145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var nokkuð undarleg og ekki voru minna undarleg síðustu orðaskiptin og hvernig menn gátu lesið út úr því að þingmannanefnd sem á að endurskoða og fara yfir þetta ætti að deila út fé. Þau markmið sem lagt var upp með hafa augljóslega ekki náðst. Ég get rætt það seinna, ég geri það ekki í stuttu andsvari.

Mér þykir leitt að verið sé að dylgja um að verið sé að senda Landspítalanum einhverjar sendingar og út af einhverju vantrausti hafi verið ákveðið af forustu Landspítalans og forustu fjárlaganefndar að setja 30 milljónir í úttekt.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hún talaði um heilsugæsluna: Er hún á móti einkarekstri í heilsugæslunni? Af hverju? Er hún á móti lögum um sjúkratryggingar og þar af leiðandi á móti norræna kerfinu sömuleiðis? Síðan að endingu: (Forseti hringir.) Af hverju eru tillögur minni hlutans til fjárlaga sem núna liggja fyrir ekki fjármagnaðar?