145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er flaggað heldur háum tölum sem ég hygg að skipti miklu máli, sér í lagi vegna þess að hér göngum við út frá því sem gefinni forsendu að við eigum við hallalaus fjárlög, sem ég geri ráð fyrir að sé enn þá tilfellið, en það skiptir máli hversu mikið svigrúmið er. Það hefur áhrif á þær ræður sem koma í kjölfarið.

Því skiptir það máli fyrir þá ræðumenn sem koma hér á eftir hver áhrifin af þessari breytingu eru. Það skiptir meira að segja máli upp á breytingartillögu minni hlutans ef út í það er farið og aðrar breytingartillögur sem verða lagðar fram.

Ég er næstur á mælendaskrá. Mér þykir það skipta mjög miklu máli hvernig ríkissjóður stendur og hver afgangurinn er. Mér finnst auðvitað mikilvægt að það sé afgangur og þess vegna tek ég taka undir ósk um að þetta verði rætt í nefnd áður en við höldum umræðunni áfram. Við vitum alveg hvernig þetta mál hefur tafist og maður hefur alveg skilning á því að fólki yfirsjáist hlutir. Ég skil það alveg en þá á líka að bregðast rétt við því.