dæmis tafla um þróun afkomunnar milli ára og breytingar frá frumvarpinu sem lækka þann litla afgang sem frumvarpið var lagt fram með þannig að hann fer niður í 10,7 milljarða samkvæmt nefndarálitinu. Ég mun koma betur að því síðar þegar ég ræði stóru myndina í ríkisfjármálum og hagstjórn.

Á bls. 4 er afar athyglisverður texti um þróunaraðstoð sem ég hélt að við værum orðin sammála um að kalla frekar þróunarsamvinnu, nema augljóslega ekki meiri hluti fjárlaganefndar. Þar segir:

„Í samræmi við stefnumörkun á undanförnum árum hafa framlög til þróunaraðstoðar verið stóraukin.“

Ég hélt að það væri alveg þveröfugt í samræmi við stefnu sem ekki hefur verið fylgt, ekki ályktun Alþingis þar um á síðasta kjörtímabili sem allir nema einn í salnum greiddu atkvæði og ekki einu sinni tillögu að stefnumótun sem núverandi utanríkisráðherra lagði fram en fékk ekki afgreidda því að þar var meiningin að hækka hlutfall þróunarsamvinnu í 0,23% af vergri landsframleiðslu, en þau munu núna haldast óbreytt, 0,21%, í þrjú ár. Það heitir ekki að þau séu stóraukin. Það heitir ekki að þau séu hækkuð. Það er hreinn útúrsnúningur að tala um að þó að landsframleiðslan vaxi séu menn þar með að auka framlögin vegna þess að eini viðurkenndi mælikvarðinn á það eru hin alþjóðlegu viðmið um hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þar erum við óralangt frá því að uppfylla skyldur okkar um 0,7% af hálfu hins opinbera og þess vegna er þetta hneykslanlegur texti. Maður spyr sig stundum, forseti: Er hægt að setja á blað fullyrðingar um hvað sem er? Er ekkert mál að halda því sisona fram að það sé verið að stórauka framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu, sem hér er kölluð þróunaraðstoð upp á gamla mátann, þegar þau eru óbreytt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Hún er hinn viðurkenndi mælikvarði.

Á bls. 7 er fjallað um framlög til samgönguframkvæmda. Þar er þetta afgreitt í raun og veru þannig að til að raunhæfar og árangursríkar áætlanir um uppbyggingaráform geti staðist þurfi fyrst og fremst að lækka greiðslur ríkissjóðs og þar með greiða niður skuldir hans.

Í þessu nefndaráliti er á öðrum stað viðurkennt að það er ekki verið að greiða niður skuldir. Er þá með því verið að segja að engar úrbætur verði í samgöngumálum, ekki verði meira lagt til þess málaflokks fyrr en einhvern tímann í framtíðinni? Er verið að segja það? Já, ég yrði ekki hissa á því vegna þess að það er í samræmi við þá tillögu að ríkisfjármálaáætlun sem fjármálaráðherra fékk hér afgreidda síðastliðið vor sem gerir ráð fyrir því að fjárfestingarstig hins opinbera haldist óbreytt, aukist ekki um eitt einasta hæti til og með árinu 2019. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á þeirri yfirlýsingu sem fólgin er í ríkisfjármálaáætluninni og hér í nefndarálitinu. Það er verið að segja við landsmenn: Það verður ekkert gert í vegamálum umfram það sem nú er í gangi, þá sveltistefnu sem núna er, fyrr en eftir árið 2019. Það eru aldeilis fréttir, held ég, fyrir til dæmis þingmenn stjórnarflokkanna af landsbyggðinni að færa heim í sín kjördæmi.

Það er hins vegar viðurkennt í textanum að með óbreyttum fjárframlögum taki áratugi að endurbæta vegi og koma á viðeigandi samgöngubótum. Það er ágætt að meiri hlutinn sé sér meðvitaður um þetta, viðurkenni að það mun taka áratugi, en það er það sem er verið að bjóða upp á. Svo er að vísu einhver furðulegur parsus um að meiri hluti fjárlaganefndar mælist til þess að skoðaðir verði kostir þess að leggja slitlag á vegi án verulegra framkvæmda, mögulega án þess að breyta hámarkshraða, til að flýta sem mest bættum samgöngum. Ja, það er fátt sem meiri hluta fjárlaganefndar er óviðkomandi. (Gripið fram í: Ekkert.) Ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að taka að sér að hanna vegakerfið fyrir Vegagerðina (Gripið fram í.)og veita afslátt frá stöðlum um að vegir séu hannaðir í samræmi við nútímakröfur um öryggi og annað í þeim dúr? Það mætti helst ætla það. Það er þá þrautaráðið, að bjóða upp á annars flokks vegi. Meiri hluti fjárlaganefndar tekur óumbeðið að sér forustu í því hlutverki og væntanlega hönnun þeirra vega. Ekki er það einu sinni samgöngunefnd sem þarna fjallar um málin, heldur meiri hluti fjárlaganefndar.

Á bls. 12 er byrjað að skýra út breytingartillögur við frumvarpið sem meiri hlutinn flytur og ég staldra þar við liðinn 00-205 Framkvæmdir á Alþingisreit. Þar hefur meiri hluti fjárlaganefndar skotið inn kostulegum texta. Með leyfi forseta segir:

„Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, samanber fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.“

Hér hefur meiri hluti fjárlaganefndar eða einhverjir fyrir hans hönd, hann ber allur ábyrgð á því úr því að hann stendur sameiginlega að nefndarálitinu, skotið inn þessari kostulegu setningu. Nú vill svo til að mér er kunnugt um að þetta fylgdi ekki með tillögum ríkisstjórnarinnar til fjárlaganefndar þar sem byggingaráform Alþingis fengu fyrirgreiðslu í samræmi við óskir forsætisnefndar þar um, að ríkisstjórnin hefði með í sínum tillögum óskir forsætisnefndar Alþingis um fjárveitingar, þar á meðal undirbúning nýbyggingaráforma. Ekkert slíkt var að finna í skýringum með tillögunum frá fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Mér er kunnugt um það. Nei, það er meiri hluti fjárlaganefndar eða einhver þar á bæ sem ætlar að stinga þessu inn.

Þetta mál er á forræði forsætisnefndar Alþingis. Þar hefur þessi undirbúningur farið fram og það er forsætisnefnd Alþingis sem hefur hann með höndum. Ekki var haft eitt orð í samráð um þetta mál við forsætisnefnd Alþingis eða forseta Alþingis. Það er aldeilis að menn ætla sér stóra hluti í fjárlaganefnd. Það eru aldeilis vinnubrögð í samskiptum aðila innan þingsins, að ætla að skrúfa einhverjar svona skilyrðingar inn í þessa aura sem reyndar eru minni en forsætisnefnd bað um, 75 milljónir í stað 100, (Gripið fram í.) sem duga þó auðvitað til að koma hönnunarsamkeppninni af stað sem forsætisnefnd hefur verið að undirbúa í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins. Það er bara algerlega á hreinu að í forsætisnefnd hefur aldrei verið einu sinni til umræðu að skilyrða þá hönnunarsamkeppni við eitthvað af þessu tagi enda ekki til siðs. Þar verða venjulegir skilmálar á ferð um að gæta að umhverfinu og aðstæðum á byggingarreitnum og annað ekki. Það verður ekki talað um næstum 100 ára gamlar skissur frá Guðjóni Samúelssyni í því sambandi, með fullri virðingu þó fyrir honum, enda voru þau áform barn síns tíma. Það hús átti að rísa á allt öðrum stað og tilheyrir næstum að segja annarri öld og bókstaflega líka.

Ég veit ekki betur en að í forsætisnefnd sé fullkomin samstaða um að hafa þennan texta formanns fjárlaganefndar að engu. Mig grunar að þar sé aðalhöfundinn að finna, kannski með stuðningi einhverra flokksbræðra, eins og hv. 3. þm. Norðvest., og er þá verið að ganga erinda hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum.

Ég geri líka athugasemdir við liðinn 00-212 þar sem allt í einu á að flytja 4 millj. kr. framlag vegna 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna frá Alþingi og yfir í Jafnréttissjóð. Þetta er ekki í samræmi við þann undirbúning og þær ákvarðanir sem teknar voru af forsætisnefnd og síðan framkvæmdanefndar afmælisársins. Þá var gert ráð fyrir að þetta yrði sjálfstæður fjárlagaliður hjá Alþingi í fimm ár, 4 milljónir á ári, (Gripið fram í: Af hverju kom það ekki í frumvarpinu?) og ekki blanda þessu neitt saman við — þannig kom það í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur hér til flutning, (Gripið fram í: Þetta er breytingartillaga.) breytingartillögu með nýrri lögskýringu. Er búið að ræða þetta við stjórn Jafnréttissjóðs? Samræmist þetta skipulagsskrá sjóðsins? Er búið að ræða þetta við þá sem ég veit ekki betur en að búið sé að gera samninga við um að annast þau skrif sem hér eiga í hlut? (Gripið fram í: … einstaklingur á bak við þetta.) Það þarf að gæta að því hvort Alþingi er samningsbundið á öðrum forsendum en þarna eru lagðar upp. Ég er bara að nefna það sem auðvitað hefði þurft að skoða í þessu máli áður en menn henda inn breytingartillögu af þessu tagi. (Gripið fram í: Hver er ritarinn?) Þetta eru engin vinnubrögð. (Gripið fram í: Hver er ritarinn?) Getur hv. formaður fjárlaganefndar komið hér upp og svarað þessum spurningum? Var haft um þetta samráð við stjórn Jafnréttissjóðsins? Er búið að skoða skuldbindingar þingsins og er búið að skoða þann grundvöll sem lagður var þegar þessi áform voru afgreidd sem hluti af afmælishaldinu, að ráða til þess valinkunna aðila, sagnfræðinga og aðra slíka, til að annast um þessi söguskrif sem hluta af því að halda upp á þessi tímamót?

Ég ætla ekki að fara út í að svara skætingsframmíköllum hv. formanns fjárlaganefndar. Ég er að spyrja um vinnubrögð og forsendur í máli sem ýmsum kann að þykja ekki stórt. Auðvitað langar hv. þingmann að lesa inn í þetta eitthvað annarlegt eins og við heyrum á hinum vanstilltu frammíköllum.

Margt fleira mætti segja um nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar, en ég ætla ekki að gerast uppteknari af því en svona. Að öðru leyti vísa ég í prýðilegt nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar þar sem okkar afstöðu er mjög vel til haga haldið.

Stóra myndin í þróun ríkisfjármálanna á Íslandi er sú að við sátum uppi með, sem vonlegt var, má segja, gríðarlegan vanda í ríkisfjármálum eftir nánast algert hrun og nánast niðurbráðnun íslenska hagkerfisins á síðustu mánuðum ársins 2008. Hann var vissulega margþættur, stafaði af hruni fjármálakerfisins sem stafaði af gríðarlegum töpum sem lentu á ríkinu. Hann stafaði af því að útgjöld jukust vegna hrunsins. Það var óumflýjanlegt að horfast í augu við verulega aukinn kostnað vegna aukins atvinnuleysis o.s.frv., en hann stafaði ekki síst af því að tekjur ríkisins hrundu. Tekjustofnar ríkisins reyndust algerlega óburðugir til að standa undir lágmarkssamneyslu, enda höfðu þeir verið veiktir markvisst árin á undan og ríkið hafði lifað á froðutekjum af þenslunni í ofhitnuðu hagkerfi. Vandinn var því gríðarlegur og lét ekki á sér standa í kennitölum.

Niðurstaða ríkisreiknings 2008 var 217 milljarða kr. halli á þágildandi verðlagi. Það stefndi í 200 milljarða halla +/- á árinu 2009 ef ekkert hefði verið að gert. Það var tekið til hendinni og meðal annars farið inn í fjárlögin á miðju ári og aðgerðir upp á um 22–23 milljarða á hálfu ári voru þá færðar inn í lög, samtals pakki upp á 45 milljarða eða svo á ársgrundvelli. Þar með hófst baráttan við að rétta af afkomu ríkisins. Þetta leiddi til þess að hallinn varð ekki nema 140 milljarðar á árinu 2009, lækkaði sem sagt um 57 milljarða milli ára og síðan í stórstígum skrefum á hverju ári eftir það þar til jöfnuði var náð 2013, meira að segja afgangi ef óreglulegir liðir eru teknir til hliðar. Þetta er grófa myndin af þróun ríkisfjármálanna á síðasta kjörtímabili. Hún er orðin að óumdeilanlegum staðreyndum af því að ríkisreikningur birti hana og aðrar niðurstöður sem menn geta ekki þrætt um.

Hver hefur síðan orðið þróunin frá því? Hún hefur hvað hagkerfið snertir að flestu leyti verið jákvæð áfram. Efnahagsbatinn hefur haldið áfram, atvinnuleysið hefur haldið áfram að minnka. Fjárhagur heimila og fyrirtækja hefur batnað og skuldahlutföll lækkað og á margan hátt er raunhagkerfið á Íslandi að endurheimta fyrri styrk og sums staðar fullkomlega. Þannig er til dæmis sjávarútvegurinn sennilega að verða sterkari í dag en hann hefur verið um áratugaskeið. Hann er búinn að endurheimta eiginfjárstyrk sinn og rúmlega það eins og hann var þegar hann varð mestur löngu fyrir hrun, en eins og allir ættu að vita þurrkaði hrunið, og erfið ár fyrir útflutningsgreinarnar í aðdraganda þess, upp eigið fé í íslenskum sjávarútvegi og rúmlega það. Hinn ofvaxni bankageiri ruddi öllu til hliðar. Höfuðstóllinn var neikvæður um 50 milljarða kr. í árslok 2008. Þannig skildi Sjálfstæðisflokkurinn við sjávarútveginn þegar valdatíma hans lauk í það skiptið að sjávarútvegurinn var gjaldþrota. Hann var með öfugan höfuðstól upp á 50 milljarða kr. Það er satt best að segja ekki í fyrsta skiptið, frú forseti, sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur þannig við sjávarútveginn sem hann þykist vera vinur umfram alla.

Hið sama átti við á síðari hluta ársins 1988. Þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í ein fimm ár, og hvernig var ástandið í útflutningsgreinunum þá, haustið 1988, þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins sprakk og gafst upp? Þá voru útflutningsgreinarnar gjaldþrota, ekki bara sjávarútvegurinn heldur meira og minna allar útfluningsgreinar landsins. Þá hafði Sjálfstæðisflokknum líka tekist að þurrka upp eigið fé sjávarútvegsins. Sú ríkisstjórn sem þá tók við, björgunarstjórn undir forustu Steingríms Hermannssonar, varð að endurfjármagna íslenska sjávarútveginn og fleiri iðngreinar, útflutningsgreinar. Það var gert með stofnun Hlutafjársjóðs og Atvinnutryggingasjóðs og það var gert með því að ríkið gerðist meðeigandi að öllum þeim sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu sem þurftu á aðstoð að halda og nýju eigin fé, en dró mörkin við það að 49% eignarhlutfall dygði. Þetta varð niðurstaðan, að ríkið eignaðist í stórum stíl allt að helming í sjávarútvegsfyrirtækjunum á Íslandi vegna þess að efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins á undan hafði þurrkað út eigið fé í íslenskum sjávarútvegi með heimskulegri fastgengisstefnu á tímum mikillar verðbólgu sem auðvitað setti útflutningsgreinarnar tiltölulega hratt á hausinn.

Ef þetta ætti eftir að gerast einu sinni enn einhvern tímann í nálægri framtíð, við skulum vona ekki, væri orðið allt þegar þrennt væri.

Mér finnst þetta sögulega dálítið athyglisvert, frú forseti, ég vona að forseti sé sammála því, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn talar oft eins og hann sé alveg sérstakur verndari atvinnulífsins, einkarekendurnir þurfi nú ekki að kvíða sínum hag ef Sjálfstæðisflokkurinn hafi völdin, þess vegna sé svo mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi völdin og þess vegna sé eitthvað að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki völdin. Þegar þetta er hins vegar skoðað í sögulegu samhengi á grundvelli staðreynda, litið til baka, er það til dæmis svona í tilviki íslensks sjávarútvegs að í tvígang í minni okkar sem hér erum með nokkra reynslu á þingi hafa menn staðið frammi fyrir því að þurfa að bjarga málum eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett sjávarútveginn á hausinn, þurrkað upp allt eigið fé hans. (VigH: Sjálfstæðisflokkurinn?)Sjálfstæðisflokkurinn fór með forustuna í báðum þessum tilvikum eins og kunnugt er. Þannig er ástandið.

Nú hefur okkur hins vegar vegnað vel, m.a. vegna þess að við höfum orðið að horfast í augu við það að skapa útflutnings- og samkeppnisgreinunum aftur lífvænleg skilyrði. Það tókst á síðasta kjörtímabili með því að ná stöðugleika í gengismálum og raunhæfu gengi, ekki án fórna gagnvart lífskjörum almennings og þeirra sem eru með erlend lán, en það hefur hins vegar tryggt að íslenska raunhagkerfið hefur risið tiltölulega hratt og markvisst úr öskustó eftir að vera stórkostlega laskað auðvitað eftir hrunið. Yfir þessu gleðjumst við öll, að við séum að ná vopnum okkar að þessu leyti. Það má heita uppsveifla og sumir eru farnir að ganga svo langt, m.a. virðulegir bankastjórar, að tala um blússandi góðæri. Auðvitað er það venjuleg skilgreining á góðæri að þegar menn upplifa fimmta hagvaxtarárið í röð vegni mönnum vel. En hvernig gengur þá hjá ríkinu eftir að núverandi ríkisstjórn tók við? Og hvernig eru horfurnar?

Horfurnar eru þær, ef við bara tökum mark á pappírunum fyrir framan okkur, fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, að afgangurinn í ríkissjóði verði 10 milljarðar kr. á næsta ári, hann minnki um helming miðað við það sem gert er ráð fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu. Við förum aftur á bak en ekki áfram. Hér hafa stjórnarliðar hver á fætur öðrum hrósað sér af glæsilegum árangri. Þetta er stórkostlegt, þriðja árið í röð án halla og við erum á réttri leið, var sagt hérna í gærkvöldi, en erum við á réttri leið ef afgangurinn í ríkissjóði minnkar á næsta ári og fer bara niður undir núll vegna þess að 10 milljarðar kr. af 700 milljarða umsetningu ríkisins eru ekki mikið? Það er innan skekkjumarka, það má lítið út af bera til að það fjúki ekki fyrir borð. Það er kannski afgangur upp á um 1,3% af niðurstöðutölu fjárlaganna. Það nær ekki 0,5% af vergri landsframleiðslu. Og við förum aftur á bak en ekki áfram.

Veruleikinn er sá, því miður, ef tekin er afkoma ríkisins á rekstrargrunni án óreglulegra liða að ríkið er við eða undir núllinu öll þessi þrjú ár, þ.e. þau tvö sem eru liðin og það næsta sem þessi ríkisstjórn ber ábyrgð á. Það er bara þannig. Án óreglulegra liða er afkoma ríkisins rétt við núllið á rekstrargrunni, er ekki batnandi og staðan mjög veik þrátt fyrir hagvöxt og þrátt fyrir að þeir tekjustofnar sem hafa verið látnir í friði og ekki veiktir gefa meira af sér með hinni efnahagslegu uppsveiflu. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni vegna þess að þetta þýðir að það er ekkert borð fyrir báru. Þetta þýðir að um leið og lítils háttar bakslag kæmi í hagkerfinu yrði ríkissjóður kominn í halla. Þannig virkar hagsveiflan einfaldlega þegar hún kemur að afkomu ríkisins.

Þetta þýðir, eins og meiri hluti fjárlaganefndar vissulega viðurkennir, að við erum ekki að borga niður skuldir. Við hjökkum í sama farinu þriðja árið í röð. Það er allur metnaður þessarar ríkisstjórnar, því miður.

Til að gæta allrar sanngirni hafa útgjöld vissulega aukist. Á það er mikill þrýstingur og hann er skiljanlegur. Við leggjum til að betur sé gert á ákveðnum sviðum en meginágreiningurinn liggur í stefnunni sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið. Stefnan er sú að minnka tekjur ríkisins, minnka umsvif hins opinbera. Það er kristaltært. Ég held því fram að við núverandi aðstæður Íslands sé það óábyrgt og efnahagslega háskalegt vegna þess að staða okkar er enn svo viðkvæm og vegna þess að þörfin víða fyrir traustari búskap ríkisins æpir á okkur úr öllum áttum. Það viðurkennir meiri hluti fjárlaganefndar aftur og aftur hér í textum en gerir svo ekkert með það. Það er þannig.

Í þriðja lagi er það hagstjórnarlega mjög slæmt að ríkið skuli ekki frekar leggja af mörkum með Seðlabankanum í viðleitni til að halda jafnvægi í hagkerfinu en að vinna á móti honum. Það er komin upp gamalkunn staða þegar óábyrg öfl fara með ríkisfjármálin. Seðlabankinn er opinberlega farinn að kvarta undan því að ríkisfjármálin styðji ekki við peningastefnuna og varar við óskynsamlega tímasettum skattalækkunum. Man nokkur eftir þessu? Hafa menn einhvern tímann lesið eitthvað svipað? Hver er meginniðurstaðan í greiningu rannsóknarnefndar Alþingis á efnahagsmistökunum og hagstjórnarmistökunum árin fyrir hrun? Hún er meðal annars nákvæmlega sú að þá reri ríkið í austur og Seðlabankinn reyndi að róa í vestur. Ríkið gróf undan stöðugleika með ákaflega óskynsamlegum aðgerðum sínum á margan hátt á árunum 2002–2003 og til og með hruni og Seðlabankinn réð auðvitað ekki neitt við neitt. Vissulega má deila um skynsemi tilrauna hans til að beita hagstjórnartækjum sínum, t.d. með hækkun stýrivaxta á tímum vaxtamunarviðskipta.

Þetta er hið stóra áhyggjuefni, að við náum ekki neinum frekari árangri í undirliggjandi afkomu ríkisins. Það er veruleikinn. Þetta er hinn kaldi, dapurlegi veruleiki. Hv. þingmenn stjórnarliða geta komið hér upp og lýst sig ósammála mér, en ég spái því (Gripið fram í.) að í mörgum úti í samfélaginu sem eru læsir á þessa hluti sé dálítill hrollur. Ég þykist vita að hægri menn muni skamma sína menn aðallega fyrir að skera ekki meira niður eða fyrir að auka útgjöld en þeir munu ekki deila um að það er ekki ásættanlegur árangur að hjakka í farinu með ríkisfjármálin þrjú ár í röð í tíð þessarar ríkisstjórnar og ná engum frekari árangri í því að treysta undirstöðurnar, bæta afkomuna, geta þá gert betur á mikilvægustu sviðum innviðafjárfestinga og í velferðarmálum og byrjað í reynd að greiða niður skuldir, nafnverð skulda, en ekki bara hampa því að hlutfallið lækki borið saman við vaxandi landsframleiðslu.

Nokkur einstök mál hafa verið mikil fyrirferðar eins og málefni Ríkisútvarpsins. Hv. formaður fjárlaganefndar hafði þar uppi ótrúlegar fullyrðingar um að stjórnarandstaðan ástundaði blekkingar, eins og ekki væri hægt að fara í skjöl og finna það sem rétt er í þeim efnum, og að það væru þau sem hefðu hækkað útvarpsgjaldið og það væri ekkert verið að skera það niður, ef ég skildi hana rétt, hv. þingmann. Veruleikinn í þessum málum er ósköp einfaldur. Á árinu 2012 var útvarpsgjaldið, þá í lögum um Ríkisútvarpið ohf., hækkað úr 17.900 í 18.800 kr. Það tengdist því sem þá var í vinnslu um framtíðarhagsmuni Ríkisútvarpsins. Vissulega átti á móti að koma nokkur takmörkun á auglýsingatekjum útvarpsins, en þannig og með þessu átti að leggja grunn að því að sá rekstur yrði sjálfbær og Ríkisútvarpið fengi svo til framtíðar litið að halda sínum tekjum. Þannig kemur talan 18.800 kr. inn í breytingum á lögum um Ríkisútvarpið ohf., lögum nr. 6/2007, við afgreiðslu ráðstafana í ríkisfjármálum í desember 2011.

Það er síðan núverandi ríkisstjórn sem í frumvarpi til laga um forsendur fjárlaga fyrir árið 2014 hækkar vissulega þessa tölu úr 18.800 í 19.400, ekki til þess að Ríkisútvarpið fengi þá peninga, heldur valdi hún þann kost að hækka þennan skattstofn um 3%, eins og annað í frumvarpinu hjá sér, en samþykkti í bandormi samtímis að gjaldið skyldi lækka á árinu 2015 í 17.800 og á árinu 2016 í 16.400 og vísaði í almennar skýringar með frumvarpinu um það efni. Þar var einfaldlega sagt að þetta væri gert til að lækka skatta. Deilan núna stendur um hvort þessi seinni áfangi lækkunar útvarpsgjaldsins eigi að koma til framkvæmda um áramót og það högg að lenda á Ríkisútvarpinu að fullu. Er ekki tiltölulega einfalt mál að taka afstöðu til þess? Þarf að þvæla eitthvað um það og rugla og bera menn þeim sökum að kunna ekki söguna eða fara ekki rétt með? Þetta er eins kristaltært og nokkuð getur verið. Við stöndum frammi fyrir þeirri pólitísku ákvörðun hvort láta eigi þetta högg í viðbót lenda á Ríkisútvarpinu eftir allar þess þrengingar. Stjórnendur Ríkisútvarpsins tala alveg skýrt í þeim efnum. Verði það gert mun Ríkisútvarpið ekki geta uppfyllt lagaskyldur sínar, starfað eðlilega í samræmi við lög um opinbert útvarp í almannaþágu.

Varðandi hækkun bótafjárhæða aldraðra og öryrkja sem hér hefur auðvitað orðið eðli málsins samkvæmt mjög að umtalsefni undanfarna daga, bæði í tengslum við fjáraukalög og nú fjárlög, er það sömuleiðis að mínu mati tiltölulega einfalt mál að nálgast. Hið eðlilega viðmið þar er hækkun grunnfjárhæðanna í kerfinu borið saman við launaþróun. Allt í einu bregður svo við að allur samanburður stjórnarmeirihlutans er við verðlag og verðlagsþróun sem byggir að mínu mati á þeim grundvallarmisskilningi að viðkomandi greinar þar séu útgangspunktur almannatryggingalaganna. Svo er ekki. Það er algerlega skýrt, bæði í lögunum um almannatryggingar og í lögunum um atvinnuleysisbætur, að viðmiðunin á að vera launaþróun. Almenn launaþróun, segir þar vissulega. Hvers vegna er skotið inn öryggisákvæði í almannatryggingalögin um að bæturnar skuli þó aldrei hækka um minna en verðlag? Það er öryggisákvæði. Það liggur algerlega ljóst fyrir, samanburður við það er vísvitandi villandi. Það er verið að reyna að afvegaleiða menn með því að menn geti bara vel við unað ef bæturnar hækka örlítið meira en verðlag, jafnvel þótt þær hækki miklu minna en laun annarra í landinu. Þetta er röng nálgun. Þarna er verið að reyna að villa mönnum sýn.

Þá er einfalt að skoða þróun launavísitölunnar, jafnvel þótt menn sættist á að nota hana sem hið almenna viðmið, og hvaða hækkunum þessar bótafjárhæðir hafa tekið. Það er kristaltært að hækkun upp á 3,6% í fyrra og 3% í ár hefur þýtt að aldraðir og öryrkjar hafa hvað varðar grunnlífeyrinn, tekjutrygginguna og greiðslur til barnafólks dregist verulega aftur úr. Það er bara þannig. Það mundi þurfa að óbreyttu stærstan hluta áformaðrar hækkunar 1. janúar næstkomandi til að vega upp það misgengi og sætu þá aldraðir og öryrkjar áfram nokkurn veginn óbættir hjá garði. Svona er þetta nú.

Það hjálpar síðan ekkert upp á að rugla saman við þetta ýmsu öðru sem hér hefur verið gert. Málsvörn stjórnarliða hefur aðallega verið sú að fyrri ríkisstjórn sem endalaust er þeirra eina vörn hafi skert bætur í júní 2009. Það er rétt. Þá var farið inn í almannatryggingalöggjöfina. Allt var undir. Ég var búinn að fara yfir það, við fórum inn í fjárlögin á miðju ári og vorum með aðgerðir upp á um þriðja tug milljarða, það var fyrsta stóra skrefið til að koma í veg fyrir að ríkissjóður Íslands yrði gjaldþrota. Ekkert var undan skilið, laun voru lækkuð og það var skorið niður alls staðar þar sem hægt var, aflað tekna eins og mögulegt var. Það tókst að koma í veg fyrir að ríkissjóður yrði gjaldþrota og tókst að skila honum í jafnvægi í hendurnar á núverandi ríkisstjórn. En það kostaði vissulega umfangsmiklar og erfiðar aðgerðir.

En hvernig voru þessar aðgerðir útfærðar vorið 2009? Þær voru allar í formi þess að tekjutengdar skerðingar voru aftur auknar frá því sem var og bakkað til þess horfs sem hafði verið fyrir mitt ár 2007. Til dæmis var tekjuskerðingarhlutfall tekjutryggingar fært úr 38,35% aftur upp í 45% eins og það hafði verið um langt árabil þangað til menn héldu að þeir væru svo ríkir í góðærinu miðju 2007, u.þ.b. ári fyrir hrunið, að þeir töldu sig hafa efni á að lækka það niður í 38,35%. Sú lækkun gekk til baka, það er rétt. Það var auðvitað eitt af því erfiða. Vissar frekari tekjutengingar voru þar í pakkanum en grunnfjárhæðirnar voru ekki skertar og afkomutryggingin miðað við framfærsluviðmið var hækkuð og fylgdi verðlagi allan tímann í gegnum alla kreppuna. Hvaða tilgangi þjónar hún? Hún ver þá sem engar aðrar tekjur hafa, tryggir afkomu þeirra. Hún var hækkuð í 180 þús. kr. á árinu 2009 og er núna 224 þús. kr., eitthvað svoleiðis. Hún ver þá sem verst eru settir. Atvinnuleysisbætur höfðu verið hækkaðar umtalsvert á árinu 2007. Þær voru ekki skertar. Trygging bæði atvinnulausra og elli- og örorkulífeyrisþega sem urðu að reiða sig eingöngu á tekjur úr þeim kerfum var varin í gegnum kreppuna. Það er veruleikinn. En við höfum aldrei neitað hinu sem er staðreynd og blasir við að, já, við jukum tekjutenginguna.

Þegar gerðir voru kjarasamningar með verulegum og sérstökum láglaunahækkunum 2011 var þeim, eins og hér hefur rækilega komið fram, samstundis komið til hópsins að fullu þannig að allar grunnfjárhæðirnar, grunnlífeyririnn, tekjutryggingin og barnagreiðslurnar, hækkuðu um 8,1% 1. júní 2011. Afkomutryggingin hækkaði um 12 þús. kr. á mánuði, og hefur þá væntanlega farið í 92 þús. kr., og elli- og örorkulífeyrisþegar sem nutu fullra bóta fengu 50 þús. kr. eingreiðslu eins og samdist um í kjarasamningunum. Að fullu var samningunum strax skilað inn til þessa hóps miðað við sama tíma. Það er hinn nærtæki samanburður við það sem ríkisstjórnin er nú að bögglast með. Ég skil satt best að segja ekki hvernig mönnum dettur í hug að ætla að ljúka málinu svona hér fyrir jólin.

Lágmark væri það, og ég veit ekki hvort ég á að þora að segja þetta en ætla að gera það samt, að menn segðu sem svo: Jú, það kom 3% hækkun um áramót, við skulum þá bæta upp muninn á þeim 3% og þeim 8–10% sem þetta ætti að hækka um innan ársins, skila kjarasamningunum að fullu inn frá og með 1. maí eða 1. mars en draga frá þeim skilum 3% sem komu um síðustu áramót. Það væri út af fyrir sig einhver málefnaleg viðmiðun sem menn gætu reynt að standa á. Að ætla ekki að gera neitt er algjört hneyksli.

Má ég þá í þriðja lagi spyrja hvort verið sé að segja að aðstæðurnar séu sambærilegar þegar málsvörn stjórnarliða nú er eitthvað sem ríkisstjórn Íslands gerði í júní 2009? Eru þeir að segja að Ísland sé á sama stað? Er það? Er það einhver vörn að vísa til neyðaraðgerða sem menn voru í til að bjarga ríkissjóði Íslands frá gjaldþroti undir árslok 2015? Gengur þetta ekki allt saman svo vel hjá okkur? Ha? Hvers konar málsvörn er það að vísa til þess sem menn urðu að láta sig hafa að gera við þær ógnaraðstæður sem þá voru uppi? Ég er satt best að segja hissa á því hversu langt menn ganga í slíkum málflutningi.

Auðvitað vitum við af þeirri áráttu sumra stjórnarliða að afsaka allar sínar gerðir með einhverju sem fyrri ríkisstjórn gerði. Þær eru satt best að segja að verða eitt það hlálegasta sem ég hef upplifað í pólitík á bráðum 40 árum sem ég hef verið nokkuð virkur í stjórnmálum, þessar óskaplegu krumpur á sálinni hjá núverandi valdhöfum yfir því að á undan þeim hafi setið einhver ríkisstjórn. Það er bara eins og aumingja fólkið vakni og sofni til þeirrar hugsunar dag og nótt, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Hvar er ykkar stefna í þessum efnum? Hvar er ykkar metnaður sem nú farið með völdin? Hvar er ykkar sjálfstæða réttlæting fyrir því sem þið eruð að gera en ekki endalaust einhver samanburður við ósambærilegar hrikalegar aðstæður Íslands á árinu 2009? Er þetta ekki stórbrotið? Er þetta ekki allt eins háleitur málflutningur hjá fólki? Ja, ég leyfi mér að spyrja.

Samgöngu- og byggðamálin hafa verið nefnd. Ég gæti tekið heilbrigðismálin en hef ekki mikinn tíma í þau. Ég ætla að ganga svo langt til að gleðja ónefnda menn hér að segja að vissulega er á nokkrum stöðum um að ræða jákvæða hluti, t.d. í sambandi við byggðamál, að sjálfsögðu, að setja aðeins meira fé í ljósleiðaravæðinguna sem allir eru sammála um að sé brýnt forgangsverkefni. Nokkur árangur hefur náðst í jöfnun flutningskostnaðar á raforku og vonandi næst einhver frekari árangur í jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Náttúrlega voru lögð drög að því öllu saman og það var byrjað á því á síðasta kjörtímabili. Fyrsta skrefið í jöfnun húshitunarkostnaðar var tekið á árinu 2012, svo því sé nú haldið til haga, fyrir utan margt annað sem menn gerðu þrátt fyrir erfiðar aðstæður eins og að taka upp jöfnun flutningskostnaðar. Á öðrum sviðum er frammistaða ríkisstjórnarinnar hörmuleg. Það er hörmulegt að hún skuli hafa skorið niður og nánast eyðilagt þá viðamiklu og góðu vinnu sem unnin var í sóknaráætlunum landshlutanna þar sem menn gerðu sér vonir um að svæðin sjálf hefðu til ráðstöfunar á eigin forsendum samtals 1,2 milljarða kr. en áttu að fá 15 milljónir samkvæmt tillögum þessarar ríkisstjórnar í tvígang. Það átti sem sagt að slá verkefnið af. Svo tókst að kreista þær upp í 100 eða 140 milljónir nú en það er ekki upp í nös á ketti og í engu samræmi við þann viðamikla undirbúning sem að því máli var unninn.

Skólamálin, bæði framhaldsskólarnir og háskólarnir, fá ekki að mínu mati fullnægjandi úrlausn en brýnast af öllu er þó að taka á málefnum heilbrigðiskerfisins og sérstaklega Landspítalans. Menn geta sagt allt sem þeir vilja mín vegna um fortíðina í þeim efnum en það breytir ekki því að stjórnendur spítalans og þeir sem best til þekkja segja við okkur að það vanti 3 milljarða í viðbót til að Landspítalinn geti sinnt sómasamlega hlutverki sínu sem þjóðarsjúkrahús. Það er ekki hægt að ýta slíku bara til hliðar eins og það skipti (Forseti hringir.) ekki máli. Það er ekki hægt.