145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:41]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Brottflutningur albönsku fjölskyldnanna í skjóli nætur er smánarblettur fyrir okkur Íslendinga og þá sérstaklega fyrir hæstv. innanríkis- og dómsmálaráðherra. Allir með einhvern vott af samkennd eða, með leyfi forseta, „medlidenhed“ eins og sagt er á dönsku og nær kannski betur yfir hugtakið, komust við í morgun við að sjá myndir af litlu börnunum og foreldrum þeirra vera numin á brott af lögreglumönnum og flutt eins og ótíndir glæpamenn úr landi. Það á sjálfum alþjóðlegum degi mannréttinda. Þetta er svo ömurlegt að megi þau hafa skömm fyrir sem stóðu að þessari ákvörðun. Þögn ráðherra og ráðamanna við umleitan fjölmiðla þegar þeir leituðu svara við þessari aðgerð í dag verður ekki tekið með þegjandi samkomulagi. Svo mikið er víst. Það er eitthvað gruggugt þegar hæstv. ráðherra og aðrir yfirmenn dómsmála og innanríkismála hér á landi svara ekki fjölmiðlum og neita að tjá sig um jafn alvarlegan viðburð og hér varð.

Málefni hælisleitenda og flóttamanna sem koma til Íslands þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Það er með öllu ólíðandi að embættismenn hafi það í hendi sér hverjir fá landvistarleyfi af mannúðarsjónarmiðum og hverjir ekki. Við getum dregið í efa að yfirmenn Útlendingastofnunar hafi „medlidenhed“ eða samkennd að leiðarljósi þegar þeir sinna störfum sínum. Og að líf barna og fjölskyldna sé háð því hvaða afstöðu einstaka embættismaður hefur til viðkomandi er fullkomlega fáránlegt. Hefði sú sem hér stendur haft þetta vald í hendi sér í morgun hefði hún aldrei nokkurn tíma sent fárveik börn og fjölskyldur þeirra úr landi. Börn eiga alltaf að njóta vafans, samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum sáttmálum sem við höfum skuldbundið okkur til. Það að þetta skuli hafa verið gert í skjóli nætur er vægast sagt ömurlegt. Ráðherra verður að gera svo vel að svara kalli þjóðarinnar og standa fyrir máli sínu í þessu og öðrum málum sem tengjast oft og tíðum óvæginni meðferð á hælisumsóknum flóttamanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Virðulegur forseti. Nú í haust kom út bók á íslensku sem ber heitið Hvað er jafnaðarstefnan? þar sem fjallað er um hugmyndir jafnaðarmanna og verkefni á nýjum tímum. Bókin er skrifuð af rótgrónum sænskum jafnaðarmönnum og á fullt erindi við okkur Íslendinga nú í dag. Ég hvet alla þingmenn til að kynna sér hana, ekki síst þingmenn stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd og jafnframt í öðrum nefndum. Í bókinni segir, með leyfi forseta:

„Í samfélagi sem byggir á jafnrétti, frelsi og samstöðu eru grundvallarhugsjónir jafnaðarmanna um allan heim að allir eigi kost á menntun við hæfi og að allir geti gætt að heilsu sinni og leitað sér læknisþjónustu ef heilsan brestur. Til þess að hver einstaklingur geti notið þessa frelsis og til þess að einstaklingarnir í samfélaginu hafi allir sömu tækifæri þá verður að líta á menntun og heilbrigðisþjónustu og öryggi í ellinni sem grundvallarréttindi allra borgara án tillits til efnahags. Grundvallarreglan um samstöðu gerir þá kröfu til okkar að við tryggjum hvert öðru þessi réttindi.“

Það er einmitt grundvallarreglan um samstöðu sem á að vera leiðarljós okkar stjórnmálamanna að mínu mati. Jöfnuður og samstaða eru falleg orð sem gott er að hafa að leiðarljósi þegar unnið er að undirbúningi fjárlaga. Vald meiri hluta fjárlaganefndar er mikið þegar kemur að því að deila úr sameiginlegum sjóði okkar landsmanna. Við gerum þá kröfu til þeirra sem sitja í meiri hluta hverju sinni að þau tryggi jafnan aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og öryggi í ellinni, jöfnuð og samstöðu.

Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er fyllsta ástæða til að óttast að meiri hluti fjárlaganefndar hafi haft eitthvað annað en jöfnuð og samstöðu að leiðarljósi þegar hann vann nefndarálit sitt um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Slíka reiði hefur það vakið í samfélaginu að langt er síðan annað eins hefur gerst. Jafnvel meintum stuðningsmönnum stjórnarflokkanna er misboðið og þá er nú mikið sagt. Það er því fullt tilefni til, fyrir meiri hluta fjárlaganefndar, að huga að endurmati á áliti sínu á milli 2. og 3. umr. fjárlaganna. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þau ætli að láta öryrkja og ellilífeyrisþega sitja eftir og festast í fátæktargildru nú þegar land er tekið að rísa á ný eftir mögur ár að undanförnu. Það er þyngra en tárum taki að upplifa það að ekkert þeirra sem nú eru við stjórnvölinn í landinu hafi lært af reynslu undanfarinna ára nema kannski það að búa enn betur í haginn fyrir þá sem aldrei fá nóg af peningum. Við skulum átta okkur á því að landið mun ekki rísa að eilífu. Við verðum að búa svo um hnúta að allir í þessu landi geti tekið á sig nýja dýfu því að hún kemur. Við verðum að hafa þá samstöðu og þann jöfnuð í samfélaginu að við getum öll tekist á við næstu dýfu. Það er kannski ekkert mjög langt í hana ef grannt er skoðað.

Orðum og athöfnum fylgja ábyrgð og okkur sem hér stöndum ber að huga að velferð samborgara okkar lengra en sem nemur einu kjörtímabili. Það getur verið erfitt fyrir stjórnmálamenn, vissulega, því að oft og nánast undantekningalítið miðast aðgerðir og fjárveitingar við það að ná kjöri í næstu kosningum.

Við megum ekki láta öryrkja og ellilífeyrisþega dragast enn frekar aftur úr. Okkur ber skylda til að nota þetta „bullandi góðæri“, svo vitnað sé í orð bankastjóra Landsbankans, virðulegi forseti, til að búa þeim kjör sem eru fjárhagslega ríkri þjóð sæmandi. Öryrkjum og ellilífeyrisþegum á að líða vel í landi okkar. Við erum rík þjóð. Við eigum nóg af náttúruauðlindum. Við eigum nóg af peningum. Við megum ekki láta andlegu fátæktina ná yfirhöndinni.

Virðulegur forseti. Gott heilbrigðiskerfi sem allir hafa jafnan aðgang að er alger forsenda samstöðu í landinu. Landspítalinn gegnir þar lykilhlutverki en án öflugs þjóðarsjúkrahúss með vel menntuðu starfsfólki molnar hratt undan heilbrigðiskerfinu. Við þekkjum öll ástand bygginganna á Landspítalalóðinni og þurfum ekki að fjölyrða frekar um það. Við fögnum því að hafin er bygging á nýju sjúkrahúsi og að þetta gamla þrætuepli sé þar með úr sögunni, þökk sé þeim sem tóku af skarið. Rétt eins og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar bendir á í grein í Fréttablaðinu í dag er spítali miklu meira en hús. Hann snýst um að fá og halda því færasta starfsfólki sem völ er á hverju sinni og að það fólk fái nægilegt fjármagn til að sinna þeim flóknu verkefnum sem það hefur kunnáttu til. Það er beinlínis fáránleg hugmynd að fullnýta ekki alla þá þekkingu sem læknar okkar og annað heilbrigðisstarfsfólk býr yfir. Við eigum öll að fá að njóta hennar þegar við þurfum óháð efnahag. Ég hvet meiri hluta fjárlaganefndar til að endurskoða fjárveitingar til starfsemi spítalans árið 2016 og sjá sóma sinn í að við erum þjóð á meðal þjóða.

Virðulegur forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar og hæstv. heilbrigðisráðherra hafa boðað að auka skuli hlut heilsugæslunnar í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Í prinsippinu erum við jafnaðarmenn sammála þeirri áherslu enda er öllum ljóst að vel rekin heilsugæsla um allt land eykur aðgang að heilbrigðisþjónustu og dregur úr óþarfainnlögnum á sjúkrahús. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé þessar áherslur á heilsugæsluna ekki í nefndaráliti meiri hlutans. Ég sé hennar ekki stað en þar er gert ráð fyrir 227 millj. kr. viðbótarframlagi til heilsugæslu og heilbrigðisstofnana um allt land. Minn talnaskilningur greinir þetta ekki sem sérstakt áherslumál hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Það sem meira er, það ýtir undir þann illa grun að núverandi meiri hluti sé á fleygiferð við að einkavæða heilbrigðiskerfið og ýta þannig undir massífa, fyrirgefið orðbragðið, virðulegur forseti, stéttaskiptingu í landinu. Ef þessi þróun heldur áfram að grassera munu aðeins þeir efnameiri eiga þess kost að sækja sér alla þá læknisþjónustu sem þeir þurfa á að halda þegar þeir þurfa á henni að halda. Í þessu sambandi vil ég minna enn og aftur á að jöfnuður skapar samstöðu og samstaða býr til jöfnuð.

Ég vil nota tækifærið og hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra og þakka honum fyrir að hafa fylgt eftir þingsályktun hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og fleiri um að fara af stað með stefnumótun og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Hæstv. ráðherra lagði þessa stefnu fram nú fyrr í haust og hún er nú til meðferðar í velferðarnefnd. Sú sem hér stendur fagnar sérstaklega áformum um að hlutverk heilsugæslunnar í geðheilbrigðisþjónustu verði aukið, samanber þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra, og að fyrsta meginmarkmið nýrrar geðheilbrigðisstefnu skuli vera að samþætta þjónustu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu.

Það er algerlega með ólíkindum að árið 2015 skulum við vera með geðheilbrigðisþjónustuna að miklu leyti aðskilda í þessum tveimur kerfum og það eru fremur lítil samskipti þar á milli, leyfi ég mér að segja. Geðsjúkdómar eru með þeim hætti að það er tiltölulega einfalt að vinna þá bæði í velferðarþjónustu sveitarfélaga og á heilbrigðisstofnunum um allt land. Það er nefnilega þannig að stundum dugar þeim sem eiga við andlega kvilla að stríða að fá greiðan aðgang að sálfræðingum velferðarþjónustu sveitarfélaga. Stundum er gott að leita aðstoðar á heilsugæslustöðvum. Þeirri sem hér stendur er mjög mikið hjartans mál að heilbrigðiskerfið í samvinnu við velferðarkerfi sveitarfélaga hlúi að börnum geðsjúklinga.

Hér skal það viðurkennt að ég átti sæti í stýrihópi um þessa geðheilbrigðisstefnu og var þar talsmaður barna og ég gleðst því yfir að hafa átt gott samstarf við helstu sérfræðinga landsins sem hafa kynnt sér það sérstaklega hvernig hægt er að draga úr hættunni á því að geðsjúkdómar flytjist á milli kynslóða. Það er stórt og mikið hagsmunamál vegna þess að alvarlegir geðsjúkdómar eru þeirrar náttúru að þeir eru faldir og duldir. Það er ekki talað um þá. Börn sem búa við geðsjúkdóma foreldra eða náinna aðstandenda eiga sér enga talsmenn. Það er enginn sem talar máli þeirra. Þau geta ekki talað um þetta. Þau geta ekki talað um þennan alvarlega sjúkdóm sem leggur heimili í rúst. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ráðherra, velferðarnefnd og fjárlaganefnd taki höndum saman um að hrinda þessari prýðilegu áætlun í framkvæmd hið allra fyrsta.

Af því að mér er þetta málefni um aðbúnað barna, sem búa og alast upp í skugga geðveiki, hugleikið verð ég að segja að það veldur mér vonbrigðum, á sama tíma og ég er mjög ánægð með framtak ráðherra og hv. þm. Sigríðar Ingibjargar og allra sem að þeirri tillögu stóðu, að sú einfalda og ódýra aðgerð sem stýrihópur lagði til að farið yrði af stað með strax á árinu 2016 — þessi stefna heitir Tölum um börnin/Fjölskyldubrúin — og yrði innleidd innan velferðarþjónustu heilbrigðis-, félags- og menntakerfis er ekki á fjárlögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið: Að draga úr hættu á að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða með því að veita einstaklingum með geðraskanir og fjölskyldum þeirra fræðslu og meta þörf fyrir stuðning í uppeldishlutverki þeirra. Að styðja börn fólks með geðraskanir í samræmi við aldur og þroska.“

Um framkvæmdina segir þetta, með leyfi forseta:

„Framkvæmd: Þverfaglegt teymi sérfræðinga vinni að innleiðingu með því að þjálfa starfsfólk í heilsugæslu í þeim vinnubrögðum sem verkefnið gerir kröfu til.“

Verkefnið er skilgreint á ábyrgð velferðarráðuneytis. Meðal samstarfsaðila eru nefndir: Menntamálastofnun, embætti landlæknis, Landspítali, innanríkisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, notendasamtök og hagsmunasamtök aðstandenda. Samkvæmt þingsályktunartillögu ráðherra sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd er mælanlegt markmið að Fjölskyldubrúin hafi verið innleidd á 70% heilsugæslustöðva árið 2018. Samkvæmt kostnaðarmati sérfræðinga sem litu á þessa aðgerð er hún talin muni kosta í heild sinni 28,8 millj. kr., þ.e. að þjálfa starfsfólk í að tala um börnin og við börnin.

Það er leitt að sjá að það hafi misfarist að hafa þetta verkefni inni á fjárlögum og í nefndaráliti meiri hlutans fyrir árið 2016. Það hefði verið svo einfalt að koma þessu þar inn því að slík er upphæðin ekki. Betri jólagjöf er sennilega ekki hægt að gefa fjölskyldum sem búa við geðsjúkdóma vegna þess að aðventan og jólin eru erfiður tími. Það væri sómi að því að koma þessu inn á fjárlög ársins 2016. Betri jólagjöf get ég ekki hugsað mér.

Það eru líka aðrar aðgerðir þarna sem eru að sjálfsögðu mjög mikilvægar. Þar er meðal annars talað um geðrækt og um hið mikilvæga verkefni að unnið verði að því að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Það er nefnilega þannig að allt of margir sem glíma við geðveiki eru fastir inni á sjúkrahúsi. Það er ömurlegt til þess að hugsa að stór hluti þessa fólks getur lifað sæmilegu lífi úti í samfélaginu sé rétt að honum búið. Þau þurfa ekki svo mikið en þau þurfa reisn meðal annars og að við tölum um geðsjúkdóma og gerum það með þeim hætti að fólk sé ekki niðurlægt fyrir að glíma við slíka sjúkdóma.

Einn liður í þessari stefnumörkun hér er einmitt forvarnaverkefni og geðræktarverkefni og það að opna umræðuna. Ég hvet því hæstv. ráðherra og velferðarnefnd að fylgja eftir þessari stefnumörkun af fullri festu. Hún kostar ekki það mikið. Hún snýst um viðhorf. Hún snýst um afstöðu okkar samfélags, að viðurkenna að til er fólk sem glímir við veikindi í höfðinu en það er hægt að leiðrétta svo margt ef við tökum okkur saman í andlitinu og tölum um þetta og vinnum að því að opna umræðuna og opna þar með líka umræðuna um það hvernig hægt er að ná bata.

Ég vík nú að framlögum til háskóla í landinu en viðbótarframlag samkvæmt nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar hljóðar upp á 329 millj. kr. sem er nánast allt eyrnamerkt til fjölbreyttra og afmarkaðra verkefna. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að hér hafi sprottið upp háskólar um allt land og fólk hafi flykkst í háskóla á Íslandi eftir hrun. Það er hins vegar áhyggjuefni — ég hefði gjarnan vilja eiga samtal við einhvern fulltrúa meiri hlutans í fjárlaganefnd um það en ég veit ekki hvar þeir eru ef þeir eru ekki hér — að ekki skuli vera meiri eftirspurn eftir lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hvað veldur því? Um það vildi ég ræða við formann fjárlaganefndar eða varaformann. Í nefndaráliti segir að framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði lækkuð um 400–500 milljónir. Það er engin skýring á því. Ég hef verið að reyna að leita skýringa á þessum samdrætti að undanförnu en skýringin er bara sú að umsóknum hafi fækkað. Umsóknum frá námsmönnum á Íslandi hefur fækkað um 16% frá síðasta ári og um 7% hjá þeim sem stunda nám í erlendum háskólum. Einhvers staðar er pottur brotinn í þessari jöfnu. Það er ekki eðlilegt að umsóknum um stuðning við nám í háskólum eða á framhaldsskólastigi skuli fækka. Það er ekki skynsamlegt fyrir samfélagið. Við getum sagt að það sé gott að spara en þetta segir okkur einhverja sögu sem er held ég afleiðing af miklu stærra vandamáli sem brýnt er að leysa. Mér segir svo hugur að vandamálið á Íslandi sé meðal annars það að námsmenn búa og eru fastir í foreldrahúsum. Svo stunda þeir nám með vinnu sem framfleytir þeim kannski út námstímann.

Í nýrri skýrslu sem menntamálaráðuneytið gaf út í október síðastliðnum er mjög áhugaverð samantekt um háskóla og vísindi á Íslandi. Þar segir meðal annars að í nýlegri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um æðri menntun á Norðurlöndum sé fjallað um þau rök sem liggi gjarnan að baki stefnumörkun um að fjölga nemendum sem fari utan til náms til skemmri eða lengri tíma. Benda höfundarnir einkum á fernt: Ástæður sem tengjast menntun og akademísku umhverfi, menningar- og félagslegar ástæður, hagrænar ástæður og pólitískar ástæður. Norræna ráðherranefndin mælir með því að nemendur fari utan og leiti sér náms. Ástæðurnar? Hreyfanleiki námsmanna stuðli að víðsýni og fjölbreytileika. Nemendur sem snúi heim aftur eftir nám séu með nýja þekkingu í farteskinu og benda skýrsluhöfundar á að þetta skipti sérlega miklu máli í litlum löndum því að þar sem háskólakerfin séu lítil geti hreyfanleiki dregið úr áhættunni á að þekkingin heima fyrir verði einsleit. Þetta eru aðvörunarorð fyrir okkur, virðulegur forseti. Í öðru lagi er ástæða þess að Norræna ráðherranefndin telur æskilegt að nemendur fari utan og leiti menntunar sú að góð þekking landsmanna á tungumálum og siðum annarra þjóða geti haft margs konar jákvæð, hagræn pólitísk og menningarleg áhrif. Í þriðja lagi eru rök Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir því að stúdentar fari utan þau að af hagrænum ástæðum megi líta á nemendaskipti sem fjárfestingu í hagrænum tengslum til framtíðar og sem lið í að auka samkeppnisfærni landsins. Það geti líka skipt miklu máli að laða erlenda nemendur til landsins. Fjórða ástæðan sem Norræna ráðherranefndin rekur sem rök fyrir sínu máli er að líta megi á stefnu um hreyfanleika sem hluta af utanríkisstefnu landanna, þ.e. leið til þess að mynda tengsl við önnur lönd. Nemendaskipti geti styrkt tengsl landa og aukið skilning á milli þjóða.

Í ljósi þessa er mikið áhyggjuefni, að mati þeirrar sem hér stendur, að umsóknum frá þeim sem stunda nám í erlendum háskólum hefur fækkað um 7% frá síðasta ári. Sé litið aftur í þessa ágætu skýrslu sem menntamálaráðuneytið gaf út í október kemur fram að hlutfall lánþega LÍN sem stunduðu nám í útlöndum árið 1988 var 51% — 51% þeirra sem fengu lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna árið 1988 stunduðu nám í útlöndum. Árið 2013 var hlutfall þeirra sem fengu lán hjá LÍN og stunduðu nám erlendis aðeins 10,5%. Ef við lítum á rök Norrænu ráðherranefndarinnar held ég að við séum á einhverjum villigötum. Í stað þess að hvetja fólk og búa svo um hnútana að LÍN hvetji fólk að fara utan í nám þá aukum við með stefnu lánasjóðsins, eða stefnuleysi, hættuna á einsleitni í íslensku samfélagi, einsleitni í íslenskri akademíu. Ég tek undir rök Norrænu ráðherranefndarinnar. Það er óæskileg þróun. Á sama tíma er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá hve nemendum í háskólum á Íslandi hefur fjölgað mikið, en að mínu viti eigum við að stuðla að því að fólk fari út og komi heim aftur, vilji koma heim og miðla þekkingu sinni til okkar og efla þannig íslenskt samfélag.

Virðulegur forseti. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er tillaga um að framlög til rammaáætlunar ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun muni aukast um 190 millj. kr. á næsta ári. Það er tæknilegt uppgjör gagnvart Evrópusambandinu. Nú er það svo að á sama tíma og verið er að hækka framlög til Evrópusambandsins til að við getum tekið þátt í því erlenda samstarfi sem er okkur lífsnauðsynlegt þá veldur vonbrigðum að framlög til þeirra stofnana sem fá þessa styrki hafa dregist verulega saman með styrkingu krónunnar. Hinn veiki gjaldmiðill okkar leikur þannig vísindastofnanir, háskóla, landshlutasamtök og öflug rannsóknarfyrirtæki grátt í mörgu tilliti. Þau hafa sótt um og fengið mjög ríkulega úr rammaáætlun Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og tækniþróun. Styrkveitingar til íslenskra aðila nema um 20 millj. evra á ári. Okkur munar um minna. Þessar fjárhæðir hafa rýrnað um 100 millj. ísl. kr. að verðgildi síðastliðna sex mánuði vegna styrkingar krónunnar og um nærri 300 milljónir miðað við gengi íslensku krónunnar gagnvart evru árið 2013. (Gripið fram í.) Þetta hefur vitaskuld áhrif á rekstur og starfsemi mikilvægra stofnana, eins og ég sagði, háskóla og annarra rannsóknarstofnana. Ég veit fyrir víst og sennilega við öll sem hér stöndum að þessi metnaðarfullu samstarfsverkefni við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir eiga stóran þátt í því að vel menntaðir Íslendingar sem hafa numið erlendis vilja koma heim og byggja upp þekkingarfyrirtæki um allt land.

Ég beini því nú til hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar að velta því fyrir sér hvort það sé ásættanleg staða sem við setjum fyrirtæki í vísindarannsóknum í að glíma við stöðugt tekjutap vegna styrkingar krónunnar og hvort það komi til álita að stjórnarmeirihlutinn bæti þeim þetta upp með einhverjum hætti. Þegar við erum að tala um 100 millj. ísl. kr. á hálfu ári eru það býsna mörg stöðugildi þeirra sem eru með háskólamenntun.

Virðulegur forseti. Sóknaráætlanir landshluta hefur borið nokkuð á góma í þessari umræðu um meirihlutaálit fjárlaganefndar. Sú sem hér stendur fagnar því að ákveðið var að halda áfram með þetta verklag enda tel ég að það sé gríðarlega mikil framför í vinnubrögðum og liður í að draga úr ömurlegu kjördæmapoti sem við sjáum þó í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Nú hefði ég gjarnan viljað hafa formann fjárlaganefndar hér til að eiga samtali við mig, enn og aftur. Staðreyndin er sú að fyrir tilstuðlan IPA-styrkjanna, sem sumir þingmenn kölluðu reyndar glerperlur og eldvatn, sællar minningar, meðan á IPA-vinnunni stóð, þann stutta tíma sem Ísland var í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þá fengum við þann hvata og það tækifæri að læra ný vinnubrögð. Það var mjög gaman að taka þátt í þeirri vinnu sem fram fór um allt land á þeim tíma og blés fólki byr í brjóst. Það var unnið eftir bestu aðferðum byggðaþróunar sem þekktar eru, m.a. með áherslu á að tengja saman landshluta þvert á hreppamörk. Þarna sá sú sem hér stendur, sem hefur í mörg ár unnið að byggðamálum á Íslandi og reyndar í Evrópu líka, allt í einu óskaplega miklar væntingar og gleði og hugmyndir sem fólk var tilbúið að hrinda í framkvæmd og hugsaði langt út fyrir boxið sem það hafði þekkt áður. Þá voru í farvatninu gríðarlega metnaðarfull verkefni sem lutu að margháttuðum aðgerðum til að styrkja byggðir á fjölbreyttan hátt um allt land.

Þrátt fyrir algerlega ótímabær slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þar með eyðileggingu á öllum þeim góðu verkefnum sem farið var að undirbúa má segja að jákvæði punkturinn sé sá að vinnubrögð í atvinnu- og byggðaþróun hafi tekið miklum framförum og sóknaráætlanir voru festar í sessi.

Það vekur athygli mína að sjá í nefndaráliti og tillögum meiri hluta fjárlaganefndar svo mikla fjármuni sem ætlað er að styrkja byggð í Norðvesturkjördæmi. Nú vil ég mjög gjarnan leggja því góða kjördæmi lið. Ég get alveg fullvissað ykkur um að þann tíma sem Norðvesturkjördæmi var að vinna að íbúðaverkefnum, virðulegur forseti, urðu alveg ótrúlega margar góðar tillögur og hugmyndir til.

Úr því við erum að tala um aðildarviðræður að Evrópusambandinu þá ítreka ég að stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni að klára aðildarviðræðurnar og greiða atkvæði um niðurstöður þeirra. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að nú er í það minnsta sjálfsögð krafa okkar að fá að kjósa um það hvort eigi að ljúka viðræðunum. Þegar sú ákvörðun liggur ekki fyrir verður meiri hluta Alþingis legið á hálsi fyrir að svíkja ekki bara kjósendur sína heldur alla kjósendur í landinu. Ég treysti því að hann hafi manndóm í sér fyrir lok þessa kjörtímabils að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og taka hugsanlega í framhaldi af því upp þann ágæta gjaldmiðil sem heitir evra. Það er gaman að segja frá því (Gripið fram í.) að rétt áðan var ég á leiðinni í aðventuboð Samfylkingarinnar og haldiði ekki að ég hafi rekist á þennan 2 evru pening fyrir utan samkomuna. Ég held að hann hafi engan veginn tengst neinu samfylkingarfólki. Ég held að þetta séu hins vegar skilaboð að handan um að eitthvað sé að fara að gerast í þessum efnum hjá okkur í Samfylkingunni. Þessi 2 evru peningur mun fylgja mér fram að næstu kosningum og hugsanlega lengur.

Virðulegur forseti. Nú ætla ég að fara að stytta mál mitt. Að lokum vil ég segja eitt. Ég fagna því að meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að setja fjármuni í að undirbúa hönnun og nýbyggingu undir starfsemi Alþingis enda mikið hagræði að því og sparnaður til lengri tíma litið. En sú tillaga sem hér liggur fyrir, um að byggt verði á gamalli teikningu Guðjóns Samúelssonar, teikningu að heimavist fyrir nemendur við Háskóla Íslands sem þá var á efri hæð hússins, er eiginlega svo galin að það er varla til orð yfir það. Ég leyfi mér að taka undir orð formanns Arkitektafélags Íslands sem segir á Facebook-síðu sinni:

„Líklega dytti engum bílframleiðanda í hug í dag að framleiða bíl eftir hönnun frá byrjun síðustu aldar. Kröfur til öryggis, útlits, tækni, sjálfbærni og ekki síst ánægju og vellíðunar ökumanna og farþega eru allt aðrar í dag en þá.“

Í þessu sambandi vil ég geta þess að fyrsti bíllinn sem kom til Íslands árið 1904 var af gerðinni Cudell og samkvæmt heimildum var bíllinn slæmt eintak og gerði ekki mikla lukku. Mér segir svo hugur að það gætu orðið örlög hinnar nýju byggingar gangi þær hugmyndir forsætisráðherra eftir að byggja nýtt skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi eftir gömlu teikningunum, það verði slæmt eintak og muni ekki gera mikla lukku. (Forseti hringir.) Kannski ætti forsætisráðherra að leitast við að fá hundrað ára gamlan bíl til afnota í hálft ár eða svo og upplýsa þjóðina í framhaldinu hvort aldagömul hönnun henti honum yfirleitt í nútímasamfélagi.