145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það, þetta er óttalega bagalegt en vissulega getur alltaf eitthvað svona komið fyrir. Ekki ætla ég að rengja það en þetta eru kannski, eins og hér hefur komið fram, fyrirséðar breytingar. Þegar farið er í gegnum allan launapakkann eru þetta samningar sem mikið var rætt um á síðasta ári og ég hefði haldið að upphæðirnar hefðu átt að fara inn.

Það er fundur í fjárlaganefnd í fyrramálið og þar á, eftir því sem ég kemst næst, að ræða fyrst og fremst málefni eldri borgara og öryrkja sem við ræddum í dag. Af því að hv. varaformaður fjárlaganefndar er hér og ég sé að hann hefur kvatt sér hljóðs mælist ég til þess að þetta mál verði tekið fyrir þar. Hér kemur fram að skipting á einstök viðfangsefni verði sýnd í sérstöku yfirliti og að breytingar muni koma fram í viðkomandi fjárveitingum í stöðuskjali eftir 2. umr. Ég mundi gjarnan vilja sjá þetta og vita hvort ekki væri hægt að koma því við að við þyrftum ekki að ljúka umræðunni áður en þessar upplýsingar lægju hér allar fyrir. (Forseti hringir.) Ég hvet hann til að koma því áleiðis.