145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:38]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að taka undir með þeim sem hafa vakið athygli á því að það gleymdist liður upp á 1,2 milljarða, kjarabætur framhaldsskólakennara. Það er frekar neyðarlegt, ef svo má segja.

Hins vegar langar mig til að spyrja virðulegan forseta hvenær hún hyggst ljúka fundi í kvöld. Við þurfum mörg hver að vera mætt á fundi kl. 9 á morgun, ef ekki 8, og það er bara ekki við hæfi að keyra fólk út fram eftir öllum kvöldum.

Í næstu viku hafa engir nefndafundir verið skipulagðir samkvæmt dagskrá Alþingis og spyr ég sömuleiðis hvort ekki væri við hæfi að reyna að byrja þingfundi fyrr og fresta öllum nefndafundum fram yfir áramót. Þá væri kannski tími til að taka á móti gestum í ró og næði frekar en að blanda heimsóknunum inn í fjárlagaumræðuna.