145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við þekkjum er olíuverðið mjög brigðult og erfitt að spá fyrir um það. Það getur sveiflast ansi mikið á mjög skömmum tíma og maður hefði haldið að reynslan sýndi að þetta getur einnig gerst þegar kemur að gengi íslensku krónunnar. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta útskýringu.

Ég er einnig að velta fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi fara að sjálfur ef hann væri fjármálaráðherra undir þessum kringumstæðum núna, sér í lagi þegar kemur að afgangi af tekjum ríkissjóðs. Mundi hv. þingmaður nota svigrúmið til að auka útgjöld eða borga skuldir? Ég spyr vegna þess að mér skilst á ræðum, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra og annarra, að það geti líka verið þensluhvetjandi að borga skuldir ríkissjóðs. Eins og ég skil þetta, og ég er ekki viss um að ég hafi skilið þetta rétt, væri það vegna þess að það mundi búa til aukið svigrúm fyrir ríkissjóð til þess að eyða peningum, en eins og ég segi er ég ekki viss um að ég skilji það betur. Mér þætti vænt um (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður gæti ráðlagt okkur eitthvað í þeim efnum.