145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fjárlagaumræða er auðvitað alveg gríðarstórt mál og ég hef alveg skilning á því að það geti verið erfitt að halda utan um allar tillögur og breytingartillögur. Það verður samt að segjast eins og er að 1,2 milljarðar eru ansi stór breyting og að þá skuli vanta inn til að hægt sé að uppfylla kjarasamning við kennara.

Mér finnst mjög umhugsunarvert að síðustu daga höfum við fundað langt fram á kvöld. Ég er viss um að það eru fleiri þingmenn þreyttir en bara ég og mér finnst þetta hreinlega benda til þess að ekki sé full yfirsýn yfir það verkefni sem við erum að takast á við hérna sem er að koma fjárlögunum saman. Í ljósi þess að fjárlaganefnd ætlar að funda í fyrramálið finnst mér augljóst að nú þegar eigi að slíta þessum fundi til að þingmenn geti vaknað ferskir til (Forseti hringir.) að sinna vinnunni sinni sómasamlega í fyrramálið. Það er ekki hægt að hafa yfirsýn yfir svona stór mál illa sofinn og þreyttur og það er þegar komið í ljós.