145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alla vega mjög ólík nálgun þeirri sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar sett var til dæmis inn gólf fyrir litlu framhaldsskólana til að verja þá fyrir sveiflum í nemendafjölda, þeir fengju þá aldrei minna en tiltekna lágmarksfjárveitingu. Það var stofnaður einn nýr framhaldsskóli á botni kreppunnar á utanverðum Tröllaskaga. Það voru stofnaðar nokkrar nýjar framhaldsdeildir á allmörgum svæðum. Þetta var gert á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir alla erfiðleikana þá. En núna eru menn að skera þetta niður. Núna eru menn að þjarma að þessum litlu og veiku einingum og hrekja fólk eldra en 25 ára út úr framhaldsskólunum. Ég botna ekkert í þessu. Við opnuðum skólana, bæði framhaldsskólastigið og háskólastigið, gátum að vísu ekki borgað fullt með öllum nýjum nemendum, en sömdum við skólana um að taka þá engu að síður þannig að ungt fólk gæti notað erfiðleikaárin til þess að mennta sig í staðinn fyrir að mæla göturnar, fluttum fjármuni úr atvinnuleysistryggingahlutanum yfir í menntageirann. Þetta gafst vel. Núverandi ríkisstjórn er nánast að öllu leyti að fara í öfuga átt hvað þetta varðar.