145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja út í þær breytingartillögur sem snúa að því að rétta við rekstrarhalla eða koma í veg fyrir rekstrarhalla. Það eru að minnsta kosti fjórar svona tillögur í breytingartillögunum. Við þekkjum það vel úr fjárlaganefndinni að við höfum verið að tala um vandamálin sem eru við halaklippingar eða þegar skuldahalar eru teknir af, þá er þar ekki jafnræði, jafnvel gagnvart öðrum stofnunum. Við vitum og höfum líka rætt það í nefndinni, eins og hv. þingmaður þekkir, að stofnunum sem standa sig afar vel, eins og Háskólinn á Akureyri, er ekki endilega umbunað fyrir það.

Ég skil ekki af hverju verið er að koma hér inn í breytingartillögur einhverjum tillögum um að rétta af rekstrarhalla í að minnsta kosti fjórum liðum. Finnst hv. þingmanni þetta vera gott verklag, að það sé ákveðið með þessum hætti? Það fari þá ekki bara í gegnum ráðuneytin og þar sem jafnræðis er gætt.