145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála þeim breytingartillögum sem minni hlutinn leggur fram. Ég tel að forgangsröðun brýnustu viðbótarverkefna sem við teljum að þurfi að sinna betur hafi verið mjög vel valin. Ég lagði jafnframt áherslu á það þegar við ræddum þetta í þingflokki okkar að þær tillögur þyrftu að vera fjármagnaðar og það eru þær. Á þeim er fjármögnun sýnd og ég tel að hún sé fullkomlega raunhæf.

Varðandi skatteftirlitið þá er það þannig að skattrannsóknarstjóri hefur nú fengið í hendur gögn um eignir auðmanna faldar erlendis. Það er ein möguleg uppspretta mögulegra skatttekna ef unnið verður úr þeim gögnum þannig að það skili skatttekjum til landsins vegna fjár sem fór með óréttmætum hætti þangað út og menn komu sér hjá skattlagningu. Við höfum reynslu af átaki ríkisskattstjóra í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um að heimsækja vinnustaði í tengslum við t.d. Allir vinna, mjög góða reynslu sem skilaði auknum skatttekjum. Það veit ég. Ég fylgdist með því á meðan það var í gangi. Ég veit að ekki stendur á ríkisskattstjóra og væntanlega ekki heldur aðilum vinnumarkaðarins að fara einfaldlega í enn öflugra átak til að útrýma svartri atinnustarfsemi eins og hægt er, í ferðaþjónustu, iðnaði og annars staðar. Slíkt gefur tekjur. Bara þær heimsóknir og ferðir komu skattskilum tuga ef ekki hundraða fyrirtækja í lag. Það veit ég. Ég er því bjartsýnn á að þar megi sækja umtalsverða fjármuni. Hærri veiðigjöld. Það er í okkar höndum að leggja á einhvers konar auðlindagjald á orkunotkun. Ég tel þessar fjármögnunartillögur fullkomlega raunhæfar.

Ég hef svo í viðbót gagnrýnt mjög harkalega hvernig ríkisstjórnin hefur afsalað sér miklum tekjum og tel mig ekki vera í neinni mótsögn þegar ég tala þar af leiðandi fyrir öðrum áherslum í þeim efnum. Ég sagði í ræðu minni að ég viðurkenndi þrýstinginn á og þörfina fyrir aukin útgjöld á ýmsum sviðum. Ég var ekki að gagnrýna það þó að ýmsir kynnu að vilja gera það, en það væri ómálefnalegt af minni hálfu vegna þess að ég viðurkenni það alveg að það er mikil þörf víða til þess að (Forseti hringir.) auka útgjöldin. Ágreiningurinn liggur um vilja til tekjuöflunar.