145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar við 2. umr. um fjárlög ársins 2016 segja að ég tel það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir vera um ansi margt ekki gott. Í stuttu máli má segja að það sé vegna þess að ég tel frumvarpið vera til þess fallið að auka ójöfnuð í samfélaginu en ekki draga úr honum. Ekki er verið að styrkja innviði samfélagsins eins og þarf að gera og ekki er verið að styrkja velferðarsamfélagið heldur veikja það vegna þess að því er ekki ætlað nægilegt fjármagn. Ég mun fara nánar í gegnum þetta síðar í ræðu minni og mun vissulega koma ansi víða við en það er líka ansi margt undir.

Við ræðum hér að sjálfsögðu þau mál sem snúa að útgjöldum ríkisins en mér finnst ekki hægt að fara í þá umræðu án þess að koma aðeins inn á það hvernig teknanna er aflað. Líkt og svo ágætlega er dregið fram í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar hafa tekjustofnar ríkissjóðs markvisst verið veiktir í tíð núverandi ríkisstjórnar um fjárhæð sem nemur samanlagt að minnsta kosti 35–40 milljörðum króna. Fyrir þá peninga er hægt að gera ansi margt. Öll umræða um skattamál og útgjöld ríkisins er að sjálfsögðu hápólitísk og snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja og hvernig við viljum reka það. Um þessi grundvallaratriði er tekist á í umræðu um fjárlög.

Sú sem hér stendur gerir sér grein fyrir því að það kostar að reka velferðarsamfélag þar sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar búa við mannsæmandi kjör og heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða. Það kostar að gera við vegi og byggja nýja, það kostar að byggja upp ferðamannastaði. En sú sem hér stendur fer heldur ekkert leynt með það að vilja nota skattkerfið til þess að afla tekna til samfélagslegra verkefna og telur jafnframt að það skipti máli hvernig það sé gert. Það er að þeir sem eru í bestum efnum, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, leggi hlutfallslega meira til samfélagsins en þeir sem efnaminni eru. Þess vegna finnst mér það skipta miklu máli að um leið og minni hluti hv. fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga um aukin útgjöld ríkisins sé jafnframt lagt til hvernig eigi að afla fjárins til þess að fjármagna þær. Þannig vinnubrögð eru að mínu mati til fyrirmyndar og sýna ábyrgð þegar kemur að ríkisfjármálunum.

Dæmi um þá tekjuöflun sem minni hlutinn leggur til eru meðal annars veiðigjöld, arður af bönkum og orkuskattur á stóriðju. Mig langar aðeins að fjalla um veiðigjöldin sérstaklega, en í nefndaráliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að með breytingunum á veiðigjaldinu í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ríkissjóður nú þegar orðið af milljörðum króna og allt útlit fyrir að þær tekjur fari áfram lækkandi miðað við nýjustu tölur frá Fiskistofu.“

Eins og flestum er líklega kunnugt hafa veiðigjöld á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstjórnar verið lækkuð og það á sama tíma og stórútgerðin er að skila gríðarlega miklum hagnaði og hefur greitt sér gríðarlega mikinn arð. (VigH: 2012.) Við það að lækka veiðigjöldin verður ríkissjóður af talsvert miklum tekjum sem ég tel að við ættum sem samfélag að nýta í það sem ég nefndi hér áðan, það sem kostar peninga, þ.e. velferðarsamfélagið og innviðina.

Það er annað sem mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni en það er að einnig er verið að afnema umhverfis- og auðlindaskatta. Það segir í nefndaráliti 2. minni hluta hv. fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Það er umhugsunarvert á tímum þegar þjóðir heims eru saman komnar á einni mikilvægustu ráðstefnu um loftslagsmál og samhugur ríkir meðal þeirra um að draga úr losun jarðefnaeldsneytis, þá sé áhersla íslensku ríkisstjórnarinnar að leggja af umhverfis- og auðlindaskatta sem er eitt allra öflugasta tækið sem ríkisstjórnir hafa í baráttunni fyrir framtíðarkynslóðir þegar kemur að verndun umhverfis okkar.“

Hér verð ég að taka undir með 2. minni hluta. Ég skil þetta eiginlega ekki. Ég hefði haldið að einmitt þessa dagana meðan fulltrúar okkar á Alþingi sitja á loftslagsráðstefnu í París ætti okkur að vera ljóst hversu mikilvægt það er að leggja skatta á mengandi starfsemi. Það hlýtur að vera það sem við viljum gera inn í framtíðina, annars vegar að draga úr mengun og hins vegar að leggja aukna skatta á mengandi starfsemi. Það hlýtur að fara saman. Það vekur einnig sérstaka athygli mína að á sama tíma er verið að veikja tekjur í ríkissjóð sem hafa verið markaðar í loftslagsmál. Þær eru þess í stað látnar renna beint í hina stóru hít ríkissjóðs án þess að eyrnamerkja þær sérstaklega loftslagsmálunum. Á tímum þar sem við erum að kljást við umhverfisógnir sem stafa af hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum hljótum við að þurfa að leggja sérstaka áherslu á þetta. Þess vegna finnst mér mjög miður að sjá þess ekki stað í stefnu ríkisstjórnarinnar.

Viðkvæði hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans á Alþingi hefur í þessari umræðu mjög oft verið að ekki sé hægt að fara í alls konar innviðastyrkingu eða uppbyggingu eða frekari kjarabætur til lífeyrisþega því það skorti fjármagn. En mér finnst duga ofboðslega lítið að halda því fram þegar ég sé hvergi merki um vilja til að afla fjárins. Þetta er því að mínu mati pólitískt val ríkisstjórnarinnar. Þessi forgangsröðun og þetta pólitíska val kom hvað best fram í atkvæðagreiðslu í gær þegar greidd voru atkvæði um tillögu um afturvirkar bætur til lífeyrisþega sem var felld af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.

Ég byrjaði þessa ræðu kannski svolítið á neikvæðu nótunum en mig langar líka að tala um eitthvað sem mér finnst jákvætt. Það verður þó að viðurkennast að ég mun verða frekar á neikvæðu nótunum, ég verð frekar gagnrýnin í ræðu minni. Mig langar hins vegar að fagna þeirri ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn tók í haust um að setja aukið fjármagn fyrir árið 2016 til þess að bregðast við þeirri stöðu sem er komin upp í málefnum flóttamanna og á ýmsum stöðum er verið að auka aðeins við fé til þróunarmála og hjálparstarfsemi. Mér finnst það vera gott og jákvætt og mér finnst mikilvægt að nefna það í þessari umræðu. En ég er engu að síður dálítið hugsi yfir því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar þar sem fjallað er um þróunarmál eða þróunaraðstoð eins og stendur þar. Við tölum nú yfirleitt um þróunarsamvinnu, en það er kannski aukaatriði. Þar er því í fyrsta lagi haldið fram að framlög til þróunarsamvinnu hafi hækkað um 690 millj. kr. eða um 50% frá árinu 2011. Ég held að það sé svo sem rétt að framlagið hefur hækkað í krónum talið. Það hefur hins vegar ekki hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu, sem hefur einmitt verið að aukast, og er ekki nema 0,21, 0,22 eða 0,23%, ég man það ekki nákvæmlega. Það stendur í þeirri tölu núna en ætti að vera mun hærra og ef við miðum við það hvar við röðumst á listann yfir ríkustu þjóðir heims ætti hlutfallið að vera 0,7% af landsframleiðslu sem við erum langt frá því að uppfylla. Þetta er eitt sem ég rak augun í sem mér finnst dálítið undarlegt, en svo er annað sem ég ekki síður hugsi yfir. Hér er bent á í sambandi við DAC/OECD-viðmiðin, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt þar sem stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokkast sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin.“

Hæstv. forseti. Nú er það vissulega svo að samkvæmt viðmiðum DAC/OECD má telja útgjöld vegna hælisleitenda með í þróunaraðstoð. Það á alls ekki að gera og það er mjög misjafnt hvernig þjóðir heimsins gera þetta. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að blanda þessu tvennu saman heldur eigi að halda því aðskildu. Ástandið í heiminum er einfaldlega þannig að um leið og það er afar mikilvægt að huga vel að móttöku flóttamanna, og eins og ég sagði áðan er ég mjög ánægð með að hæstv. ríkisstjórn sé að setja aukna fjármuni í það, er engu að síður mjög mikilvægt að hlúa sérstaklega að þróunarverkefnum sem eru til þess fallin að styrkja innviði fátækra landa. Að grafa brunna, byggja kamra, sinna mæðravernd svo dæmi séu tekin um verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur sinnt. Þó svo að nú um stundir sé gríðarlega stór hluti flóttamanna að flýja stríðsátök eru einnig margir sem flýja fátækt og skort á framtíð á sínum heimaslóðum, fólk sem ég hugsa að langi ekkert að yfirgefa heimahagana en sér bara enga leið til að eiga sér framtíð þar og leitar þess vegna til ríkari landa.

Við urðum rækilega vör við þetta í fréttum í dag af albönsku fjölskyldunni sem vísað var í burtu í nótt í skjóli nætur, fjölskyldu sem kom hingað örugglega meðal annars í þeim tilgangi að leita sér betri lífskjara, kom hingað með veikt barn. Það voru meira að segja tvær fjölskyldur sem komu hingað með veik börn. En þeim var synjað um dvalarleyfi. Það er alveg greinilegt á þeim fjölda tölvupósta sem þingmönnum hefur verið að berast í dag að fólki misbýður algerlega þessi framkoma íslenskra stjórnvalda. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las fréttir af þessari brottvísun eða synjun um dvalarleyfi sem og tölvupósta frá Íslendingum umræða frá því fyrir nokkrum missirum þegar Ásdís Halla Bragadóttir sem var þá stjórnarformaður fyrirtækisins Sinnum lét þau ummæli falla að Albanía væri ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri og talaði meðal annars um hefðbundinn pakka, gullpakka og silfurpakka. Það hefði verið áhugavert að vita hvað þessar albönsku fjölskyldur hefðu getað sagt okkur um þeirra sýn á heilbrigðiskerfi heimalandsins. Þetta vakti upp hjá mér óþægileg en að ég tel reyndar mjög svo þörf hugrenningatengsl við íslenska heilbrigðiskerfið, fjármögnun þess, valfrelsi og einkarekstur. Þetta er eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur í tengslum við umræðu um fjárlögin þar sem heilbrigðiskerfið er svo sannarlega undir.

Þetta var eiginlega útúrdúr frá því sem ég var að tala um, að ég telji að við eigum ekki að telja útgjöld vegna hælisleitenda með framlagi okkar til þróunarsamvinnu því ég held að við þurfum að sinna þessu hvoru tveggja. Það þarf fjármagn í hvort tveggja. Þó svo að við getum ekki bjargað öllum getum við svo sannarlega hjálpað einhverjum og það skiptir þá einstaklinga sem fá aðstoð öllu máli. Við megum ekki bara hugsa um þá sem tölur á blaði. Bak við hverja einustu tölu er lifandi manneskja sem á sér líf og drauma og von um betri framtíð.

Ég fagna því þess vegna að minni hlutinn leggi til í breytingartillögum sínum að enn meiri peningar verði settir í framlög til útlendingamála, þ.e. til móttöku flóttamanna og aukins stuðnings við innflytjendur. Það er ágætt eins og kemur fram í tillögum meiri hlutans að styrkja eigi Útlendingastofnun og ég held að það sé mikilvægt að styrkja þá stofnun til þess að hún geti unnið betur og unnið með manneskjulegri hætti. Talað er um að leggja pening í Útlendingastofnun til þess að stytta biðtíma en þá er jafnframt afar mikilvægt að það verði ekki gert til þess að hægt verði að ýta fólki hraðar úr landi. Það má alls ekki verða heldur eiga peningarnir að fara í að bæta málsmeðferðina og flýta henni þannig að fólk geti fengið góða og sanngjarna málsmeðferð á stuttum tíma, þetta verði ekki til þess að hægt verði að ýta fólki hraðar út eins og mér hefur því miður sýnst vera tilhneigingin allt of oft þegar kemur að þessari stofnun.

Það er ýmislegt fleira sem mig langar að nýta tíma minn til að ræða um í tengslum við fjárlögin fyrir komandi ár. Ég ætla að snúa mér að áherslum og breytingartillögum minni hlutans við fjárlögin. Þær breytingartillögur sýna glögglega að hægt er að hafa aðrar áherslur við stjórn landsins. Það er hægt að nýta bætta afkomu ríkissjóðs með öðrum og að mínu mati sanngjarnari hætti því tillögur minni hlutans eru til þess fallnar að vinna gegn ójöfnuði og tryggja að hagsældin skiptist með réttlátari hætti. Í stuttu máli má segja að lögð sé áhersla á bætt kjör þeirra sem búa við lægstu tekjurnar eða hafa lægstu upphæðirnar sér til framfærslu, á heilbrigðismál, á menntamál og innviði samfélagsins. Stærstur hluti þeirra fjármuna sem minni hlutinn vill koma með inn í fjárlagafrumvarpið fari til þess að bæta kjör lífeyrisþega. Bætur lífeyrisþega eru allt of lágar og duga ekki til framfærslu. Þessu áttar almenningur á Íslandi sig alveg á. Öryrkjabandalagið lét gera Gallup-könnun, alvörukönnun sem gerð var með vísindalega kórréttum hætti, og þar kom fram að 90% svarenda töldu sig ekki geta lifað á þeim upphæðum sem fjöldi öryrkja hefur til ráðstöfunar í hverjum mánuði. Þar kom einnig fram að 95% töldu að lífeyrisþegar ættu að fá sambærilegar hækkanir og hækkun lægstu launa var við síðustu kjarasamninga. Sú 3% hækkun sem lífeyrisþegar hafa fengið á árinu 2015 er langt undir meðallaunahækkunum, hvað þá hækkunum lægstu launa, hvort sem er í almennum kjarasamningum, gerðardómum eða kjaradómum.

Ég tel það ekkert nema sanngirni að lífeyrisþegar fái hækkun afturvirkt eins og aðrir hópar fyrir árið 2015 og greiddi atkvæði á þann hátt í gær. Það hefur heyrst í umræðunni og það er sjónarmið sem ég hef nokkrar áhyggjur af að örorkubætur eigi að vera lægri en lægstu laun, eins og það sé bara eitthvert prinsipp til að fylgja. Þessu er ég algerlega ósammála. Við verðum að líta til þess að fólk er oft mjög lengi á örorku, því miður. Við erum að tala um ævitekjur fólks, tekjur ævina út. Sem betur fer eru ekki mjög margir á lægstu töxtunum og sem betur fer eftir því sem fólk eldist og það fær framgang í starfi getur það unnið sig upp í launastiganum. Að því sögðu tel ég auðvitað að hækka eigi lægstu laun enn meira og enginn sé ofhaldinn af þeim launum. En það er þessi hugmynd, að telja að örorkubæturnar eigi að vera lægri en lægstu launin sem ég er svo hrædd við. Ég vil ekki búa í samfélagi sem ætlar að taka meðvitaða ákvörðun um að þeir sem búa við fötlun eða eru með langvinna sjúkdóma og geta þess vegna ekki stundað atvinnu eigi eðli málsins samkvæmt að vera þeir fátækustu í samfélaginu. Það er ekki velferðarsamfélag að mínu mati. Þess vegna þarf að bæta kjör öryrkja. Það gildir líka um ellilífeyrisþega. Því miður er allt of stór hópur sem hefur stritað alla ævina, hefur skilað sínu til samfélagsins í sköttum og öðrum gjöldum sem býr við allt of bág kjör. Þessu þarf að breyta og því er hægt að breyta ef við ákveðum að forgangsraða peningunum þannig.

Hin stóra upphæðin í breytingartillögum minni hlutans fer til Landspítalans þar sem eru settir inn auknir fjármunir vegna viðhalds, vegna kjarasamninga og vegna magnaukningar sem orðið hefur þar sem það eru einfaldlega fleiri sem þurfa að nýta sér spítalann, en ekki hefur verið tekið tillit til þess í þeim fjármunum sem ráðstafað hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég held að allir átti sig á því að ef við ætlum að hafa heilbrigðiskerfi sem nálgast það að vera á heimsvísu þarf að setja miklu meiri peninga í Landspítalann. Stjórnarmeirihlutinn segist forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins en svo mikill vandi blasir við að hann verður ekki leystur nema með breyttum áherslum. Ég fagna því þess vegna sérstaklega að minni hluti fjárlaganefndar hafi annars vegar fundið leið til að afla fjár og hins vegar til að dreifa því aftur til spítalans.

Í tillögum minni hlutans er líka gert ráð fyrir að barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki Fæðingarorlofssjóðs upp í 500 þús. kr. og að skerðingarviðmið barnabóta verði hækkuð og þar með barnabætur. Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að koma til móts við barnafjölskyldur í landinu og bæta kjör þeirra. Þá vill minni hlutinn einnig setja aukna fjármuni í menntakerfið, í fyrsta lagi í framhaldsskólana en það segir í nefndaráliti 2. minni hluta að fjölbreytni hafi verið einn af helstu kostunum við íslenska framhaldsskólakerfið en núverandi ríkisstjórn sé smám saman að breyta menntakerfinu í gegnum fjárlög án þess að um það fari fram víðtæk umræða í samfélaginu og á Alþingi. Verið sé að beina þeim sem eru 25 ára og eldri inn á dýrari leiðir til að afla sér menntunar í gegnum einkaskóla, þ.e. með skorti á fjármagni sé í raun verið að setja aðgangstakmarkanir á þá sem eru 25 ára og eldri í framhaldsskólana. Ég fagna því þess vegna að stjórnarandstaðan leggi til aukna fjármuni. Það að fólk hafi getað snúið aftur í nám á framhaldsskólastigi á fullorðinsaldri hefur í mínum huga verið einn af stóru kostunum við íslenskt samfélag, að það fari ekki allir bara eina leið, þ.e. ljúki grunnskóla, fari í framhaldsskóla og síðan í háskóla. Hingað til hefur fólk sem einhverra hluta vegna hefur flosnað upp úr námi eða ákveðið að taka sér hlé frá námi, hefur eignast börn snemma eða af einhverjum ástæðum farið út á vinnumarkaðinn, getað farið aftur í skóla. Það er ekkert sjálfgefið að fólk geti það í öðrum löndum. Það er alls ekki sjálfgefið lengur á Íslandi, en ég tel að þetta hafi verið mikill kostur í samfélagi okkar. Í öðru lagi þarf aukna peninga í háskólana og það sést kannski hvað best á því að samkvæmt nýlegri skýrslu OECD eru framlög á hvern háskólanema á Íslandi mjög lág og langt frá því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Þegar kemur að innviðum samfélagsins er nærtækast að nefna það sem fleiri hafa að sjálfsögðu gert hér á undan mér en það er bara vegna þess að það eru slík risamál. Það eru annars vegar samgöngumálin. Það vantar algerlega peninga í viðhald á vegakerfinu og í nýjar vegaframkvæmdir. Ég tek undir með 2. minni hluta hv. fjárlaganefndar sem segir í nefndaráliti að ríkisstjórnina skorti algerlega framtíðarsýn í samgöngumálum. Það að engin samgönguáætlun liggi fyrir segir auðvitað ansi margt. Hins vegar er það Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Nú erum við nýbúin að setja peninga þar inn eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fjáraukalög. Það þarf að gera ráð fyrir alvöruupphæðum, vil ég leyfa mér að segja, í fjárlagafrumvarpinu þegar kemur að þessum tveimur risamálum.

Ég sé að tíminn líður frekar hratt. Það er eitt mál sem mig langar að koma inn á áður en tími minn er búinn. Það eru málefni fatlaðs fólks sem eru mér mjög hugleikin. Fjallað er um þau í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar sem og minni hlutans. Eins og allir líklega vita voru málefni fatlaðs fólks flutt frá ríki til sveitarfélaga í byrjun árs 2011. Á undanförnum árum hefur orðið ljóst að þeir fjármunir sem fylgdu flutningnum duga ekki. Það hefur orðið krafa um aukna þjónustu og það hefur hreinlega sýnt sig að meðan verkefnið var hjá ríkinu var ekki verið að veita næga þjónustu. Þegar það kom síðan inn í nærumhverfið kom aukin þörf fyrir þjónustu í ljós. Auk þess hafa kröfurnar verið að breytast. Bæði er fatlað fólk sjálft farið að gera meiri kröfur og skilningur samfélagsins á þörfum fatlaðs fólks hefur líka verið að aukast. Má þar nefna samning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur skrifað undir, þótt við höfum ekki enn þá fullgilt hann. Við erum held ég smátt og smátt sem samfélag að tileinka okkur þá hugmyndafræði sem þar kemur fram. Þess vegna er alveg ljóst að meiri peninga vantar í þetta verkefni. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar að á fundum nefndarinnar hafi komið fram að nær öll sveitarfélögin reka þennan málaflokk með tapi. Það er jafnvel talað um það í nefndaráliti 2. minni hluta að staðan sýni að um 1,2 milljarða vanti í málaflokkinn. Það kom fram í máli hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar Vigdísar Hauksdóttur að viðræður séu í gangi milli ríkis og sveitarfélaga vegna yfirfærslu málaflokksins. Ég vona innilega að það takist að koma með einhverja breytingu og ná einhverri lendingu í þessu máli um að ríkið komi með (Forseti hringir.) myndarlegri hætti inn í þetta áður en við afgreiðum fjárlög því málaflokkurinn á það svo sannarlega skilið.