145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skilmerkilega ræðu. Mig langar til að beina sjónum mínum að smærri liðum fjárlagafrumvarpsins og þá sérstaklega til að byrja með breytingartillögu meiri hlutans varðandi það að selja húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg 162 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur kannski meiri innsýn í skjalasöfn Íslands en gengur og gerist (Gripið fram í: Ha?) — ég segi svona — og spyr hvort ráðlegt sé kannski að gera svo án þess að hafa nokkuð góða framtíðarsýn varðandi það hvað eigi að gera. Ég sé ekki að það komi fram í greinargerð meiri hlutans hvað eigi að gera við skjölin. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefði einhverja vitneskju um það.