145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mér liggur mikið á hjarta. Mér liggur mikið á hjarta sem jafnaðarmanni og sem þingmanni sem situr í velferðarnefnd Alþingis. Í ræðu minni ætla ég að fjalla almennt um stefnuplagg ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Ég ætla að ræða um samstarf minni hlutans í þinginu og tillögur okkar. Ég ætla að ræða lífeyrismál, þ.e. greiðslur úr almannatryggingum til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Ég ætla að ræða heilbrigðismál, þar ætla ég að ræða Landspítalann og heilsugæsluna. Ég ætla að ræða um málefni barnafjölskyldna og mun þar ræða fæðingarorlofið og barnabætur og síðast en ekki síst ætla ég að ræða um málefni hælisleitenda og flóttafólks.

Þegar hæstv. forsætisráðherra talaði um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar sinnar sagði hann að þetta væru velferðarfjárlög. Hann átti erfitt með að fara yfir og rökstyðja hvað nákvæmlega væri sérstaklega tengt velferð í þessum fjárlögum umfram önnur fjárlagaár og þegar litið er á fjárlagafrumvarpið 2014 og það borið saman við árið 2015 þá eru útgjöld velferðarráðuneytisins nákvæmlega sama hlutfall af ríkisútgjöldum þessi tvö ár. Velferðaráherslurnar sjást því ekki í auknum útgjöldum til velferðarmála umfram aðra málaflokka ríkisins. Það sem hefði mátt túlka sem forgangsröðun í þágu velferðar var rétt eina ferðina óskhyggja hæstv. forsætisráðherra. Við erum orðin vön því í þessum sal og orðin nokkuð glúrin við að lesa út úr yfirlýsingum og átta okkur á í hverju blekkingaleikurinn felst. Það er hin róttæka rökhyggja sem við búum við á Alþingi þetta kjörtímabilið.

Ég hef áður komið inn á að munurinn á hægri og vinstri í stjórnmálum er að vinstri flokkarnir vilja hafa sterkt ríkisvald, umfangsmikið ríkisvald, ekki til þess að skattpína fólk með óhóflegum hætti heldur til að tryggja fjármögnun á almannaþjónustunni sem nýtist okkur öllum óháð búsetu og efnahag og til að tryggja öflug tekjujöfnunarkerfi. Á ég þar við almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur, fæðingarorlof og fleira. Hægri flokkarnir hafa meiri áhuga á að lækka skatta á þá sem mest hafa. Það er forgangsverkefnið, ekki að tryggja almenna velferð og jöfnuð. Þess sjást glögglega merki hér. Það er búið að lækka veiðigjöldin þannig að þau eru að verða minni háttar tekjupóstur hjá ríkinu. Það var hætt við að framlengja auðlegðarskatt sem skilaði umtalsverðum fjármunum og hefði verið einboðið að halda áfram með á meðan við erum að ná okkur út úr hruninu og bæta upp þá málaflokka sem tóku á sig miklar skerðingar eftir hrun. Þá hefur verið unnið markvisst að því að lækka tekjuskatta á tekjuhærri hópana í þessu samfélagi.

Við í minni hlutanum erum algerlega ósammála þessari forgangsröðun. Við í Samfylkingunni hörmum mjög að verið sé að hverfa frá þriggja þrepa skattkerfi. Við hefðum heldur kosið að sjá aukaþrep fyrir hæstu tekjurnar. Hér er verið að fletja út skattkerfið í einhvers konar trúboði um að það sé svo mikil einföldun. Það kann vel að vera að það sé einhver einföldun en það felur í sér aukinn ójöfnuð. Það var einmitt sá ójöfnuður sem jókst svo hröðum skrefum í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir hrun. Það var sú óheillaþróun sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að vinda ofan af þannig að nú mælumst við eitt þeirra landa þar sem hvað mestur jöfnuður ríkir þótt sú þróun sé á undanhaldi. Við munum fljótlega fara að sjá tölur um annað.

Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim minni hluta sem hefur í annað skipti sameinast um breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Við erum með þrjú mismunandi nefndarálit frá minni hlutanum þar sem hv. þm. Oddný Harðardóttir í Samfylkingu, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í Vinstri grænum og Brynhildur Pétursdóttir í Bjartri framtíð, fulltrúar minni hlutans í fjárlaganefnd, bera fram mismunandi áherslur flokkanna en áherslurnar eru ekki ólíkari en svo, þó að hver þessara flokka hafi sín sérkenni, að við getum sameinast um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Píratar eiga ekki fastan fulltrúa í fjárlaganefnd en áheyrnarfulltrúi þeirra, hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, er meðflytjandi að þessum breytingartillögum. Það er mikilvægt að sjá að það er til skýr valkostur við þá hægri stjórn sem við búum við nú. Er það von mín og trú að við munum halda áfram þessu samstarfi á næsta ári og síðan í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Hér hafa verið mikil læti síðustu daga út af greiðslum almannatrygginga, ellilífeyris og örorkulífeyris eftir að meiri hlutinn í þinginu hafnaði breytingartillögum minni hlutans. Nú var það svo að fyrsta þingmálið okkar í Samfylkingunni í haust var að leggja til hækkun á almannatryggingum til samræmis við kjarasamninga með afturvirkum hætti til 1. maí síðastliðinn. Þetta hefur verið krafa bæði Landsambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins. Þetta er réttmæt krafa sem felur í sér þau sanngirnissjónarmið að þeir sem reiða sig á greiðslur frá almannatryggingum njóti sömu kjaraleiðréttinga og launafólk og við sem heyrum undir kjararáð. Þingmennirnir í meiri hlutanum höfnuðu þessu, hafa síðan verið í mikilli vörn og látið líta út fyrir að við séum í einhverjum pólitískum leik. Það vita allir sem einhverja yfirsýn hafa yfir almannatryggingamál að við gerðum þetta eftir kjarasamningana 2011 enda er þetta réttlætismál. Það að gera þetta ekki þýðir að tekin er pólitísk ákvörðun um að auka ójöfnuð og það er í andstöðu við samfélagssýn jafnaðarmanna. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér. Í dag var fundur í fjárlaganefnd með fulltrúum frá eldri borgurum og öryrkjum og ég held að stjórnarliðar séu farnir að gera sér ágætlega grein fyrir þeim þrýstingi sem er í þessu máli enda kom fram á bloggfærslu í dag að það virðast vera send út samræmd svör til þeirra sem kvarta undan þessu ranglæti. Það virðist því vera einhver titringur í stjórnarliðum sem hafa fyrir því að búa til slíkt samræmt svar. Þar er ekki verið að rifja upp kosningaloforðin sem gefin voru í síðustu kosningum og ég ætla aðeins að fara yfir á eftir heldur er meira verið að kasta rýrð á minni hlutann. Það virðist ekki virka sérstaklega vel. Það má kasta rýrð á okkur, það skiptir engu máli. En það er ranglætið sem brennur á þeim sem í hlut eiga og þeim sem horfa upp á þetta gert gagnvart sínum nánustu aðstandendum sem svíður. Við getum hrist af okkur brigsl um popúlisma, það er ekkert vandamál. En okkur er ekki sama um það fólk sem verið er að skilja eftir nú þegar hagur launafólks á Íslandi er að vænkast.

Fyrir kosningar þann 9. apríl 2013 skrifaði formaður Sjálfstæðisflokksins meðal annars grein í Morgunblaðið þar sem kom fram að afturkalla ætti þá kjaraskerðingu sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009, en það var skerðing vegna greiðslna á ellilífeyri, krónu fyrir krónu. Það átti að hætta því og leiðrétta til samræmis við þær hækkanir sem höfðu orðið á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Ríkisstjórnin var nokkuð fljót að fylgja eftir kosningaloforðunum en úthaldið var ekki mikið. Þau ákváðu strax um sumarið að afnema skerðingu vegna lífeyrissjóðstekna á grunnlífeyri. Sú skerðing árið 2009 var aðgerð sem við fórum í, það var mjög þungbært, en sú skerðingarleið var valin því það spöruðust þó nokkrir peningar með henni. Sú skerðing kom ekki við þá lífeyrisþega sem voru með lökust kjörin heldur þá sem höfðu mest réttindi í lífeyrissjóðum. Markmiðið með skerðingunum sem við þurftum að fara í var að verja þá sem minnst höfðu. En hægri stjórnin var ekki lengi að og hóf aðgerðirnar gagnvart þeim sem mest höfðu. Síðan hafði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sett bráðabirgðaákvæði sem fól í sér að prósentuhlutfall tekjuskerðinganna lækkaði aftur frá og með 1. janúar 2014 og það þurfti enga hægri stjórn til þess því Jóhanna Sigurðardóttir var búin að búa svo um hnútana að sú skerðing félli úr gildi eins fljótt og verða mætti. Enn þá skerðist lífeyrir almannatrygginga krónu á móti krónu og nú þráast ríkisstjórnin við að tryggja lífeyrisþegum sömu kjarabætur og launafólki. Efndirnar hafa því ekki verið í samræmi við loforðaflauminn. Ég sé satt best að segja ekki hvernig stjórnarmeirihlutinn ætlar að koma standandi út úr því að fylgja þeirri stefnu sem hér hefur verið mörkuð af honum, að svara ákalli um félagslegt réttlæti með skætingi. Það mun koma honum illa og ég gæti glaðst yfir því ef ekki væri fyrir það ranglæti sem það felur í sér sem yrði afleiðingin. Það er óþolandi, ólíðandi og það er vond meðferð á valdi.

Svo komum við að heilbrigðismálunum. Þar er líka svolítill skætingur. Annars vegar er lífeyrisþegum sendur tónninn í gegnum ákúrur á stjórnarandstöðuna og svo hefur forusta Landspítalans fengið sinn skammt, fólkið sem rekur þjóðarsjúkrahúsið, héraðssjúkrahús höfuðborgarsvæðisins og sjúkrahúsið sem sinnir bráða- og lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu. Ég ætla þó að byrja á að lýsa yfir ánægju með að verið sé af hálfu meiri hlutans að auka fjárveitingar til Landspítalans um 840 millj. kr. til að vinna á biðlistum. Það er algerlega nauðsynlegt. Ég fagna því. Þau eru óteljandi símtölin, tölvupóstarnir og facebook-skilaboðin sem ég hef fengið og eflaust fleiri þingmenn frá fólki sem er búið að bíða mánuðum saman, jafnvel á annað ár, eftir mikilvægum aðgerðum og er jafnvel í þannig ástandi að það getur ekki unnið vegna veikinda sinna en ætti að vera full vinnufært þegar það er búið í aðgerð. Þetta verður mikill léttir fyrir marga og ég vona að þetta muni ganga hratt og vel eftir því biðlistarnir hafa skapað ófremdarástand. Síðan er líka viðbót til Landspítala vegna lifrarbólgu C, rannsóknarverkefni, 280 millj. kr. En að öðru leyti, ef frá eru taldar viðbætur vegna biðlista og rannsóknarverkefnis út af lifrarbólgu C, er í raun og veru raunniðurskurður á Landspítalanum.

Við í minni hlutanum bregðumst við þessum válegu tíðindum með breytingartillögum okkar. Við leggjum til að Landspítalinn fái samtals 2.840 millj. kr. til viðbótar. Þær skiptast þannig að rúmur milljarður er til að mæta aukinni þjónustuþörf vegna þess að okkur er að fjölga og þjóðin að eldast. Um 400 millj. kr. eru til að mæta kjarasamningshækkunum sem Landspítalinn fær ekki að fullu greitt fyrir. Svo eru 1.400 millj. kr. í viðhald, en þar erum við að tala um allra nauðsynlegasta viðhaldið á húsnæði sjúkrahússins, margt af því er í vægast sagt slæmu ástandi. Þessar kröfur Landspítalans voru kallaðar hálfgert væl (Gripið fram í: Hver gerði það?) og það þurfti að nota 30 millj. kr. í það að gera rekstrarúttekt á Landspítalanum, það voru kveðjurnar sem Landspítalinn fékk. Það er sjálfsagt að gera rekstrarúttektir á opinberum stofnunum en þegar slíkt er notað til að vefengja áætlanir ríkisstofnana um þörf fyrir fjárveitingar er það ákaflega ógeðfellt. Landspítalinn setti sig ekki upp á móti þessu enda vita stjórnendur að sjúkrahúsið er stórkostlega vanfjármagnað.

Það er vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi að hið opinbera kerfi fær ekki sjálfkrafa auknar fjárheimildir á milli ára í samræmi við aukið álag vegna þjónustuþarfar meðan við erum með einkarekið kerfi við hliðina sem fær sjálfkrafa slíka aukningu. Við búum við alvarlegan kerfislægan vanda sem verður að taka á. Við erum að grafa undan hinu opinbera kerfi. Landlæknir hefur til að mynda bent á, þetta eru ekki bara pólitískar skoðanir okkar í Samfylkingunni eða minni hlutanum, að mikilvægt sé í litlu landi eins og Íslandi að meginstoðir heilbrigðisþjónustunnar séu á hendi hins opinbera. Það megi ekki dreifa kerfinu of víða og leysa það upp í smærri einingar því mikilvægt sé fyrir háskólasjúkrahúsið að vera með mikið af sérfræðiþekkingu innan sinna dyra, það séu samlegðaráhrif af því og ekki síst er það spurningin um að halda utan um þá þekkingu sem til staðar er og gefa læknum færi á að viðhalda hæfni sinni og þjálfa og kenna unglæknum.

Í þessu fjárlagafrumvarpi sjáum við ekki áherslu á opinbera kerfið heldur þvert á móti á einkarekna hlutann. Það sem verra er er að þegar kemur að heilsugæslunni sem flestir eru sammála um að eigi að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu er verið að undirbúa einkavæðingu hennar. Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar hefur ráðherra heimild til að fara í slíkt án þess að ræða það við þingið, þessa miklu stefnubreytingu. Hér má lesa um það í tillögum meiri hlutans að setja eigi 70 millj. kr. í viðbótarfjárveitingu til heilsugæslustöðva til að standa undir húsaleigukostnaði nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Síðan hefur hv. þm. Oddný Harðardóttir fengið upplýsingar í fjárlaganefnd þegar hún hefur spurst fyrir um útboð að það eigi að fara í slíkt. Við í velferðarnefnd höfum óskað eftir að fá að sjá kröfulýsingar vegna slíkra útboða. Þær eru ekki til staðar enn sem komið er. Síðan lesum við greinar eftir yfirlækni heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann lýsir yfir mikilvægi þess að heimila einkarekstur. En heilbrigðisráðherra virðist hálfhræddur við að segja þetta, hann trommar ekki hér upp til þess að segja hvað hann ætli að lyfta heilsugæslunni. Hann virðist ekki mjög áfjáður að ræða þetta. Ég held að hann vilji ekki ræða þessa einkavæðingu af því að hann veit að það er ekki almennur stuðningur við hana í samfélaginu. Það er mjög alvarlegt, þó að hann þurfi ekki að koma hér fyrir þingið, að hann skuli ekki gera það því þetta er stórkostlegt hagsmunamál. Eitt af því fáa sem Íslendingar eru algerlega sammála um er að það eigi að forgangsraða skattfé í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustan eigi fyrst og fremst að vera á hendi hins opinbera. Þess vegna teldi ég heillavænlegt að hæstv. ráðherra heilbrigðismála kæmi og ræddi þetta við okkur á vettvangi þingsins. Ég hef lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars til að reyna að fá einhvern botn í það hvert hann er að fara, til að fá hann til að senda eitthvað frá sér inn í þingið um þetta. Svo í framhaldinu verður kannski hægt að fá hann til að ræða þetta við okkur.

Ég hefði óskað eftir að sjá áætlun um uppbyggingu Landspítalans. Hér eru fjárveitingar frá ári til árs. Það kemur fé í fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og því fagna ég. En ég hefði viljað sjá áætlun um uppbygginguna og hvenær henni á að vera lokið. Það er nú ekki bara ég sem vil sjá það heldur allt starfsfólk Landspítalans sem bindur miklar vonir við endurnýjun á húsnæðinu. Það er nauðsynlegur þáttur í að laða sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk hingað til landsins og það er mikilvægt fyrir öryggi sjúklinga. Síðan hefði ég líka viljað sjá áform um rannsóknarhúsið, það er mikilvægt að það sé byggt samhliða meðferðarkjarnanum, en ekki er enn þá búið að setja fjármagn í fullnaðarhönnun þess.

Næst langar mig að tala um barnafjölskyldur og þá um fæðingarorlofið og barnabæturnar. Við í minni hlutanum leggjum til að þak fæðingarorlofs verði hækkað í 500 þús. kr. úr 370 þús. kr. Það jafngildir því að fólk á meðallaunum fái fullt fæðingarorlof, 80% af launum sínum sem er viðmiðið. Þetta gerum við af því að eins og allir vita skárum við niður fæðingarorlofið í hruninu. Við vorum byrjuð að bæta inn í það fjármunum aftur og þakið var komið upp í 350 þús. kr. Í tíð þessarar ríkisstjórnar var hætt við þá lengingu sem við höfðum ákveðið að fara út í og þakið hækkað um 20 þús. kr. á mánuði. Ef þessi breyting okkar verður ekki samþykkt mun fæðingarorlofið standa óbreytt í þrjú ár. Fjárhæðir fæðingarorlofs, þak fæðingarorlofs mun þá ekki hafa hækkað í þrjú almanaksár.

Þetta hefur leitt til þess að færri feður taka fæðingarorlof og mæður eru farnar að lenda í meiri vandræðum. Þær taka eðli málsins samkvæmt iðulega fæðingarorlof og vegna kynbundins launamunar eru þær ólíklegri til að fara upp í þakið en það er þó í æ ríkara mæli sem konur verða fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu í fæðingarorlofi. Það er erfitt fyrir fjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum, kaupa húsnæði eða eru á leigumarkaði, eru kannski að byrja að greiða af námslánum sínum og verða síðan þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast börn. Það er mikið álag fyrir heimilið ef það verður umtalsverð lækkun ráðstöfunartekna í allt að níu mánuði. Feður voru mjög fúsir til að taka fæðingarorlofið þegar þeir fengu sérstakan rétt upp úr aldamótunum, en það hefur dregið úr þátttöku þeirra í fæðingarorlofi. Nú eru það þrír af hverjum fjórum feðrum sem börn fá að njóta samvista við á fyrsta æviárinu. Þetta er mjög alvarleg staða.

Það hefur ríkt mikil sátt og ánægja um þetta góða kerfi sem var sett á laggirnar í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og þessir flokkar ættu að sjá sóma sinn í að standa vörð um það, en ef við látum reka á reiðanum að setja það fjármagn þar inn sem þarf og lengja orlofið í samræmi við breyttar áherslur í samfélaginu og aukinn vilja foreldra til samvista við börnin sín, þá gröfum við undan kerfinu. Það endar með því að það verður svo dýrt að lagfæra það að við munum veigra okkur við því. Þess vegna er mikilvægt að þakið fari upp í 500 þús. kr. sem er 80% af meðaltekjum. Það var einmitt það viðmið sem við notuðum þegar við hækkuðum þakið upp í 350 þús. kr., það var nákvæmlega sama viðmið. Hefði þakið fylgt verðlagi frá því sem var fyrir hrun væri þakið í dag um 825 þús. kr. Við treystum okkur ekki til að leggja það til að svo stöddu enda teljum við brýnast sé að mæta þörfum meðaltekjufólks fremur en þeirra sem eru yfir meðaltekjum sem njóta auðvitað líka góðs af þessari hækkun. Ég vona svo sannarlega að stjórnarmeirihlutinn komi með okkur í að verja fæðingarorlofið. Það kostar um 1.700 millj. kr.

Svo leggjum við líka til hækkun barnabóta. Það er mikil sorgarsaga. Í núverandi fjárlagafrumvarpi stendur að barnabæturnar hafi hækkað mjög mikið á síðasta ári. Það breyttist reyndar með fjáraukalögunum því útgjöld til barnabóta lækkuðu um 600 millj. kr. á yfirstandandi fjárlagaári. Þegar Framsóknarflokkurinn var keyptur til fylgilags við matarskattinn var honum fengin dúsa sem meðal annars fól í sér hækkun á barnabótum um milljarð. En Sjálfstæðisflokkurinn sá við þeim og lét eiga sig að lækka tekjuskerðingarmörkin þannig að bæturnar skiluðu sér ekki að fullu. Þannig sparaði hæstv. fjármálaráðherra ríkinu 600 millj. kr. á kostnað barnafjölskyldna og trúverðugleika Framsóknarflokksins. Nú er verið að lækka þær frá fyrri fjárlögum um einar 150 millj. kr. Þetta er náttúrulega bara bull. Þetta eru ekki tölur sem er mark takandi á því það er ekki heldur verið að breyta skerðingarmörkunum núna. Þó að útgjöld til barnabóta séu hér sögð eiga að verða tæpir 11 milljarðar vitum við að þau verða líklega nær 10 milljörðum.

Við viljum að skerðingarmörkum barnabóta verði breytt og útgjöld aukin um 2,4 milljarða. Hv. þm. Oddný Harðardóttir var áður fjármálaráðherra og það var einmitt hennar verk í fjárlögum fyrir árið 2013 að hækka barnabætur umtalsvert sem skref í þá átt að gera barnabætur ótekjutengdar eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Enda er hugmyndin að baki barnabótum ekki sú að þær eigi að vera fátæktaruppbót eins og þær hafa leiðst út í að verða hér á landi. Við eigum að tryggja jöfnuð í gegnum tekjuskattskerfið og þrepin þar, en barnabæturnar eiga að vera til þess að jafna ráðstöfunartekjur fólks á hverju tekjubili miðað við mismunandi framfærslu þannig að t.d. þeir sem eru barnlausir með 600 þús. kr. á mánuði og þeir sem eru með þrjú börn með 600 þús. kr. á mánuði séu nær hvor öðrum í ráðstöfunartekjum í samræmi við ráðstöfun á hvern einstakling með þeirri viðbót sem barnabæturnar eru. Þess vegna leggjum við í minni hlutanum til hækkun á barnabótum og teljum það gríðarlega mikilvægt fyrir barnafjölskyldur þessa lands.

Frú forseti. Ég hef nú rætt, þó yfirborðslega sé, ýmis velferðarmál úr breytingartillögum Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata. En ég get ekki farið héðan nema ræða stuttlega málefni hælisleitenda og flóttafólks. Við leggjum til viðbót til hælisleitenda. Það gerir meiri hlutinn líka. Meiri hlutinn leggur til 87 millj. kr. en við leggjum til viðbót upp á 112 millj. kr.

Ísland hefur ekki farið varhluta af þeim aukna straumi flóttamanna sem nú kemur til Evrópu vegna stríða og hörmunga. Við þingmenn í minni hlutanum brugðumst við því með þingsályktunartillögu sem fól í sér að Ísland tæki á móti 100 kvótaflóttamönnum á yfirstandandi ári og 200 á næstu tveimur. Svo kom ríkisstjórnin með útspil og sagðist ætla að leggja 2 milljarða í þetta verkefni á yfirstandandi ári og því næsta. Því var fagnað. Við höfum aldrei fengið almennilega greiningu á því hvernig á að ráðstafa þeim fjármunum, en það má lesa út úr fjáraukalögum og fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þá kemur í ljós að aðeins um 16% af þessum 2 milljörðum eiga að fara í móttöku kvótaflóttafólks, fólksins sem er í flóttamannabúðum allt í kringum Sýrland, en stærstu straumarnir eru nú frá Líbíu, Sýrlandi og Eþíópíu.

Alþjóðaflóttamannastofnunin hefur verið með hávært ákall um að ríki heimsins taki fleiri kvótaflóttamenn. Hæstv. forsætisráðherra var mjög ákveðinn í því að það ætti alls ekki að nefna einhverja tölu. Væntanlega hefur hann verið með svo lága tölu í huga að hann hefur ekki viljað segja hana upphátt. Krafan í samfélaginu er nokkuð hávær um allt að 500 flóttamenn. Þótt auðvitað sé hópur sem vill að við tökum á móti fleirum og hópur sem vill að við tökum á móti færri er nokkuð rík sátt um að gera þetta sæmilega myndarlega, 500 sé engin ofrausn. En það lítur allt út fyrir að þeir verði ekki 500 heldur vel innan við 100. Mér finnst skömm að því að við séum ekki tilbúin til að taka meiri ábyrgð sem þjóð meðal þjóða, sem rík þjóð, á því ástandi sem nú er uppi.

Síðan er verið að setja umtalsverða fjármuni í alþjóðastofnanir og það er mjög jákvætt og gott þar sem verið er að veita aðstoð á nærliggjandi svæðum þar sem flestir flóttamenn eru og létta undir með þeim ríkjum sem bera hvað mestar byrðar. Það eru Tyrkland, Líbanon og Pakistan, þetta eru ríkin sem taka langmest, og Eþíópía. Ég sagði Eþíópía áðan en ætlaði að segja Erítrea, þaðan er fólk að flýja, en Eþíópía er eitt af þeim ríkjum sem taka einna mest á sig ef maður lítur til efnahags. Það eru þessi ríki sem við erum að koma til móts við og auðvelda þeim móttöku flóttafólks og aðstoða við það og alþjóðastofnanir sem þar starfa. Það er mikilvægt.

Síðan á að setja meira en fjórðung af þessari fjárhæð, 2 milljörðum, í hælisleitendur. Það eru fjármunir sem að mínu mati ættu ekki að vera inni í þessum 2 milljörðum, þetta eru fjármunir sem við hefðum engu að síður þurft að leggja til. Hingað leita æ fleiri, ekki síst fólk úr fátækum ríkjum þar sem hafa verið pólitísk átök eða stríð innan Evrópu. Koma þeirra hingað hefur aukist mjög. Við vorum að reka fimm fjölskyldur burt í nótt og notuðum þar lagaákvæði sem Samfylkingin studdi ekki og kom inn í lögin 2014. Þar er búin til mælistika. Ef þú ert frá ákveðnum ríkjum er varla farið í einstaklingsmat á umsókn þinni. Að mínu mati þarf að endurskoða lög um útlendinga og sýna þar meiri mannúð og mildi. Það á ekki að nota fjármuni sem hvort eð er hefðu þurft að fara inn á fjárlög sem hluta af þeim 2 milljörðum sem áttu að fara í það verkefni sérstaklega að takast á við aukinn flóttamannastraum.

Frú forseti. Ég læt máli mínu lokið að svo stöddu þó að ég hafi nægilegt efni til að fara í fjölmargar ræður til viðbótar um þetta frumvarp.