145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér var gerð breyting á þingskapalögum til að Alþingi fengi lengri tíma til að fjalla um fjárlagafrumvarpið. Nú erum við komin vel inn í desember og erum í miðri 2. umr. fjárlaga þegar hér kemur breytingartillaga við breytingartillögu á þskj. 586 við fjárlög ársins 2016, ófyrirséð útgjöld, hækkun um 1.200 millj. kr. Ég legg til að hv. fjárlaganefnd fái nú að kalla málið aftur inn til nefndar, fái sólarhring til að fara yfir það hvort málið sé í raun og veru fullbúið til umræðu vegna þess að það dugar ekki að vera með breytingartillögu við breytingartillögu dag eftir dag og láta hlaupa á milljarði eins og það sé eitthvert grín. Það er ekki svo.

Ég legg til að fundinum verði slitið (Forseti hringir.) og fjárlaganefnd fái að fara yfir dálkana í rólegheitunum með nefndarriturum sínum.