145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum rætt kjör ellilífeyrisþega og öryrkja og ætla ég ekki að eyða tíma í það hér. Við vonum bara að það fari allt vel. En stundum finnst mér eins og við gleymum því að það eru hópar úti í samfélaginu sem hafa það bara alls ekki gott. Meðlagsgreiðendur hafa stundum verið nefndir til sögunnar. Ef maður skoðar skýrsluna sem Velferðarvaktin hefur gert eru einhleypir einstaklingar stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum og einstæðir foreldrar. Auðvitað geta þeir verið öryrkjar í einhverjum tilfellum, en mér finnst við ekki gefa þessu nægilega mikinn gaum. Þetta er hópur sem myndar ekki endilega einhvern þrýstihóp og fellur ef til vill svolítið á milli.

Ég velti fyrir mér: Hvernig við tryggjum að það falli enginn í fátæktargildruna? (Forseti hringir.) Við fókuserum á ellilífeyrisþega og öryrkja, en meðlagsgreiðendur er hópur sem ég hef samúð með og mér finnst hann ekki hafa fengið nægilega athygli.