145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er guðvelkomið að halda áfram með þetta svar. Þetta er eitthvað, eins og hv. þingmaður veit sjálfsagt, sem kemur upp þegar fjárlög eru til umræðu, sér í lagi í nefndum, þ.e. hver ber ábyrgð á því að farið sé eftir fjárlögum. Við lendum alltaf í sömu umræðunni um fjáraukalög og þar vilja menn fara að leiðrétta eitthvað sem var ákveðið fyrr á árinu, og ég hef nú alveg gengið í þá gildru sjálfur ef út í það er farið.

En mér finnst að formlegt kerfi þurfi að vera til staðar til að það sé hvati fyrir aðila innan stjórnsýslunnar til að standast fjárlög án þess að eiga hættu á því að vera refsað fyrir það eða mæta skilningsleysi við aukinni fjárþörf. Þetta er eitthvað sem ég held að mundi hjálpa okkur mikið til við að fá stofnanir til þess að standa við sitt gagnvart fjárlögum, ef þetta væri skýrt. Þess vegna óska ég eftir hugmyndum frá hv. þingmanni, eða hverjum sem er öðrum, um það hvernig við getum gert það að veruleika.