145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst mjög athyglisvert sem kemur fram í áliti meiri hlutans og hv. þingmaður vitnar í sem snýr að þróunaraðstoð sem hlutfall af þjóðartekjum. Hér er verið að segja að við séum að reikna þetta vitlaust af því að við séum með aðstoð við flóttamenn inni í þessum tölum. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé skýrt, en hv. þingmaður nefndi að þetta væri svolítið misjafnt eftir löndum. Ég þekki það ekki. En ég get alveg skilið, ef það er rétt sem hér er sagt þá er það auðvitað ekki gott ef við erum að tala um einhverja allt aðra tölu en fólk gerir síðan í öðrum löndum. Ætti að vera þá bara tvær, menn ættu að taka þróunarhjálpina með flóttamannaaðstoðinni og svo án, til að við höfum þá eitthvað til að bera okkur saman við. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður skilur mig.