145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún sagði að sumar stofnanir nýttu ekki allar þær fjárheimildir sem þær hefðu í fjárlögum — sem er rétt og sem betur fer — og í sömu setningu að kannski ætti að velta því fyrir sér hvort þær þyrftu þá fjármuni. Hún sagði einnig að með því væri hún ekki að leggja til að stofnunum yrði refsað fyrir að standa sína plikt gagnvart fjárlögum.

Ég hváði svolítið við þetta, vegna þess að menn þekkja þess dæmi, reyndar frekar mörg, að það er notað sem réttlæting fyrir lægri fjárveitingu, eða í það minnsta réttlætingu fyrir að fjárveitingar séu ekki auknar þegar talin er þörf á því, að stofnunin standi sína plikt. Ég nefni sem dæmi Háskóla Íslands sem stendur við sínar skyldur. Sú staðreynd er notuð sem röksemd gegn því ýmist að auka fjármagn eða jafnvel fyrir því að draga úr fjármagni. Ég velti fyrir mér hvernig við leysum þennan hnút sem virðist koma fram í þessari umræðu.