145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:33]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið og þarf að leiðrétta nokkrar rangfærslur sem komu fram í svarinu fyrir framhaldið.

Megnið af íslenskum útflutningi fer ekki til Evrópusambandsins og er ekki í evrum. Það er í dollurum. Það er töluverð blanda. Menn hafa náttúrlega verið að skipa upp í Hollandi og Amsterdam og þá hefur það verið talið sem útflutningur í evrum, þetta er einhver galli hjá Hagstofunni og hefur verið leiðréttur held ég núna.

En það sem ég vildi spyrja um í ljósi þess hvað vandamál eru mikil í myntbandalaginu og í ljósi þess að þeir sem hafa gengið í þetta myntbandalag til að finna stöðugleika hafa fundið stöðugleikann kannski í því að þeir geta ekki brugðist við áföllum, þeir lenda í að — það er eitthvað að klukkunni, hv. forseti — atvinnuleysi kemur í staðinn fyrir gengissveiflur. (Forseti hringir.) Sveiflan er tekin út í gegnum vinnumarkaðinn í auknu atvinnuleysi. Er það ásættanlegt? Að hér væri 10% atvinnuleysi og 30% atvinnuleysi meðal unga fólksins? Er það framtíðarsýnin?