145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins í sambandi við hagsveifluna. Við getum þess vegna sagt eins og við vorum að ræða um olíuna. Nú hefur hún lækkað alveg gríðarlega, eitthvað um 60% í innkaupum, heimsmarkaðsverðið á olíuvörum. Það er komið mjög lágt. Það er ólíklegt að það fari miklu neðar í öllu falli. Með öðrum orðum, áhættan er á hina hliðina. Við erum búin að njóta góðs af hinu lækkaða olíuverði. Það hefur hjálpað til við að halda niðri verðbólgu, það hefur reyndar stórbætt afkoma útgerðar o.s.frv. Áhættan núna er þar með orðin á hina hliðina, olíuverð gæti allt í einu farið að hækka. Þá erum við ekki í góðum málum. Það mun ekki hjálpa til í þenslunni.

Varðandi afganginn. Segjum að við hefðum haldið inni 30 milljörðum af þeim tekjum sem ríkisstjórnin hefur sleppt fyrir borð af 40 og værum með það í viðbót í afgang á næsta ári, það fylgdi okkur bara inn í framtíðina sem grunnur tekjuöflunar og afgangurinn væri 40 milljarðar, hvað ættum við að reyna að gera? Ég mundi mæla með því að við mundum reyna varlega (Forseti hringir.) að auka fjárfestingu í mikilvægustu innviðum, en það er takmarkað sem við getum gert í því vegna hitans í hagkerfinu. Restina ættum við (Forseti hringir.) að nota í að reyna að greiða niður skuldir þannig að þær (Forseti hringir.) skuldaniðurgreiðslur yllu ekki þenslu.