145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það má eiginlega segja að það séu tvær ólíkar tegundir af einkarekstri í gangi í heilbrigðiskerfinu. Annars vegar eru ýmsar sjálfseignarstofnanir sem eru reknar í einkarekstri en tilgangur þeirra er ekki að skila neinum hagnaði. Ég hef í raun ekkert út á það rekstrarform að setja. Það sem ég hef áhyggjur af er einkarekstur þar sem einhvers konar ábatasjónarmið er leiðarstefið, vegna þess að mér finnst það pólitík sem ég vil ekki taka þátt í, þ.e. að á einhvern hátt sé verið að taka gróða af sjúklingum. Það er í rauninni meginástæða þess að ég tel að ríkið eigi að vera í rekstri (Forseti hringir.) þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Svo held ég reyndar líka að ríkið geti gert það vegna þess að allur ábatinn fer inn í samfélagið aftur, þá ráði önnur sjónarmið þar.