145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta voru tvær laufléttar spurningar. Ég vil byrja á því að segja varðandi þróunaraðstoðina að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, sem ég veit ekki hverjir búa til, ætli það séu ekki Sameinuðu þjóðirnar, flokkast móttaka flóttamanna sem þróunaraðstoð fyrstu tvö árin, að ég held, sem þeir eru í viðkomandi landi. Ég held að það sé ekki óeðlilegt. Það er því mikilvægt þegar við birtum upplýsingar um þróunaraðstoð að vel sé flokkað hvernig hún dreifist því að auðvitað eigum við að dreifa henni þannig að við séum ekki eingöngu að setja á einn lið þróunaraðstoðarinnar heldur bæði í móttöku flóttafólks og í fjárveitingar til þeirra landa sem við eigum þróunarsamvinnu við.

Varðandi fangelsismálin þá stórvantar fé þangað inn. Ég held að skynsamlegasta og mannúðlegasta leiðin væri að endurskoða refsiramma, (Forseti hringir.) t.d. í fíkniefnabrotum sem og öðrum brotum, (Forseti hringir.) draga úr þeim fjölda fólks þar af leiðandi sem við lokum inni í fangelsi og nota peningana til að breyta (Forseti hringir.) áherslum í fangelsismálum úr refsivist í betrunarvist.