145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Á síðasta kjörtímabili var nokkuð víðtæk samstaða um þær breytingar sem gerðar voru á safnliðum; nánast alger að undanskildum fulltrúum Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. Að öðru leyti voru allir ákafir í þessar breytingar, ekki síst fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem lögðu mikla áherslu á að þessi vinna kláraðist sem allra fyrst.

Hún tók dálítinn tíma. Skipaður var starfshópur fulltrúa allra flokka í fjárlaganefnd til að finna bestu leiðina. Hún var fundin að mínu mati. Nú er hins vegar lagt til, í þessu kostulega nefndaráliti, sem ég á eftir að fara betur yfir í næstu ræðu minni, að skipuð verði sérstök þingmannanefnd; að þetta verði tekið skrefinu lengra en menn hafa haft hugmyndaflug til hingað til. Það verði sérstök þingmannanefnd sem muni taka að sér að sjá um safnliði, skoða félagasamtök hingað og þangað um landið, góðgerðasamtök, og sáldra síðan peningum út eftir því hvað þingmönnum finnst.

Þetta er eiginlega verra en þegar bláu (Forseti hringir.) miðarnir voru í gangi hér á þinginu, símamiðarnir með minnismiðunum um að muna eftir ljósaperum og girðingastaurum hingað og þangað um landið. Þó að ég sé nú ekki æstasti aðdáandi Sjálfstæðisflokksins hef ég trú á því að hann vilji hafa góða stjórn á fjármunum. Hvað heldur þingmaðurinn um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?